Í fjósinu í Hólmi í Landeyjum. Á myndinni eru Guðmundur Garðarsson, Garðar Guðmundsson, Jón Guðmundsson og Zakaria Natsvlishvili. Mjólkurkýrnar í Hólmi voru með hæstu meðalnytina á síðasta ári og segir Garðar mestu máli skipta að ná góðum heyjum.
Í fjósinu í Hólmi í Landeyjum. Á myndinni eru Guðmundur Garðarsson, Garðar Guðmundsson, Jón Guðmundsson og Zakaria Natsvlishvili. Mjólkurkýrnar í Hólmi voru með hæstu meðalnytina á síðasta ári og segir Garðar mestu máli skipta að ná góðum heyjum.
Mynd / aðsend
Fréttir 30. janúar 2026

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins mjólkuðu kýrnar á Hólmi í Landeyjum að meðaltali mest á landsvísu.

Meðalnytin í Hólmi árið 2025 var 8.665 kílógrömm mjólkur eftir árskú, sem er 57 kg meira en hjá næsta búi. Til samanburðar var afurðahæsta kúabúið árið 2024 með 9.084 kílógramma meðalnyt, en Hólmur sjötta afurðahæsta kúabúið á landsvísu árið 2024 með 8.562 kílógrömm eftir árskú. Árið 2023 var Hólmur annað afurðahæsta kúabúið með 8.590 kílógramma meðalnyt. Á bænum eru að jafnaði 77 mjólkandi kýr á hverjum tíma.

Meðalnytin hafa tvöfaldast

Garðar Guðmundsson, bóndi í Hólmi, segir í samtali enga töfralausn skila árangri sem þessum í kúabúskap, heldur þurfi margir þættir að ganga upp. Mestu máli skipti þó að ná góðum heyjum á sumrin. Garðar er uppalinn í Hólmi og hóf sína búskapartíð árið 1982. Á þeim árum þótti gott ef kýrnar náðu að mjólka að meðaltali 4.000 kílógrömm á ári.

„Við vorum með þurrhey, sem hentar illa á Suðurlandi,“ segir Garðar. „Það var erfitt að treysta á góðan þurrk þegar grasið var í hæsta gæðaflokki og vorum við heppin ef við náðum góðu heyi. Að losna við þurrheyið breytti öllu.“ Um tíma heyjaði Garðar í svokallaða votheysturna, en hefur um langt árabil safnað öllum sínum heyjum í útistæður. „Stæðuheyskapur með réttum íblöndunarefnum er veruleg bylting,“ segir hann.

Búskapur botnlaus vinna

Garðar, sem er 70 ára, segir afköst búvéla hafa aukist margfalt frá því hann var ungur. „Ég var 15 ára þegar ég prufaði að plægja 4,5 hektara og var þrjár vikur að berjast í gegnum það. Núna tekur þetta klukkutíma.“ Þá upplifði Garðar hversu miklu munaði að hætta að mjólka í fötur þegar sett var upp rörmjaltakerfi á sjöunda áratugnum. „Ég byggði nýtt fjós á árunum 1982–4 og setti upp mjaltagryfju. Árið 2000 breytti ég því í lausagöngufjós og róbótinn var settur upp árið 2007.“

Garðar segir að það hafi verið á síðustu árum sem kúabúið hans náði að vera meðal þeirra afurðahæstu á landsvísu. Aðspurður hvort einhver breyting hafi orðið til þess að hann næði betri árangri segir Garðar: „Ég hætti bara að drekka brennivín. Það eru ellefu ár síðan ég hætti að drekka og þá fóru kýrnar að mjólka betur. Búskapur er botnlaus vinna og það má ekkert annað taka athyglina,“ segir hann.

Með góða fjölskyldu og vinnumann

Bóndinn segir ekki endilega mikla keppni meðal kúabænda að vera með hæstu meðalafurðirnar á landsvísu. „Auðvitað er ánægjulegt að vera ofarlega. Þá veit maður að maður er að gera eitthvað rétt, en það þarf svo margt að ganga upp. Keppnin er kannski helst að vera fyrstur að slá og þar með ná bestu heyjunum.“

Garðar bætir við að hann geti ekki eignað sér heiðurinn einn, heldur komi Guðrún Jónsdóttir, eiginkona hans, og börn að búskapnum. „Þá er ég búinn að vera með sama vinnumanninn í mörg ár, en hann heitir Zakaria Natsvlishvili og er frá Georgíu.“

Hvatningarverðlaun skógræktar
Fréttir 30. janúar 2026

Hvatningarverðlaun skógræktar

Óskað hefur verið eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna í skógrækt sem verð...

Nýta mætti afurðir hreindýra betur
Fréttir 30. janúar 2026

Nýta mætti afurðir hreindýra betur

Formaður Hreindýraráðs Austurlands segir að mun betur megi nýta veidd hreindýr e...

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest
Fréttir 30. janúar 2026

Kýrnar í Hólmi mjólkuðu mest

Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins mjólkuðu kýrnar...

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...