Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki
Leiðari 20. janúar 2026

Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Óhætt er að segja að við lifum nú á áhugaverðum tímum, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Ótrúlega örar breytingar eru að verða á samfélagi okkar og umhverfi, hvort sem drifkraftarnir eru tækninýjungar, breyttar kröfur neytenda, loftslagsbreytingar eða duttlungar stjórnmálamanna, innlendra sem erlendra.

Það er alls ekki svo að breytingar séu í eðli sínu slæmar, eða að þær breytingar sem við erum að upplifa núna séu allar óheppilegar. Margar þeirra fela í sér tækifæri og möguleika fyrir land og þjóð – þar á meðal okkur bændur, en sumar fela að sama skapi í sér ógnir sem takast verður á við.

Ókyrrð er mikil í alþjóðastjórnmálum og fer vaxandi. Fyrir utan það sem mesta athygli fær í fjölmiðlum, og allir þekkja, má nefna að samningar ESB og Mercosur-ríkjanna munu hafa mikil áhrif á samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar. Landbúnaðarvörur frá Suður- og MiðAmeríkuríkjum, sem innan skamms fara á evrópska markaði, munu fljótt enda í vöruhillum á Íslandi. Þá eru fram undan kosningar um viðræður um aðild að ESB, en óþarft er að tíunda það hér hve mikil áhrif aðild hefði á íslenska bændur og íslenskan landbúnað.

Á tímum örra breytinga er mikilvægt að búa yfir nægilegum styrk og sveigjanleika til að takast á við þær, að geta nýtt tækifærin sem þær færa og forðast ógnirnar sem geta fylgt í kjölfar þeirra.

Ýmislegt þarf að gera til að veita íslenskum bændum og fyrirtækjum í landbúnaði aukinn styrk og sveigjanleika og það kemst ekki allt fyrir í hefðbundnum búvörusamningum. Þess í stað tel ég augljóst að hefja verði vinnu við að tryggja íslenskum landbúnaði starfsskilyrði sem skila munu ómældum ágóða til samfélagsins alls.

Það er í raun ekki hægt að fara í viðræður um starfsskilyrði bænda án þess að tollverndin sé þar undir, enda er hún ein af grunnstoðum afkomu okkar bænda. Það sama á við um umhverfis- og loftslagsmál, en með stuðningi ríkisins gætu bændur náð enn meiri árangri en hingað til.

Eins þarf að takast á við hraðminnkandi fjárfestingu í landbúnaði, þrátt fyrir mikla fjárfestingarþörf. Framleiðslan hefur í mörgum tilfellum ekki haldið í við stækkandi markað. Aukið aðgengi að þolinmóðu fjármagni fyrir bændur er lykilatriði svo að nauðsynlegri fjárfestingaþörf verði mætt.

Tryggja verður stöðugt aðgengi að ódýrri raforku fyrir bændur. Orkukostnaður allra bænda hefur aukist til muna að undanförnu og fyrir marga bændur ráða orkuskipti, orkustýring og aðgengi miklu um framtíðarhorfur.

Allt miðar þetta að því sama, að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í búrekstri. Að gera bændum kleift að gera langtímaáætlanir og gefa þeim svigrúm til að fjárfesta og byggja upp.

Íslenskur landbúnaður gegnir ómetanlegu hlutverki í öryggi þjóðarinnar. Í heimi sem ber sífellt meiri merki loftslagsbreytinga og örra sviptinga í alþjóðastjórnmálum, er skýrara en oft áður að öflug innlend matvælaframleiðsla er þjóðaröryggismál. Til að landbúnaðurinn geti sinnt þessu hlutverki þarf hann að njóta trausts – bæði almennings og stjórnvalda – og starfsskilyrði hans að byggja á raunsæi, stöðugleika og sanngirni.

Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki
Leiðari 20. janúar 2026

Fyrirsjáanleiki og stöðugleiki

Óhætt er að segja að við lifum nú á áhugaverðum tímum, svo ekki sé fastar kveðið...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 16. janúar 2026

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Mercosur-samningurinn verður undirritaður á laugardaginn í Paragvæ eftir meira e...

RÚV og einkamiðlarnir
Leiðari 15. janúar 2026

RÚV og einkamiðlarnir

Ef stofnun fjölmiðils er verulega óskynsamleg hugmynd – jafnvel vitlausari en að...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 18. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Ríkisstjórnin magalenti á árinu. Stóra planið virðist hafa verið að taka svo að ...

Nýtum tækifærin
Leiðari 18. desember 2025

Nýtum tækifærin

Mikill árangur hefur náðst í íslenskum landbúnaði þennan fyrsta fjórðung aldarin...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...