Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður deildar skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands. Hann segir mikilvægt að skógarbændur láti sér málefni búgreinarinnar varða með þátttöku í félagsstarfi. Myndin er tekin í Elliðaárdal þar sem vaxið hefur myndarleg skógrækt.
Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður deildar skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands. Hann segir mikilvægt að skógarbændur láti sér málefni búgreinarinnar varða með þátttöku í félagsstarfi. Myndin er tekin í Elliðaárdal þar sem vaxið hefur myndarleg skógrækt.
Mynd / ál
Viðtal 27. janúar 2026

Skógarbændur þurfa að standa saman

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjörtur Bergmann Jónsson hefur verið formaður deildar skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands (BÍ) frá því í febrúar 2024, en hann stundar skógrækt að Læk í Ölfusi. Hann segir mikilvægt að skógarbændur á Íslandi standi saman, en einnig sé hagur af alþjóðlegu samstarfi. Skógrækt sé mikilvægt verkfæri í baráttunni við loftslagsbreytingar og hvetur hann stjórnvöld til þess að stuðla að því að Íslendingar verði sjálfbærir í sinni kolefnisjöfnun.

Þegar Hjörtur tók við embætti formanns deildar skógarbænda kom honum á óvart hversu sundrað fólk er innan búgreinarinnar. Land og skógur (áður Skógrækt ríkisins) hafi gert um átta hundruð skógræktarsamninga við landeigendur en hins vegar séu bara 195 bændur meðlimir í deild skógarbænda hjá BÍ. Áður fyrr hafi skógarbændur verið með félagsskap sem heitir Landssamband skógareigenda (LSE), en starfsemi þess var lögð niður árið 2021 þegar þau sameinuðust BÍ. „Sumir vilja meina að það hafi ekki verið staðið rétt að því hvernig LSE var lagt niður til þess að ganga til liðs við Bændasamtökin,“ segir Hjörtur. Hann bendir hins vegar á að við stofnun LSE hafi alltaf staðið til að félagið yrði hluti af BÍ.

Hægt að vera í mörgum deildum

„Skógarbændur ættu að fylkjast um að vera í deild skógarbænda til þess að við getum verið með fleiri fulltrúa á Búnaðarþingi. Við höfum bara tvo fulltrúa en vantar örfáa félagsmenn til viðbótar til þess að fulltrúarnir verði þrír. Þegar við erum bara tveir fulltrúar frá skógarbændum getum við ekki verið í nema tveimur nefndum, en það er yfirleitt þar sem stefna Bændasamtakanna er mótuð. Þar af leiðandi fáum við ekki það vægi sem við gætum alveg verið með.

Glugganum til að skrá sig í deild skógarbænda til að fjölga fulltrúum á næsta Búnaðarþingi verður lokað 19. janúar,“ segir Hjörtur. Hann bendir á að bændur geti verið skráðir í fleiri en eina búgrein hjá BÍ og því geti kúabóndi sem stundi skjólbeltarækt eða sé með skógrækt á hluta sinnar jarðar einnig talist til skógarbænda. „Þú getur skráð inn allar þær búgreinar sem þú ert að sinna og þá telur það inn í okkar fjölda,“ segir Hjörtur.

Þrjár einingar á landinu

Innan skógræktar á Íslandi eru þrjár megineiningar sem sinna hver sínu hlutverki, þ.e. deild skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands, Land og skógur, og Skógræktarfélag Íslands. Aðspurður hver munur þessara eininga sé svarar Hjörtur: „Land og skógur er ríkisstofnun sem bændur geta samið við ef þeir ætla í skógrækt. Þar fá þeir ræktunaráætlun og úthlutaðar plöntur og áburð og styrk fyrir að planta þessu. Bændur gera samning til kannski 40 ára og Land og skógur heldur utan um þá á þeim tíma, en í kringum áramót geta bændur sent inn verkáætlun um það sem þeir ætla að gera í skóginum á komandi ári og fengið styrk. Svo sér Land og skógur um mjög stóra skóga sem ríkið á.

Skógræktarfélag Íslands er regnhlífarsamtök fyrir öll skógræktarfélög á landinu. Það eru frjáls félagasamtök einstaklinga sem vilja stuðla að skógrækt í sínu nærumhverfi, en ósjaldan er eitt skógræktarfélag í hverju sveitarfélagi. Við leggjum mikla áherslu á að auka samstarf milli Bændasamtakanna, Lands og skógar og Skógræktarfélags Íslands. Eins viljum við auka samstarf við þau fyrirtæki sem eru í skógrækt til kolefnisbindingar,“ segir Hjörtur

Hluti af evrópskri heild

„Ég hef lagt mikla áherslu á að við myndum taka upp erlent samstarf við skógarbændur, bæði á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, svo að við værum ekki alltaf að finna upp hjólið. Víða erlendis eru þeir allt að hundrað og fimmtíu árum á undan okkur í skógrækt,“ segir Hjörtur. Hann bendir á að á Norðurlöndunum hafi til að mynda verið sáralítil skógrækt áður en farið var í markvisst átak í kringum þarsíðustu aldamót.

Núna sé deild skógarbænda hjá Bændasamtökum Íslands orðin hluti af Evrópusamtökum skógarbænda. Jafnframt séu íslenskir skógarbændur orðnir hluti af samtökum skógarbænda á Norðurlöndum. „Þetta kostar auðvitað pening að vera þarna inni, en á móti fáum við allan þann fróðleik og stuðning sem við óskum eftir,“ segir Hjörtur. „Það eru fulltrúar frá þessum samtökum sem eru alltaf tilbúnir til að koma hingað til að halda erindi og vera með námskeið til að fræða íslenska skógarbændur. Þeir eru búnir að leysa flest þeirra mála sem við erum að berjast í.

Í Svíþjóð var lengi barátta hvort það mætti planta trjám yfir höfuð. Það er barátta sem við erum að ganga í gegnum núna. Bardaginn í Svíþjóð snýst núna um hvort það megi fella skógana. Núna eru Danir með metnaðarfull áform um stórfellda skógrækt, ekki síst til að vernda og auka gæði jarðvegs. Við Íslendingar megum taka þetta til okkar, því að stór hluti landsins er gróðursnauðir melar þar sem allur jarðvegur er fokinn til hafs og fólk er enn þá með andstöðu gegn því að settar séu niður plöntur.“

Mikilvægt að velja skóginum stað

„Í dag er verið að planta trjám sem nýtast ekki bara til miklu meiri kolefnisbindingar heldur líka til framleiðslu burðarviðar og annars byggingarefnis. Timbur er vistvænasta efnið sem þú getur fengið til byggingar á meðan steypa mengar gríðarlega mikið.“ Nú sé verið að leggja lokahönd á að fá CE vottun fyrir íslenskt timbur sem auðveldar ferlið við að fá að nýta það sem burðarvið í hús.

Mjög algengt er að fura sé nýtt til skógræktar og í mörgum eldri skógum er hún orðin sjálfbær og farin að sá sér sjálf. Því geti skógurinn haldið sér við sjálfur þó svo að tré séu felld til nytja. Þá bendir Hjörtur á að skógrækt sé ekki varanleg aðgerð, en með skógarhöggsvélum sé auðvelt að fella skóg og nýta landið til einhvers annars. „Ef það hefur verið skógrækt á landinu í einhverja áratugi er jarðvegurinn miklu frjósamari og betri til matvælaframleiðslu.“

Hjörtur segir miklu máli skipta hvernig skógrækt sé plantað og hvar henni sé valinn staður. „Mér finnst ekki sniðugt að setja skóg meðfram öllum þjóðvegum, en það heftir útsýni. Þú heftir hins vegar ekkert útsýni með að setja skóg í fjallshlíðar og annars staðar þar sem hann fellur inn í landslagið.“

Skógrækt mikilvæg kolefnisaðgerð

Þá telur Hjörtur að sem kolefnisaðgerð komi skógrækt ekki síður til greina en endurheimt votlendis þegar um er að ræða framræst engi sem ekki þjóna hlutverki sínu lengur. Hraðvaxta tré, eins og fura, ösp og greni, bindi kolefni mjög hratt. „Aspir geta verið farnar að skila nytjavið eftir 20 til 30 ár í frjósömum jarðvegi.“ Hjörtur bendir á að nú sé fyrirséð að hérlendis sé að skapast markaður með kolefniseiningar. Hann segir að íslensk stjórnvöld muni þurfa að kaupa kolefniseiningar erlendis frá innan nokkurra ára til að standa við sínar skuldbindingar í loftslagsmálum. Hann vill að tíminn fram að því verði nýttur til þess að efla innlenda kolefnisbindingu með skógrækt í staðinn fyrir að fleiri milljörðum verði varið í að kaupa kolefniseiningar að utan.

Hjörtur var kosinn á sínum tíma til tveggja ára formennsku og reiknar hann með því að bjóða krafta sína fram aftur á komandi Búnaðarþingi. Hann segist hins vegar muna fagna því ef einhverjir fleiri komi fram á sjónarsviðið og bjóði sig fram til formennsku búgreinadeildarinnar.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt