Nýtum tækifærin
Mikill árangur hefur náðst í íslenskum landbúnaði þennan fyrsta fjórðung aldarinnar. Bændur hafa nýtt þessi ár til þess að hagræða í rekstri, umfram allt með tækniþróun og skynsamlegri nýtingu stærðarhagkvæmni. Framleiðni hefur aukist í svo að segja öllum hefðbundnum búgreinum og þær sem eiga sér styttri sögu hafa styrkst verulega, svo sem garðyrkja og skógrækt. Lífrænni ræktun hefur einnig vaxið ásmegin. Í öllum þessum búgreinum eru þó gríðarleg sóknarfæri og ljóst að bændur eiga enn eftir að sækja fram með frekari nýtingu tæknilausna og rekstrarhagkvæmni. Aukinn nákvæmnisbúskapur og LED-ljósavæðing gróðurhúsa eru nýleg dæmi.
Samhliða því að hafa aukið framleiðni og bætt rekstur í mörgum greinum þá hefur íslenskur landbúnaður orðið sjálfbærari. Árangur bænda í umhverfisog loftslagsmálum er eftirtektarverður en losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði hefur dregist saman jafnt og þétt það sem af er öldinni eins og fram kemur í tölum Umhverfis- og orkustofnunar. Þar blasa þó við áskoranir sem tengjast til að mynda úrgangsmálum eins og fjallað var um á ítarlegan hátt í blaðinu fyrr á árinu.
Tækifærin í íslenskum landbúnaði eru ótal mörg. Augljósust eru þau í garðyrkjunni þar sem öfugþróun hefur átt sér stað á undanförnum misserum með því að hlutdeild íslenskrar framleiðslu á innlendum markaði hefur dregist saman um tíu prósentustig og er nú aðeins um 26 prósent. Þarna þarf að styðja við aukna framleiðslu með hvetjandi aðgerðum, til dæmis lækkun raforkuverðs til framleiðenda.
Einnig eru tækifæri í framleiðsluhvetjandi aðgerðum í kjötframleiðslu, ekki síst nautakjöti. Á sama hátt þurfa alifugla- og svínabændur sterkari tollvernd ef viðhalda á núverandi markaðshlutdeild eða auka hana eins og æskilegast væri. Sauðfjárbændur standa hins vegar frammi fyrir ýmsum áskorunum í sínum rekstri, bæði hvað varðar afkomu bænda og uppsafnaða fjárfestingarþörf í greininni. Ljóst er að auka þarf fjárfestingarstuðning ef greinin á að ná vopnum sínum á næstu árum.
Og, já, landbúnaðurinn þarfnast stuðnings. Það kostar öll ríki heims að halda úti sinni eigin matvælaframleiðslu. Íslendingar hafa ekki fundið neina leið fram hjá þeirri staðreynd og munu ekki gera það þótt stundum mætti halda annað þegar hlustað er á almenna umræðu. Viðhald og viðgangur íslensks landbúnaðar er þess heldur ekki bara spurning um fæðuöryggi landsins og sjálfbærni heldur snertir hann einnig byggðafestu í landinu. Landbúnaður hefur einnig mikil og jákvæð áhrif á aðra atvinnuvegi svo sem ferðamannaiðnað. Að auki er heilnæmi íslenskra landbúnaðarafurða meira en gengur og gerist annars staðar. Þannig mætti halda áfram.
Umræðan um landbúnað þarf í auknum mæli að snúast um tækifærin sem felast í þessum grunnatvinnuvegi. Þar hittir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra naglann á höfuðið í aðsendri grein í blaðinu í dag. Bændur hafa unnið sína heimavinnu í því sambandi og eru tilbúnir til þess að nýta hvert tækifæri sem býðst til þess að halda áfram uppbyggingar- og þróunarstarfinu öllum landsmönnum til hagsbóta.
