Jarmað, hneggjað, baulað ...
Það segir sitt um stöðu einkarekinna miðla hér á landi að forsvarsfólk auglýsingastofa og -framleiðenda halda því fram að einkamiðlarnir myndu ekki geta staðið undir því hlutverki að koma auglýsingum örugglega til skila við almenning. Þess vegna þurfi að halda RÚV á auglýsingamarkaði.
Þessar raddir hafa heyrst æ oftar á síðasta áratug eða svo. Þær hafa orðið háværari eftir því sem staða einkamiðla hefur veikst og samfélagsmiðlar hafa tekið stærri hluta af auglýsingamarkaðnum.
Mikilvægi RÚV á auglýsingamarkaði hefur vaxið með þessari þróun. Í skýrslu um takmarkanir á auglýsingasölu Ríkisútvarpsins frá 2023 klofnaði starfshópur í afstöðu sinni til málsins. Var komist að þeirri niðurstöðu að taka ætti almannamiðilinn af auglýsingamarkaði en í skýrslunni kom fram minnihlutaálit Steindórs Dan Jensen, fulltrúa menningar- og viðskiptaráðuneytis í starfshópnum, þar sem meðal annars var vísað til þeirra mótraka sem hér hafa verið nefnd, „að áhrifin yrðu neikvæð á markaðinn í heild, svo sem á starfsemi auglýsingastofa og störf þeirra sem með beinum eða óbeinum hætti koma að framleiðslu auglýsinga“. Þáverandi ráðherra ákvað að fara ekki að tillögu starfshópsins um að taka RÚV af auglýsingamarkaði.
Sé það rétt að einkamiðlar geti ekki staðið undir auglýsingamarkaðnum í landinu þá er það ískyggileg staða. Sú þróun sem orðið hefur ætti samt ekki að koma neinum á óvart. Með henni hefur verið fylgst frá ári til árs á öllum vígstöðvum. Það sem hins vegar kemur á óvart er að lítið hefur verið aðhafst. Stjórnvöld hafa horft á þessa þróun án þess að grípa til verulegra aðgerða. RÚV er enn á auglýsingamarkaði, einkamiðlar verða æ veikari og alþjóðlegir samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Google fitna eins og púkinn á fjósbitanum án þess að greiða krónu í skatt til íslenska ríkisins.
Aðgerðaleysið hefur nú skilað okkur á þann stað að Logi Einarsson, ráðherra fjölmiðla, leggur til að viðhalda og í raun ýta undir þetta herfilega ástand með því að gera RÚV að auglýsingasala fyrir einkamiðla. Tólf prósent af auglýsingatekjum RÚV eiga þannig að ganga til einkamiðlanna.
Aðgerðin ber þess merki að ráðherrann telji það of seint að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Einkamiðlarnir séu orðnir svo veikir að þeir muni ekki geta aflað sér tekna sjálfir með auglýsingasölu. Hann telur þá í raun ekki tæka á markaði.
Þetta eru afar vond skilaboð. Og verra er að þeim fylgja fálmkenndar aðgerðir til þess að styrkja stöðu einkarekinna miðla á landinu. Ólíklegt er til dæmis að þær 2–300 milljónir sem RÚV mun afla fyrir einkamiðlana muni breyta miklu um rekstrarforsendur þeirra.
Eina raunhæfa leiðin til þess að hafa áhrif á stöðu einkamiðla er að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Eins og staðan er orðin þá dugar það samt ekki til. Þess vegna þyrfti að fylgja frekari stuðningur og aðgerðir sem miðuðu að því að styrkja verulega rekstrargrundvöll einkamiðlanna. Það er ekki of seint en það væri algerlega óábyrgt að bíða lengur.
Áhyggjur af RÚV eru óþarfar á meðan ríkisvaldið hefur áhuga og ástæðu til að halda úti almannamiðli. Erfitt er að sjá að það séu einhver haldbær rök fyrir öðru en að gera það áfram. RÚV gegnir ótvírætt mikilvægu lýðræðis- og menningarhlutverki. Með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði myndaðist kærkomið tækifæri til þess að skerpa á þessu hlutverki almannamiðilsins sem síaukin áhersla á auglýsingasölu hefur haft óæskileg áhrif á.
