RÚV og einkamiðlarnir
Leiðari 15. janúar 2026

RÚV og einkamiðlarnir

Höfundur: Þröstur Helgason, ritstjóri

Ef stofnun fjölmiðils er verulega óskynsamleg hugmynd – jafnvel vitlausari en að stofna bókaútgáfu eða fjárbú – þá hefur eitthvað farið úrskeiðis í samfélaginu. Ef ráðherra fjölmiðla sér ástæðu til að geta þess sérstaklega í aðgerðapakka, sem ætlað er að styrkja rekstur fjölmiðla, að blaðamennska skipti samfélagið máli, þá er það enn frekar til marks um að eitthvað mikið hafi farið úrskeiðis.

Og þannig er staðan hér á landi. Alla þessa öld hefur það reynst æ erfiðara að reka fjölmiðil í þessu samfélagi. Þetta er alþjóðleg þróun en íslensk stjórnvöld voru lengi að átta sig á því hversu slæm staðan var hér. Fyrstu viðbrögðin komu ekki fyrr en árið 2020 þegar ákveðið var að efna til þess stuðnings við fjölmiðla í formi endurgreiðslu á hluta útlagðs kostnaðar sem enn er við lýði. Ástæða viðbragðsins var ekki augljós öfugþróun síðustu áratuga heldur sá víðtæki rekstrarvandi sem að fjölmiðlum steðjaði „vegna tekjufalls í kjölfars heimsfaraldurs kórónuveiru“, eins og segir í reglugerðinni.

Þessi aðgerð hjálpaði mörgum yfir erfiðasta hjallann á sínum tíma en hefur í raun og veru ekki breytt þeirri staðreynd að enn er það glórulaust að stofna fjölmiðil á þessu landi. Og fjölmiðlum jafnt sem blaðamönnum hefur haldið áfram að fækka.

Þær aðgerðir sem Logi Einarsson, ráðherra málaflokksins, boðaði fyrir jól eiga sömuleiðis eftir að hjálpa en það á eftir að koma í ljós hvort þessar 2–300 milljónir muni hafa veruleg áhrif á rekstrargrundvöll fjölmiðla á Íslandi eða fjölga blaðamönnum svo einhverju nemi. Sú aðgerð að láta 12% af auglýsingasölu RÚV renna til einkarekinna fjölmiðla lýsir aftur á móti dapurlegri sýn á hlutverk almannamiðilsins. Ríkisútvarpið getur einfaldlega ekki haft það sem eitt af sínum meginhlutverkum að selja auglýsingar til að afla tekna fyrir aðra fjölmiðla. Aðgerðin mun ekki efla miðilinn. Raunar vinnur það gegn hlutverki RÚV að starfsemi þess og dagskrá miði að sölu auglýsinga.

Það er nefnilega ástæða fyrir því að bestu og áhrifaríkustu almannamiðlar Evrópu eru ekki seldir undir auglýsingar. Ástæðan er sú að þeir þurfa þar með ekki að taka tillit til auglýsingasölu í dagskrá sinni. Þeir geta einbeitt sér að því að sinna hlutverkinu. Hér nægir að nefna dæmi um fjölmiðla frá nágrannalöndunum sem hafa að mörgu leyti mótað grunnhugmyndina um almannamiðilinn eins og við þekkjum hana í dag, BBC, DR, NRK, SVT og SR.

Pólitísk umræða um RÚV þarf að breytast. Hún þarf að fjalla um hlutverk miðilsins. Rekstrarlegar forsendur þurfa svo að styðja við hlutverkið. Sé horft til þeirrar megináherslu sem lögð er á upplýsinga- og menningarhlutverkið nú um stundir er það augljóst öllum sem til þekkja að það myndi styrkja Ríkisútvarpið að losna við auglýsingarnar. Þau sem halda því fram að þar með væri RÚV berskjaldaðra gagnvart fjárveitingarvaldi ríkisins horfa fram hjá því að fjárveitingar til RÚV hafa verið skornar niður og verða skornar niður ef pólitískur vilji er fyrir því, burt séð frá rekstrarforminu.

Sömuleiðis er óumdeilt að það myndi hleypa nýju lífi í einkarekna miðla að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Einhver hluti auglýsinganna myndi fara til erlendra tæknirisa eins og þegar hefur gerst og það mun halda áfram að gerast ef ekkert verður aðhafst. Lausn þess vanda snýr aftur á móti ekki að veru RÚV á auglýsingamarkaði. Aðrar aðgerðir til handa einkareknum fjölmiðlum gætu meðal annars beinst að því að gera þeim það auðveldara og kostnaðarminna að ráða til sín blaðamenn. Auk þess myndi það efla íslenska blaðamennsku að gera blaðamönnum kleift að starfa sjálfstætt eins og bent hefur verið á að undanförnu.

Aðgerðir ráðherra eru fálmkenndar. Á bak við þær er ekki það hugrekki sem þarf. Allar aðgerðir eru til einhvers í þessu sambandi en það er löngu orðið aðkallandi að sýndur verði raunverulegur vilji til þess að viðhalda og helst efla lýðræðislega innviði í landinu.

RÚV og einkamiðlarnir
Leiðari 15. janúar 2026

RÚV og einkamiðlarnir

Ef stofnun fjölmiðils er verulega óskynsamleg hugmynd – jafnvel vitlausari en að...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 18. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Ríkisstjórnin magalenti á árinu. Stóra planið virðist hafa verið að taka svo að ...

Nýtum tækifærin
Leiðari 18. desember 2025

Nýtum tækifærin

Mikill árangur hefur náðst í íslenskum landbúnaði þennan fyrsta fjórðung aldarin...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...

Mikill vöxtur í landeldi
Leiðari 20. nóvember 2025

Mikill vöxtur í landeldi

Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í íslensku landeldi á næstu árum, eins og fram ...

Vannýtt tækifæri
Leiðari 6. nóvember 2025

Vannýtt tækifæri

Hlutfall innlendrar búvöruframleiðslu á íslenskum matvörumarkaði hefur dregist s...