Þórunn Wolfram Pétursdóttir er doktor í umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún starfar nú hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, í Róm á Ítalíu, þar sem hún stýrir skrifstofu Global Soil Partnership. Viðfangsefni hennar eru m.a. tenging vísinda, stefnumótunar og framkvæmda á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa.
Þórunn Wolfram Pétursdóttir er doktor í umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún starfar nú hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, í Róm á Ítalíu, þar sem hún stýrir skrifstofu Global Soil Partnership. Viðfangsefni hennar eru m.a. tenging vísinda, stefnumótunar og framkvæmda á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa.
Mynd / aðsendar
Viðtal 29. janúar 2026

Heilbrigði jarðvegs er undirstaða alls

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Þórunn Wolfram Pétursdóttir, doktor í umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands, hefur byggt feril sinn á tengingu vísinda, stefnumótunar og framkvæmda á sviði sjálfbærrar landnýtingar og endurheimtar vistkerfa.

Þórunn starfar nú hjá FAO í Róm á Ítalíu, þar sem hún stýrir skrifstofu Global Soil Partnership (GSP). GSP er alþjóðlegur samstarfsvettvangur á frjálsum grunni sem vinnur að því að vernda og bæta heilbrigði jarðvegs um allan heim, stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðvegs og vekja athygli á mikilvægi hans fyrir fæðuöryggi, loftslag, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbæra þróun.

Ísland er eitt stofnríkja Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, (e. Food and Agriculture Organization) og hefur tekið þátt í starfsemi GSP allt frá því að samstarfsvettvangurinn var stofnaður árið 2012.

Moldin rauður þráður

„Ég er alin upp með annan fótinn í sveitinni og hinn í sjávarútvegi, og þessi tvíþætta reynsla mótaði snemma sýn mína á náttúruauðlindir og nýtingu þeirra. Barnæskan var lituð bæði af sauðkindinni og saltfiskinum, þar sem sjálfsagður hluti daglegs lífs var að nýta hráefni til fulls og láta ekkert fara til spillis,“ segir Þórunn og heldur áfram:

„Í sveitinni kynntist ég gömlum búskaparháttum sem byggðu á nánum tengslum við landið og skilningi á náttúruöflunum. Í fiskinum lærði ég á sama tíma hversu mikilvæg skilvirkni, virðing fyrir hráefninu og samvinna eru í atvinnugreinum sem byggja beint á náttúruauðlindum. Þótt ég hafi kynnst báðum heimum, var ég alltaf meira sveitabarn og fann snemma að tengslin við landið og náttúruna skiptu mig mestu máli.

Þessi tenging milli daglegrar reynslu, landsins sjálfs og stærri samfélagslegra markmiða skýrir einnig hvers vegna jarðvegur hefur orðið rauður þráður í mínu starfi. Jarðvegurinn er ekki abstrakt hugtak, heldur lifandi undirstaða landbúnaðarsamfélagsins sem ég ólst upp við. Að vernda moldina og og viðhalda heilbrigði hennar er því ekki aðeins faglegt viðfangsefni, heldur persónulegt og samfélagslegt ábyrgðarmál,“ segir hún. Þessi nálgun, að tengja mannlíf, efnahag og vistkerfi í heildrænu samhengi, hefur síðan orðið lykilatriði í starfi hennar sem fræðimanns, stjórnanda og nú á alþjóðavettvangi.

Rammi fyrir ákvarðanatöku

Þórunn lærði umhverfisfræði í Garðyrkjuskólanum, stuttu eftir útgáfu Brundtland-skýrslunnar og Ríó-ráðstefnuna árið 1992. „Á þessum tíma færðist umræðan frá því að vera fræðileg yfir í að verða pólitísk og stefnumótandi. Hugmyndin um sjálfbæra þróun var ekki lengur aðeins hugsjón, heldur rammi fyrir ákvarðanatöku ríkja um nýtingu náttúruauðlinda til lengri tíma,“ lýsir hún.

Hún lauk síðar BSc-gráðu í landfræði, hélt í meistara- og doktorsnám við Landbúnaðarháskóla Íslands og hóf samhliða störf hjá Landgræðslunni.

„Ég varð sífellt meðvitaðri um að jafnvel bestu vísindalegar lausnir skila litlum árangri ef þær hafa ekki almennan stuðning og eru ekki innleiddar í samstarfi allra hlutaðeigandi,“ segir hún.

Í doktorsrannsókn sinni, Stýring á landnotkun og endurheimt vistkerfa, skoðaði Þórunn hvernig stefna, stjórnsýsla og framkvæmdir haldast í hendur – eða ekki.

„Stærstu áskoranir samtímans í umhverfis- og landbúnaðarmálum eru svokölluð ‘wicked problems’ – viðfangsefni þar sem engin ein einföld lausn er til staðar og þar sem nauðsynlegt er að tengja saman vistfræði, stefnumótun og samfélagsleg kerfi,“ segir hún. „Ég var afar heppin að hafa prófessor Ásu L. Aradóttur aðalleiðbeinanda í náminu. Undir hennar leiðsögn fékk ég bæði faglegt frelsi og skýran stuðning til að þróa rannsóknir sem fóru þvert á hefðbundin fræðileg mörk.“ Undirstaða fæðuöryggis og seiglu Eftir rannsóknarstarf í Evrópu, hjá einni af stofnunum Framkvæmdaráðs Evrópusambandsins í Ispra á Ítalíu 2010–2013, sneri hún aftur til starfa heima fyrir. Í upphafi árs 2025 bauðst Þórunni svo staða hjá FAO í Róm, þar sem hún stýrir skrifstofu GSP.

„Það markaði ákveðin tímamót, ekki vegna þess að viðfangsefnin séu ný, heldur vegna þess að þau eru nú sett í skýrt alþjóðlegt samhengi,“ segir hún um störf sín. „Í þessu starfi snýst verkefnið í grunninn um jarðveg – ekki sem afmarkað náttúrufræðilegt fyrirbæri, heldur sem sameiginlega undirstöðu landbúnaðarkerfa heimsins, fæðuöryggis, loftslagsaðgerða og lífsgæða.“

Global Soil Partnership er sem fyrr segir frjálst samstarf ríkja, stofnana, félagasamtaka, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila, sem var sett á laggirnar árið 2012 til að efla sjálfbæra nýtingu og vernd jarðvegs á heimsvísu. FAO hýsir skrifstofu samstarfsins og heldur utan um framkvæmdir verkefna þess, en ákvarðanir og forgangsröðun GSP, og aðildarþings þess, byggja á samvinnu og vísindalegri þekkingu.

„Lykilverkefni okkar snúast um að tengja saman þrjá þætti sem of oft eru aðskildir: vísindi, stefnumótun og framkvæmd. Að efla vöktun og þekkingu á ástandi jarðvegs, styðja við ríki við mótun stefnu og markmiða um jarðvegsvernd og sjálfbæra landnýtingu, og vinna með þeim sem nýta landið að því að færa þessa þekkingu inn í dagleg störf,“ útskýrir hún.

Áherslan á samvinnu er skýr. „Sjálfbær nýting jarðvegs verður ekki tryggð með alþjóðlegum yfirlýsingum einum saman, heldur með því að lausnir taki mið af staðbundnum aðstæðum og fyrirliggjandi þekkingu og reynslu,“ segir hún og bætir við að þetta tengist beint fæðuöryggi: „Heilbrigður jarðvegur er forsenda stöðugrar og öruggrar matvælaframleiðslu – ekki aðeins í þróunarlöndum heldur einnig í ríkjum með háþróaðan landbúnað.“

Þórunn telur að Ísland hafi sérstaka rödd sem sé verðmæt á alþjóðlega vísu og eigi að heyrast. Hún telur ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af jarðvegi á Íslandi, vegna þess hversu viðkvæmur og rofgjarn hann sé. Mynd / aðsend

Ísland sem tilraunastofa

Þótt starfið sé alþjóðlegt er tengingin við íslenskar aðstæður sterk. „Í alþjóðlegu starfi GSP felst mikilvægi Íslands meðal annars í miðlun á reynslu okkar og þekkingu af samspili beitar, gróðurþekju, jarðvegs og seiglu vistkerfa, afleiðingum ósjálfbærrar nýtingar og hvernig megi snúa þeirri þróun við,“ segir hún. „Það á einstaklega vel við í ár, á alþjóðlegu ári beitilanda og hirðingjabúskapar.“

Á sama tíma styrkir alþjóðlegt samhengi innlenda stefnumótun. „Með því að tengja íslenskar aðstæður við alþjóðleg viðmið, vísindalega þekkingu og reynslu annarra landa skapast tækifæri til að styrkja innlenda stefnumótun og framkvæmd.“

Þórunn tengir þessa sýn við One Health-hugsunina, þar sem heilsa manna, dýra og vistkerfa er samofin. „Heilbrigður jarðvegur styður við næringarríkan gróður, heilbrigt búfjárhald og öruggar matvælakeðjur, auk þess að hafa áhrif á vatnsgæði og útbreiðslu sýkla og mengandi efna. Ef jarðvegi hnignar veikist þessi undirstaða, með neikvæðum afleiðingum fyrir vistkerfi, dýraheilbrigði og að lokum lýðheilsu,“ segir hún. Í því ljósi sé jarðvegsvernd hluti af forvörnum í víðara samfélagssamhengi – ekki aðeins sérmál landbúnaðar og eða náttúruverndar.

Endurheimt landbúnaðarlands

„Rannsóknir sýna að hnignun jarðvegs leiðir til minni framleiðni, aukinnar áhættu í landbúnaði og hærri kostnaðar fyrir samfélög, bæði vegna aðfanga og minni seiglu,“ segir Þórunn. „Á móti sýnir reynslan að ávinningur af jarðvegsvernd og endurheimt vistkerfa er oft margfaldur miðað við kostnað.

Fyrir bændur birtist ávinningurinn meðal annars í auknu framleiðsluöryggi, minni þörf fyrir aðföng og meiri seiglu gagnvart breytilegu veðurfari. Fyrir samfélagið í heild felst hann m.a. í betri vatnsstýringu, minni flóðahættu, aukinni kolefnisbindingu og stöðugri matvælaframleiðslu. Jarðvegs- og gróðurvernd er því ekki jaðarmál, heldur ein af forsendum efnahagslegs stöðugleika,“ segir hún jafnframt.

Þessa þróun segir hún einnig endurspeglast í aukinni áherslu á jarðveg og landnýtingu á alþjóðavettvangi. Innan ramma Sameinuðu þjóðanna, meðal annars hjá UNCCD (Samningur SÞ um varnir gegn eyðimerkurmyndun) og FAO, hafi áhersla á endurheimt landbúnaðarlands orðið sífellt skýrari sem lykilþáttur í sjálfbærni, loftslagsaðgerðum og fæðuöryggi. Ákvörðun UNCCD COP16, Decision 19, undirstriki þetta með því að hvetja ríki til að forðast, draga úr og snúa við land- og jarðvegsrofi, bæði ræktarog beitilands sem hluta af heildstæðri landnýtingarstefnu.

Í Evrópu megi sjá svipaða þróun, þar sem jarðvegur hafi fengið mun skýrari sess í stefnumótandi umræðu. Í gegnum aðgerðir á borð við European Green Deal, Soil Strategy for 2030 og nýlega samþykkt Soil Monitoring Law, er jarðvegur settur í mun formlegri og markvissari ramma en áður, með aukinni áherslu á vöktun, sameiginleg viðmið og sjálfbæra nýtingu. Hún segir þetta endurspegla vaxandi skilning á að jarðvegshnignun sé ekki aðeins umhverfislegt vandamál, heldur einnig samfélags- og efnahagslegt áhættuatriði.

Þórunn telur að Ísland hafi sérstaka rödd í þessari umræðu. „Reynsla okkar af endurheimt vistkerfa, sem jafnframt eru nýtt til búfjárbeitar, sýnir að markviss landgræðsla, bætt beitarstýring og langtímahugsun geta bæði aukið framleiðni lífmassa og styrkt aðrar vistkerfaþjónustur. Þessi reynsla er sérstaklega verðmæt í alþjóðlegri umræðu, þar sem mörg lönd standa frammi fyrir sambærilegum áskorunum, þótt þær birtist með ólíkum hætti eftir svæðum,“ segir hún.

Áhyggjur af íslenskum jarðvegi

Þegar allt þetta er sett í samhengi – alþjóðleg þróun, íslensk sérstaða og þekking síðustu áratuga – vaknar eðlilega spurningin um stöðu jarðvegs á Íslandi. „Ég tel ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af jarðvegi á Íslandi, en ekki í þeim skilningi að allt sé í uppnámi alls staðar. Áhyggjuefnið felst fyrst og fremst í hversu viðkvæmur og rofgjarn hann er, hversu hratt hann getur tapast þegar gróðurhula rofnar og hversu miklu við höfum nú þegar tapað af þessari dýrmætu auðlind í gegnum aldirnar. Um leið er ástæða til að leggja áherslu á að þekking okkar á jarðvegi og ástandi lands hefur aldrei verið meiri, ekki síst vegna áratugalangs rannsókna- og fræðslustarfs doktors Ólafs G. Arnalds og samstarfsfólks hans,“ segir Þórunn.

Mikilvægan þátt í starfi Ólafs og samstarfsfólks segir hún hafa verið að færa umræðuna frá almennum hugmyndum yfir í mælanlega þekkingu. Með kerfisbundnum rannsóknum á jarðvegi, gróðurfari og ástandi lands hafi þau sýnt að stór hluti þess er í slæmu eða jaðar-ástandi. Þetta sé ekki aðeins náttúruverndarmál, heldur beinlínis landbúnaðarmál.

„Þar sem jarðvegur er heill og gróinn er framleiðni meiri, vistkerfið þolir meiri nýtingu og landið er betur í stakk búið til að takast á við breytilegt veðurfar. Rannsóknirnar hafa einnig varpað ljósi á seiglu vistkerfa og hvernig heilbrigður jarðvegur dregur úr áhrifum loftslagsbreytinga. Jarðvegur sem er ríkur af lífrænu efni dregur í sig vatn í mikilli úrkomu, losar það hægt aftur og minnkar þannig bæði flóðahættu og þurrkaáhrif. Um leið er hann stærsta kolefnisforðabúr jarðar, fyrir utan hafið, og lykilþáttur í náttúrumiðuðum loftslagslausnum,“ bætir hún við. Þessi þekking hafi verið lykilforsenda þess að Ísland geti rætt loftslagsmál í samhengi við landbúnað og landnýtingu á upplýstan hátt.

„Það sem gerir framlag Ólafs og samstarfsfólks sérstaklega þýðingarmikið er að rannsóknir þeirra hafa ekki aðeins verið fræðilegar, heldur jafnframt hagnýtar og stefnumótandi. Þær hafa lagt grunn að landmati, vöktunarkerfum og stefnumótun í landgræðslu, landbúnaði og náttúruvernd. Þær hafa einnig hjálpað til við að breyta sýn samfélagsins á jarðveg – frá því að vera sjálfgefinn grunnur yfir í að vera viðurkenndur sem ómetanleg auðlind sem þarf virka vernd samhliða vel skipulagðri nýtingu,“ útskýrir hún.

Þórunn hefur starfað fyrir FAO og GSP frá því í ársbyrjun 2025. Hún segir vera mjög aukna áherslu á jarðveg og landnýtingu á alþjóðvettvangi.

Þekking yfirfærð í ákvarðanir

„Heilbrigður jarðvegur er undirstaða sjálfbærra landbúnaðarkerfa, fæðuöryggis, árangursríkra loftslagsaðgerða og lífsgæða,“ segir Þórunn. „Þekkingin sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum sýnir hversu viðkvæmt þetta kerfi getur verið en hún sýnir líka að hægt er að snúa hnignunarspíralnum við með markvissum aðgerðum, samstarfi og langtímahugsun.“

Hnignun verði ekki stöðvuð með frösum heldur með skýrum langtímaákvörðunum sem styðjast við gögn og umbuna sjálfbærri landnýtingu. Í því samhengi er spurningin að hennar mati ekki hvort lausnir séu til, heldur hvernig þær eru innleiddar.

„Stærsta áskorunin er ekki skortur á þekkingu eða vilja meðal þeirra sem nýta landið, heldur að skapa kerfi sem gera bændum kleift að beita þessari þekkingu í reynd og umbuna þeim fyrir að vernda og byggja upp jarðvegsgæði til langs tíma. Í raun snýst þetta ekki um hvort við höfum lausnirnar, heldur hvort við nýtum þá þekkingu og reynslu sem þegar liggur fyrir til að tryggja jarðvegsheilbrigði fyrir öflugan landbúnað og kröftugt samfélag,“ segir Þórunn að endingu. 

Skylt efni: Jarðvegur

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt