Nýliðunarvandi
Þetta orð, nýliðunarvandi, hefur heyrst lengi í umræðu um íslenskan landbúnað og æ oftar á síðustu árum. Ástæðan er ekki sú að það vanti áhuga hjá ungu fólki á því að hefja búskap. Nei, ástæðan er sú að því unga fólki sem vill hefja búskap er gert erfitt fyrir að koma sér upp búi.
Flest ungt fólk sem hefur búskap tekur við af eldri kynslóð en talið er að um það bil þrjátíu prósent byrji án þess að hafa fjölskylduaðgang að býli eða bústofni. Vandinn er einkum hinna síðarnefndu eins og gefur að skilja. Fjárfestingin fyrir þennan hóp getur numið hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum ef allt er talið. Það þarf öflugt bú til þess að standa undir afborgunum stórra lána.
Og þar liggur hundurinn grafinn, að mati Steinþórs Loga Arnarssonar, formanns Samtaka ungra bænda, sem var viðmælandi í nýjasta þætti Útvarps Bændablaðsins. Aðalatriðið sé að afkoma bænda sé góð, nógu góð til þess að hægt sé að standa undir rekstri bús með þungum lánum.
„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og byggingar, að það sé hægt að reikna sig fram úr þessu. Hægt sé að taka við búum sem eru jafnvel í fullum rekstri eða þá byggja upp frá grunni. Kerfið eins og það er í dag býður tæplega upp á þetta,“ segir Steinþór Logi.
Hann nefnir þrjú atriði sem þurfi að huga sérstaklega að til þess að gera ungu fólki auðveldara að taka við búrekstri eða stofna til nýs. Huga þurfi að skattalegum ívilnunum við kynslóðaskipti eins og gert er í nágrannalöndunum. Fjármögnunarleiðum verði að fjölga. Í því sambandi þurfi einnig að endurskoða lánstíma. Hann er almennt 25 ár á lánum til fjárfestingar í landbúnaði. Til samanburðar er hann allt að fjörutíu árum við fasteignakaup. Vaxtastigið undanfarið hefur síðan verið íþyngjandi fyrir bændur eins og aðra hér á landi. Í þriðja lagi þurfi að hækka nýliðunarstuðning. Sem stendur er hann tæplega eitt prósent af heildarstuðningsgreiðslum í íslenskum landbúnaði og hefur ekkert breyst í tíu ár. Til samanburðar er hann þrjú prósent í Evrópu og stefnt að því að hann verði að minnsta kosti sex prósent og jafnvel tíu. Steinþór Logi segir að í þessum efnum geti Íslendingar horft til þess sem er að gerast í Evrópu en þar hafi verið lögð áhersla á nýliðunarstuðning við unga bændur um langa hríð.
Það er auðvitað lykilatriði fyrir viðgang íslensks landbúnaðar að ráðin verði bót á nýliðunarvandanum. Meðalaldur starfandi bænda er ríflega sextíu ár, bæði hérlendis og í Evrópu. Þá tölu þarf að lækka með markvissum aðgerðum.
Hvað segja bændur?
Nýr efnisliður birtist í fyrsta skipti í blaðinu í dag undir heitinu Hvað segja bændur? Þar er um að ræða spurningakönnum sem send verður á bændur, sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands, fyrir útgáfu hvers blaðs. Svörin við könnuninni verða svo birt í blaðinu án frekari málalenginga enda ætlunin að þetta efni standi undir nafni. Honum er með öðrum orðum ætlað að kanna viðhorf bænda í Bændasamtökum Íslands til aðskiljanlegustu mála, ekki aðeins þeirra sem koma hagsmunum þeirra sjálfra við heldur og alls almennings í landinu, stórra sem smárra.
