Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Vigdís Häsler, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Mynd / HKr.
Vigdís Häsler, lögfræðingur og framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Mynd / HKr.
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands og tók hún til starfa um síðustu mánaðamót. Að hennar mati stendur íslenskur landbúnaður frammi fyrir mörgum áskorunum um þessar mundir. Þar á meðal eru loftlags- og umhverfismál, tryggingarmál bænda og fæðuöryggi allra lands­manna.

„Ég myndi skilgreina mig sem ósköp venjulega konu og fjöl­skyldu­konu. Ég er mjög ákveðin en samt tiltölulega létt í fasi og vinnusöm, þjónustulunduð og skipulögð. Ég hef þó fengið að heyra frá bæði móður minni og tengdamóður að ég sé full virk fyrir þeirra smekk. Samt þykir mér líka afskaplega gott að draga mig í hlé og finna afslöppun og hvíld í einhverju öðru en að setja fætur upp í loft, eins og að elda eða stunda útiveru. Í raun er ég þannig að ég þarf alltaf að hafa mikið fyrir stafni. Því þannig líður mér best.“

Gerald og Vigdís Häsler ásamt dætrunum Alice Emilíu og Kamillu Marín.

Fædd á Jövu

Vigdís er fædd á eyjunni Jövu í Indónesíu og fékk nafnið Octaviane þegar hún kom í heiminn. Foreldrar hennar eru Sveinn Frímannsson tæknifræðingur, sem er ættaður úr Mosfellssveit, og Guðríður Sædís Vigfúsdóttir heitin, sem er Hornfirðingur.

„Pabbi vann mikið þrekvirki þegar hann flaug heimshorna á milli og sótti mig til Indónesíu og kom ég til Íslands á sjálfan kvennafrídaginn, 24. október 1982, þá rúmlega þriggja vikna gömul. Ef til vill átti þessi dagur sinn þátt í nafnavalinu hjá mömmu en það kom víst ekki annað til greina en að ég fengi nafnið Vigdís, í höfuðið á systur mömmu og forsetanum okkar.“

Í sumarbúðum fyrir norðan

„Sem barn var ég send í sumarbúðir á Ástjörn norður í landi í allt að átta vikur á hverju sumri fram að fermingaraldri. Mér þótti það ósköp gott og eignaðist mikið af vinum þar og upplifði ýmis ævintýri með besta vini mínum, Sveini Biering, grænmetisbónda og einum af eigendum Vaxa. Dvölin á Ástjörn stappaði svo sannarlega stálinu í okkur krakkana sem vorum þar, enda engir „þyrluforeldrar“ á sveimi. Við fengum að hringja heim einu sinni í viku, en það kom sjaldan fyrir að maður nýtti sér það, og fljótt og örugglega lærði ég að sinna mér sjálf en vissulega með aðstoð þeirra sem störfuðu í þvottahúsinu.

Vigdís ásamt Kamillu Marín við Skóga­foss.

Í Reykjavík ólst ég upp í hverfi 104 og sótti stíft æskulýðsstarf í Áskirkju og tók þátt í margs konar íþróttum. Níu ára gömul fann ég mig í skautaíþróttinni í Laugardal og iðkaði hana þar til ég varð tvítug. Ég var í landsliðinu á skautum, keppti mikið á veturna og tók þátt í mörgum mótum, þar á meðal einu heimsmeistaramóti,“ segir Vigdís.

Að lokinni grunnskólagöngu hóf hún nám við Fjölbrautaskólann í Ármúla og flutti úr foreldrahúsum um svipað leyti þegar foreldrar hennar fluttu til Montreal í Kanada þar sem faðir hennar var með sérverkefni í tengslum við byggingu Alcoa Fjarðaáls.
Stóð til að fara í guðfræði

„Ég kynntist svo manninum mínum, Gerald Häsler, og við fluttum til Akureyrar þar sem ég hóf nám í lögfræði við Háskólann á Akureyri og hann í viðskiptafræði. En áður en lögfræðin varð fyrir valinu stóð alltaf til að fara í guðfræði. Mamma hafði nefnilega lengi látið sig dreyma um séra Vigdísi. Árið 2013 lauk ég LLM-prófi frá University of Sussex í Bretlandi.

Eftir útskrift 2008 hóf ég störf á lögmannsstofunni Lögmönnum Höfðabakka, sem nú heitir MAGNA. Ég var þar í rúmlega sjö ár og fór þaðan til Sambands íslenskra sveitarfélaga með viðkomu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu árið 2017 sem aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar. Ég hef síðan starfað á Alþingi sem aðstoðarmaður þingmanna fyrir þingflokk Sjálf­stæðis­flokksins.

Að mínu mati er Alþingi stór­skemmtilegur vinnustaður, lifandi og fjölbreyttur, en það skýrist meðal annars út af fjölbreyttri samsetningu starfsmannanna og svo allra kjörnu fulltrúanna sem þar sitja.“

Vigdís hefur setið í stjórnum félagasamtaka og í kjörstjórn Garða­bæjar fyrir kosningar til alþingis- og sveitarstjórnar og forseta­kosningar.

Umhverfismál og fæðuöryggi

„Ég lít svo á að landbúnaður á Íslandi standi frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum og má þar nefna stórmál eins og loftslags- og umhverfismálin, fæðuöryggi landsmanna og tryggingamál bænda, svo eitthvað sé nefnt. Við verðum að horfa til framtíðar og sjá fyrir okkur hvernig við viljum að íslenskur landbúnaður verði að 10 til 15 árum liðnum.

Að mína mati verða að nást mun meiri samlegðaráhrif land­búnaðar og við umhverfis. Einstaklings­framtakið hefur verið undirstaða landbúnaðar á Íslandi og gefa þarf bændum frelsi til að grípa tækifærin þannig að þeim takist að marka sína sérstöðu innan hverrar búgreinar. Það þarf að auka heimildir og möguleika bænda á að slátra heima og selja sínar afurðir.

Ég sem áhugamanneskja um mat er mjög umhugað um fæðu­öryggismál landsmanna og þátt landbúnaðarins í þeim efnum. Að mínu viti þarf að stefna að því markmiði að tryggja fæðuöryggi Íslendinga með því að efla innlenda framleiðslu og tryggja samkeppnishæfni framleiðslunnar gagnvart innflutningi. Til framtíðar liggja tækifærin í landbúnaði og matvælaframleiðslu.

Framleiðsluverðmæti land­búnaðar­afurða er um 65 milljarðar króna sem sýnir að umhverfið okkar miðað við stærð landsins og fjölda íbúa er hreinlega af allt annarri stærðargráðu en annars staðar. Að bera saman landbúnaðinn hér á landi og það sem á sér stað í löndunum í kringum okkur, í Skandinavíu og í Evrópu, er því eins og að bera saman epli og appelsínur og því megum við ekki gleyma.“

Fjallgöngur og eldamennska

Að sögn Vigdísar á hún fjölda áhugamála sem hún leggur stund á í frístundum. „Ég á enskan cocker spaniel sem heitir Bastian og er dásamlegur hundur í alla staði. Fjölskyldan fer reglulega í Skötubótina við Þorlákshöfn og út á Reykjanes, þar sem bæði menn og dýr taka góða spretti meðfram ströndinni. Í fyrra, eftir að COVID-19 fór að herja á heiminn, fór ég að ganga á fjöll, sem er nýtt hjá mér, en vonandi eitthvað sem ég mun halda áfram að gera á komandi sumri.

Sheperd‘s pie, með íslensku lambahakki, einn af réttunum sem Vigdís lærði að elda í Brighton.

Annars stóð reyndar til að einbeita sér að golfinu sem byrjaði í fyrrasumar og ég steinféll fyrir.
Mitt stærsta áhugamál er hins vegar matur og matargerð og uppáhaldsréttir mínir eru kjötsúpa og slátur og við mamma tókum lengi saman slátur áður en hún dó. Mamma eldaði alltaf bestu kjötsúpu í heimi á afmælisdeginum mínum. Hennar leynitrikk var að setja eina matskeið af sykri í súpuna og fyrir vikið varð súpan miklu betri og ólík allri annarri kjötsúpu. Ég verð líka að nefna að hægeldaðir svínaskankar í bjórsósu og nautatartar með hráu eggi eru ofarlega á listanum þegar við hjónin viljum gera vel við okkur.

Við hjónin hengdum upp nauta-ribeye á beini og lambahrygg í lítinn kæli inni í bílskúr fyrir skömmu og ætlum að látum það hanga í 6 til 8 vikur og það er gífurleg tilhlökkun með útkomuna,“ segir Vigdís að lokum.

Vigdís ásamt Kamillu Marín við Skóga­foss.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt