Meðalafurðir mjólkurkúa aldrei meiri
Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) fyrir árið 2025 hafa meðalafurðir mjólkurkúa aldrei verið hærri. Að jafnaði skilaði hver árskýr 6.615 kílógramma nyt.
Þetta er afurðaaukning um 92 kílógrömm frá árinu áður, en núna er kominn áratugur þar sem meðalafurðir íslenskra kúa hafa verið yfir 6.000 kílógrömm mjólkur. Kúabúum í mjólkurframleiðslu fækkaði um níu milli ára og eru 450 nú um áramótin. Meðalbúið var með 56,5 árskýr á árinu 2025, sem er lítil aukning frá árinu á undan, og var innlögð mjólk meðalbúsins 347.970 á árinu. Samtals voru skýrslufærðar kýr 33.956, sem er fækkun um rúmlega 200 frá árinu áður. Frá þessu er greint í yfirliti Guðmundar Jóhannessonar og Sigurðar Kristjánssonar hjá RML á síðum 38–40 í þessu blaði.
Afurðahæsta kúabú landsins árið 2025 var Hólmur í Landeyjum þar sem 79,1 árskýr skilaði að meðaltali 8.665 kílógrömmum mjólkur eftir hverja árskú. Viðtal við Garðar Guðmundsson, bónda í Hólmi, má lesa á síðu fjögur, en hann segir mestu máli skipta að ná góðum heyjum til þess að kýrnar skili sem mestum afurðum.
Nythæsta kýr ársins var Plóma 2686 frá Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með 16.779 kílógramma ársafurðir. Eru það jafnframt mestu 12 mánaða afurðir sem íslensk mjólkurkýr hefur náð. Plóma er fædd í nóvember 2020 og bar sínum öðrum kálfi í september 2024. Mánuði síðar var hún komin í 52,7 kílógramma dagsnyt og hélt hún yfir 50 kílógramma dagsnyt fram í mars og var enn í 16 kílógramma dagsnyt um áramót. Hún er komin í 30.553 kílógramma æviafurðir sem er gott miðað við ungan aldur. Alls náðu 77 kýr yfir 13.000 kílógramma ársafurðum.
Kýrin Bleik frá Gautsstöðum á Svalbarðsströnd sló Íslandsmetið í æviafurðum, en hún hafði mjólkað samtals 120.340 kílógrömmum þegar hún var felld 21. desember. Hún er fyrsta og eina íslenska mjólkurkýrin sem nær yfir 120 þúsunda æviafurðum. Bleik var fædd í ágúst árið 2009, bar sínum fyrsta kálfi í október 2011 og bar ellefu sinnum eftir það. Æviafurðir Bleikrar eru rúmlega átjánfaldar meðalársafurðir og ríflega sexfaldar meðalæviafurðir íslenskra kúa.
Í áðurnefndu yfirliti eftir Guðmund Jóhannesson og Sigurð Kristjánsson hjá RML er jafnframt bent á að aldur við fyrsta burð mjólkurkúa þokist í rétta átt. Eru kvígur nú að meðaltali 26,9 mánaða þegar þær bera sínum fyrsta kálfi, samanborið við 27,0 mánaða aldur í fyrra. Guðmundur og Sigurður segja að lækkandi burðaraldur eigi eftir að auka hagkvæmni í mjólkurframleiðslu, en samkvæmt rannsóknum er rétt að stefna að fyrsta burði kvígna við 23–24 mánaða aldur.
Þeir koma jafnframt inn á að meðalaldur kúa við förgun fari hækkandi, sem sé jákvætt. Á síðasta ári var meðalaldurinn 1.901 dagur, sem er rúmlega fimm ár og tveir mánuðir, og tíu dögum meira en árið 2024. Meðalfjöldi burða við förgun var rétt um þrír. 72 prósent fæddra kálfa á árinu 2025 voru undan sæðinganautum. Hlutfallið hjá fyrsta kálfs kvígum var 32 prósent, en 91 prósent hjá eldri kúm. Notkun heimanauta er því enn útbreidd. 52,6 prósent fæddra kálfa voru naut og 47,4 kvígur. Áhrifa kyngreinds sæðis er því ekki farið að gæta
