Kynbótamat byggs við íslenskar aðstæður
Anna Guðrún Þórðardóttir kynnti í haust frumniðurstöður úr doktorsverkefninu Erfðaleg aðlögun byggs að krefjandi umhverfisaðstæðum sem hún vinnur að hjá Landbúnaðarháskóla Íslands í samstarfi við Lantmännen í Svíþjóð og stofnun sem heitir QGG við Árósaháskóla.
„Þarna erum við að reikna kynbótamat fyrir uppskeru byggs á Íslandi og erum að vinna með gögn úr yrkjatilraunum sem ná aftur til ársins 2000 sem voru lagðar út á vegum Rala og síðar Landbúnaðarháskólans,“ segir Anna í samtali. „Þessi gögn liggja kynbótamatinu til grundvallar, en við höfum skipt þeim eftir landshlutum. Ég hef því reiknað kynbótamat uppskeru fyrir hvern landshluta fyrir sig og við fáum þá hugmynd um hvaða yrki henta best innan hvers landshluta og fylgni þeirra á milli. Við erum ekki með nóg af gögnum til að vera með fjóra landshluta, þannig að við erum með Suðurland, Vesturland og Norðurland.“
Verkefnið er fjármagnað með styrk frá Rannís.
Sterk fylgni milli Norður- og Vesturlands
„Á niðurstöðunum má sjá að erfðafylgnin er mjög sterk á milli Norðurlands og Vesturlands, eða um níutíu prósent. Það segir okkur að aukin uppskera á Norðurlandi skilar sér líka í aukinni uppskeru á Vesturlandi og öfugt, eða sömu yrkin raðast ofarlega og neðarlega í þessum landshlutum.
Fylgnin er minni milli Norðurlands og Suðurlands, en þó jákvæð. Þessir útreikningar hafa þá hagnýtingu að ég get tekið eitt tiltekið yrki og spáð fyrir um hvernig það mun standa sig á Norðurlandi ef ég er búin að prófa það á Suðurlandi, svo lengi sem það er skylt öðrum yrkjum sem hafa verið prófuð á Norðurlandi.
Þessar kynbótaeinkunnir nýtast best til að velja foreldra næstu kynslóðar þegar verið er að búa til ný yrki. Við getum þá víxlað saman tveimur foreldrum sem fengu góða einkunn fyrir uppskeru á Suðurlandi og þannig náum við erfðaframförum fyrir þann landshluta jafnvel hraðar. Þá er mjög jákvætt að það sé svona sterk fylgni milli Norðurlands og Vesturlands, því að þá getum við valið foreldra fyrir yrki sem hentar fyrir báða landshluta.“
Unnið að ritrýndri vísindagrein
„Eitt stærsta rannsóknargildi þessa verkefnis er að við erum að nýta gömul gögn um yrki sem við höfum ekki miklar erfðafræðilegar upplýsingar um. Flest plöntukynbótafyrirtæki nýta erfðamengjaúrval sem við þekkjum úr nautgriparæktinni á Íslandi og gerir kynbótastarfið í byggræktinni það einnig. Hins vegar er fjöldi arfgerðagreindra yrkja takmarkandi, en á móti er til mikið magn gagna úr yrkjatilraunum. Með því að sameina ættartölur og arfgerðagreiningar tekst okkur að nýta upplýsingar úr eldri yrkjatilraunum við kynbótamatsútreikninga sem eykur öryggi útreikninganna.“
Anna segir verkefnið afmarkað við að skoða uppskeru byggs og hafi enn sem komið er ekki verið víkkað út til að skoða aðra eiginleika. Núna sé verið að leggja lokahönd á fyrstu ritrýndu greinina sem muni vonandi birtast fljótlega í erlendu vísindatímariti.
