Jarmað, hneggjað, baulað ...
Mercosur-samningurinn verður undirritaður á laugardaginn í Paragvæ eftir meira en aldarfjórðungs langar viðræður á milli Evrópusambandsins og fimm landa Suður-Ameríku, Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ, Paragvæ og Bólivíu. Með samningnum verður til 700 milljóna manna markaðssvæði þar sem tollar falla niður á meira en 90% vöruviðskipta. Þar á meðal munu koma til tollfrjálsir innflutningskvótar á nautakjöti, kjúklingi, hrísgrjónum, hunangi og sykri frá Suður-Ameríku. Þetta eru almennt ódýrari matvæli en framleidd eru í Evrópu enda kröfur um heilnæmi, framleiðsluskilyrði, umhverfisstaðla og dýravelferð ekki jafnmiklar. Er óttast að þessi innflutningur muni keyra niður verð á matvælum í Evrópu og valda skaða á landbúnaði álfunnar.
Evrópskir bændur hafa mótmælt kröftuglega. Þeir hafa haldið mótmælum áfram eftir að samningurinn var samþykktur á sunnudaginn. Þeir munu væntanlega enn mótmæla enda bíður samningurinn samþykktar Evrópuþingsins og þjóðþinga aðildarríkjanna. Frakkar hafa mótmælt honum kröftuglega og sömuleiðis Írar, Ungverjar, Austurríkismenn og Pólverjar. Ítalir höfðu sömuleiðis verið gagnrýnir á samninginn en ákváðu svo að styðja hann eftir að hafa náð í gegn auknum stuðningi við evrópskan landbúnað og reið það baggamuninn ásamt því að Belgar sátu hjá.
Evrópusambandið ætlar að setja á sérstakan sjóð til að bæta mögulegan skaða fyrir evrópska bændur. Þar með er skaðsemi samningsins fyrir evrópskan landbúnað viðurkennd. Spurningin er hversu mikill skaðinn verður.
Samningurinn á milli Mercosur og Evrópusambandsins kemur í kjölfar sambærilegs samnings á milli EFTA-ríkjanna, þar á meðal Íslands, og Mercosur á síðasta ári. Sá samningur nær til um 97% af öllum útflutningsvörum ríkjanna, þar á meðal landbúnaðarafurða. Útflutningur frá Íslandi til Mercosur í fyrra nam aðeins um 5,5 milljónum evra, sem er brotabrot af heildarútflutningi á íslenskum vörum.
Báðir þessir samningar munu hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Hér eru skilyrði um heilnæmi, sýklalyfjanotkun, dýravelferð og fleira jafnvel enn harðari en gerist í Evrópusambandinu. Gera verður ráð fyrir því að íslenskum bændum sé gert afar erfitt að keppa við aukinn innflutning frá Suður-Ameríku með þessum samningum.
Ofan í kaupið koma aðgerðir stjórnvalda hér á landi sem miða að því að þrengja enn frekar að möguleikum bænda og fyrirtækja þeirra til þess að eiga í samstarfi um matvælavinnslu. Ný búvörulög eiga þannig ekki eftir að hjálpa bændum að svara þeirri samkeppni sem von er á í nafni samninga við Mercosur-löndin.
Spurningin er hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér að íslensk frumframleiðsla á matvælum muni þróast í þessu nýja alþjóðlega samhengi. Kalla verður eftir einhverjum hugmyndum þar um. Þær hafa enn ekki komið fram.
