Mesti fjöldi skráðra sæðinga
Metþátttaka var í sauðfjársæðingum nú í desember. Þann 9. janúar var búið að skrá sæðingu á um 29.500 ám sem er aukning um rúmlega tvö þúsund sæddar ær frá því í desember 2024.
Að sögn Eyþórs Einarssonar, sauðfjárræktarráðunautar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, ætti skráningin að gefa nokkuð raunsanna mynd af stöðunni þó eitthvað örlítið gæti bæst við þessa tölu. „Ljóst var að loknum sæðingum að að um metár væri að ræða í útsendum sæðisskömmtum frá stöðvunum báðum í Þorleifskoti og Borgarnesi, en þeir voru 49.275 samanlagt.
Síðustu vikur hefur síðan verið að skýrast hversu vel sæðið nýttist. Forsenda þess að bændur hljóti hvatastyrki vegna sæðinga með verndandi (V) eða mögulega verndandi (MV) hrútum var að búið væri að skrá sæðingarnar í skýrsluhaldsforritið Fjárvís fyrir 9. janúar.“
Áhuginn jókst með verndandi arfgerðum
Hvatastyrkir eru veittir úr atvinnuvegaráðuneytinu í samræmi við landsáætlun um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé. Eyþór segir að í desember 2023 hafi orðið gríðarlegt stökk upp á við í þátttöku í sæðingum, en þá hafi einmitt innleiðing verndandi arfgerða gegn riðu verið að byrja fyrir alvöru. „Þá voru sæddar 29.142 ær og fjölgaði um 10 þúsund milli ára. Áframhaldandi aukning núna byggir væntanlega á því að hrútakosturinn er sterkari, það er meira úrval af góðum hrútum með góð gen og það eru fleiri hrútar sem eru arfhreinir.
Má segja að góð þátttaka sýni hvað er mikill kraftur í bændum að innleiða verndandi arfgerðir og að aukinnar bjartsýni gætir í greininni. Hvatastyrkirnir hafa vissulega jákvæð áhrif á þátttökuna.“
Aldrei lægri meðalaldur sæðingahrúta
„Ef horft er til notkunar hrúta eftir því hvort þeir standi í Borgarnesi eða Þorleifskoti þá er mjög svipaður fjöldi sæddra áa skráður með hrútum frá hvorri stöð; eða 14.506 sæddar með hrútum af Vesturlandsstöðinni og 14.991 með hrútum af stöðinni á Suðurlandi.
Vissulega var það býsna krefjandi fyrir stöðvarnar að anna hinni miklu eftirspurn, sérstaklega gagnvart hyrndu hrútunum í Þorleifskoti yfir mesta álagstímann. Í heildina urðu hrútarnir færri en gert var ráð fyrir þar sem ýmis skakkaföll komu upp og voru til dæmis þrír spennandi lambhrútar dottnir út áður en sæðingar hófust. Þarf því fyrir næstu vertíð að gera ráðstafanir til þess að minnka líkur á slíku,“ útskýrir Eyþór.
Hann segir meðalaldur hrútanna aldrei hafa verði lægri. „Skýrist það af því að meðan verið er að leggja mikla áherslu á að þynna út erfðaáhrif Gimsteins og Gullmola þá hefur uppleggið verið að nota hrútana af þeim meiði aðeins í eitt ár á stöð og velja síðan inn nýja kynslóð af fjarskyldari hrútum. En á næstu árum mun þetta breytast og reyndum hrútum fjölga.
Ungir og öflugir sæðisgjafar
Að frátöldum feld- og forystuhrútum, voru 42 hrútar sem sæði var sent úr núna í desember og af þeim voru 32 lambhrútar. Eyþór segir ljóst að bestu sæðisgjafarnir af lambhrútunum gefi bestu fullorðnu hrútum stöðvanna ekkert eftir í sæðismagni. „Í ár voru tveir lambhrútar sem náðu því af þremur alls, að útsendir skammtar fóru yfir 2.000. Þetta magn endurspeglar bæði vinsældir og gefur til kynna hve öflugir sæðisgjafar þeir eru. Þar standa efstir lambhrútarnir, Völusteinn 25-828 með 2.345 skammta og Skörðungur 25-811 með 2.275 skammta og þriðji kemur svo Hrókur 24-960 með 2.170 skammta, en hann er veturgamall. Ef skoðað er aftur til sæðinga í desember 2021 hvaða hrútar hafa gefið meira en 2.000 útsenda sæðisskammta þá eru það allt fullorðnir hrútar. Gullmoli 22-902 með 2.032 skammta árið 2023, Fróði 18-880 með 2.130 skammta árið 2022, Viðar 17-844 með 2.570 skammta árið 2021 og Grettir 20-877 með 2.040 skammta árið 2021,“ segir hann.
Eyþór bendir einnig á að áhugavert sé að skoða ásókn í kollótta hrúta miðað við hyrnda. „Eftir að ARR-hrútarnir fundust á Þernunesi veltu sumir fyrir sér hvort brátt yrði kollótt fé algengara en hyrnt á Íslandi. Fyrir innleiðingu á verndandi arfgerðum var þetta hlutfall jafnan áætlað um 70% hyrnt á móti 30% kollóttu í sauðfjárstofninum. Á samsetningu hrútastofns bænda síðustu ár hefur mátt greina breytingu þar sem hlutfall kollóttra hefur mikið aukist, auk hnýflóttra og sívalhyrndra hrúta sem settir voru á hin síðustu ár. Eins hefur það verið á sæðingastöðvunum að hlutfall kollóttra hrúta jókst með breyttum áherslum. En framboð af vel hyrndum ARR hrútum hefur verið að aukast. Í vetur var 64% hrútanna á stöðvunum hyrndir, ef undanskildir eru feldog forystuhrútar. En ef skoðuð er sæðisnotkunin nú er 69% af skráðum sæðingum úr hyrndum hrútum. Það má því ætla að tilhneigingin sé að viðhalda hlutföllum hyrnds og kollótts fjár eins og þau voru áður en innleiðing verndandi arfgerða hófst.“
