Stefnt er að því að 30% raskaðra vistkerfa á landi, í ferskvatni, til stranda og sjávar verði undir virkri endurheimt árið 2030.
Stefnt er að því að 30% raskaðra vistkerfa á landi, í ferskvatni, til stranda og sjávar verði undir virkri endurheimt árið 2030.
Mynd / smh
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem er undirstaða velferðar og heilbrigðis mannlegra samfélaga.

Líffræðilegri fjölbreytni á heimsvísu hefur hnignað mjög á undanförnum áratugum og er náttúra Íslands þar ekki undanskilin.

Stefna um líffræðilega fjölbreytni hefur nýlega verið gefin út fyrir Ísland og gildir til 2030. Ísland varð nýlega formlegur aðili að Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services) (IPBES), sem er milliríkjanefnd vísinda og stefnumótunar um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu. Nefndin er óháð en vinnur í náinni samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Ísland hafði þar áður aðeins áheyrnaraðild. IPBES er sambærileg nefnd og IPCC er gagnvart loftslagsmálum. Sem áheyrnarfulltrúi fékk Ísland að taka þátt í umræðum í nefndinni en hefur nú kosningarétt og neitunarvald sem fullgildur aðili.

Fyrsta stefnan frá 2008

Fyrsta stefna Íslands um líffræðilega fjölbreytni var gefin út árið 2008, en formleg endurskoðun hennar hófst árið 2020 sem lauk með útgáfu grænbókar um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa, sem var til samráðs árið 2022.

Við mótun stefnu stjórnvalda af þessu tagi er fyrst gefin út grænbók, með opnu samráði, síðan hvítbók – þar sem almenningur og hagsmunaaðilar fá aftur tækifæri til að koma á framfæri ábendingum – áður en stefnan er gefin út.

Í byrjun árs 2024 var skipaður nýr stýrihópur til að skrifa hvítbók stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Ein grundvallarforsenda við gerð stefnunnar var að styðja við innleiðingu markmiða- og aðgerðaáætlunar samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Global Biodiversity Framework, GBF) sem samþykkt var árið 2022.

Fær sterkan sess innan stjórnkerfis

Sex leiðarljós eru skilgreind sem endurspegla eiga þær lykiláherslur sem stefnan tekur á. Með henni á líffræðileg fjölbreytni að fá sterkan sess innan stjórnkerfisins, vernda á og endurheimta vistkerfi og tegundir lífvera, nýta land og auðlindir á sjálfbæran hátt í sátt við líffræðilega fjölbreytni, verjast ágengum tegundum, draga úr mengun og samræma loftslagsaðgerðir og lífríkisvernd.

Einnig að ýta undir þátttöku samfélagsins og auka vitund þess um líffræðilega fjölbreytni, efla rannsóknir, vöktun og menntun um líffræðilega fjölbreytni.

Líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál

Í stefnunni eru markmið til 2030 i sameiginlegu átaki með áætlun Sameinuðu þjóðanna og þeim samningi sem birtist í GBF, um að snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

Stefnt er að því að árið 2030 hafi 30% lands, ferskvatns, strand- og hafsvæða á Íslandi verið skilgreind sem svæði sem njóta virkrar verndunar, stjórnunar og vöktunar. Jafnframt er markmiðið að 30% raskaðra vistkerfa á landi, í ferskvatni, til stranda og sjávar verði undir virkri endurheimt árið 2030.

Í tilkynningu umhverfis-, orkuog loftslagsráðuneytisins, með útgáfu stefnunnar, segir að um mikilvæg skref sé að ræða fyrir líffræðilega fjölbreytni á Íslandi, en ekki síður með tilliti til loftlagsmála þar sem vernd og endurheimt vistkerfa er í senn mótvægisaðgerð og aðlögunaraðgerð. Þar sem Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra hafi þegar gert endurheimt vistkerfa og votlendis að forgangsaðgerð í loftslagsmálum.

Þúsundir lífvera í handfylli af mold

Bryndís Marteinsdóttir, sviðsstjóri hjá Landi og skógi, fjallar um hugtakið líffræðilega fjölbreytni og nýja stefnu í aðsendri grein í síðasta tölublaði Bændablaðsins. Hún segir að hugtakið snúist ekki aðeins um fjölda tegunda lífvera, heldur einnig um breytileika innan tegunda, erfðaefni þeirra og þau vistkerfi sem lífverurnar mynda saman. „Í handfylli af mold má finna þúsundir lífvera og jafnvel á litlu landsvæði, eins og sumarbústaðarlandi, getur fjölbreytnin verið mikil: graslendi, mólendi, birkikjarr eða lítil mýri – hvert búsvæði með sitt lífríki. [...] Nýlegt dæmi um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis er þegar birkikemba, nýr landnemi á Íslandi, fór að valda skaða á birki. Í skógrækt er hægt að velja birkistofna sem þola skaðvaldinn betur og birkiskógar með meiri erfðafjölbreytni eru líklegri til að standast álagið, þar sem innan um eru arfgerðir sem skaðast lítið eða ekki.“

Hún segir að orsakirnar fyrir hnignun líffræðilegrar fjölbreytni séu að stórum hluta manngerðar; „... ósjálfbær landnýting, eyðing búsvæða, mengun, ágengar framandi tegundir og loftslagsbreytingar. Óþörf framræsla mýra hefur dregið úr búsvæðum votlendisfugla, jarðvegseyðing hefur haft áhrif á gróður og hlýnun sjávar hefur bitnað á fuglastofnum eins og lunda. Þetta eru ekki fjarlæg vandamál. Þau snerta landbúnað, byggðir og afkomu fólks.“

Stofnstærðir minnkað um 73%

Living Planet Index heldur úti mælaborði um þróun á stöðu líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu sem hefur verið tekið mið af í samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Fylgst er með þróun stofnstærða hryggdýra á landi, í ferskvatni og í sjó. Samkvæmt nýjustu gögnum þar hafa stofnstærðir fugla, spendýra, fiska, skriðdýra og froskdýra sem fylgst er með minnkað að meðaltali um 73% á árunum 1970 til 2020

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030
Fréttir 29. janúar 2026

Virk endurheimt 30% raskaðra vistkerfa árið 2030

Auðug líffræðileg fjölbreytni náttúrunnar er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem...

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
Fréttir 29. janúar 2026

Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun

„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og bygging...

Skýrt nei við aðildarviðræðum
Fréttir 29. janúar 2026

Skýrt nei við aðildarviðræðum

Ríflega 76 prósent bænda sem eru félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru ósammála...

Dreifikostnaður raforku hækkar
Fréttir 29. janúar 2026

Dreifikostnaður raforku hækkar

Gjaldskrárhækkanir dreifiveitna rafmagns hafa hækkað umfram vísitölu á undanförn...

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Fréttir 29. janúar 2026

Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir...

Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Fréttir 27. janúar 2026

Mesti fjöldi skráðra sæðinga

Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skr...

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Fréttir 27. janúar 2026

Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður

Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erf...

Þari í sauðakjöt, krydd og kex
Fréttir 27. janúar 2026

Þari í sauðakjöt, krydd og kex

Nýtt frækex, unnið úr íslenskum þara, er komið á innlendan markað.