Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, nýr forstjóri Matvælastofnunar, stödd fyrir utan húsnæði stofnunarinnar á Selfossi þar sem hennar skrifstofa og starfsaðstaða er.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, nýr forstjóri Matvælastofnunar, stödd fyrir utan húsnæði stofnunarinnar á Selfossi þar sem hennar skrifstofa og starfsaðstaða er.
Mynd / MHH
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði doktor Hrönn Ólínu Jörundsdóttur í embætti forstjóra Matvælastofnunar til næstu fimm ára frá og með 1. ágúst síðastliðnum en alls bárust átján umsóknir um starfið. Hrönn hefur verið að setja sig inn í starfið en hún er efnafræðingur með framhaldsmenntun í umhverfisefnafræði og hefur starfað hjá Matís undanfarin 11 ár. Hún hefur jafnframt sérhæft sig á sviði matvælaöryggis, áhættumats og áhættumiðlunar. 

Hrönn Ólína er mikill hjólreiðagarpur og segist elska jólin en fer þó ekki hátt með það. 

Uppalinn Mosfellingur

„Ég fæddist á Lansanum í Reykjavík í júlí 1978 og eftir flakk fyrstu fimm árin, m.a. til Fáskrúðsfjarðar og Svíþjóðar, þá settumst við að í Mosfellsbæ og ég flokka mig sem uppalinn Mosfelling. Pabbi er prófessor í HÍ í sjávarlíffræði og mamma er tannlæknir en ég á svo tvær yngri systur. 

Ég bý með Brynjari Guðmundssyni, sem er Siglfirðingur í húð og hár, og samtals eigum við fimm börn frá fyrri samböndum. Ég ólst upp í hestamennsku og handbolta, fór í MS til að taka stúdentinn og svo beint í HÍ í efnafræði því ég vissi ekkert hvað ég vildi verða, notaði útilokunaraðferðina og þá var efnafræði það sem stóð upp úr, eins furðulegt og það kann að hljóma. 

Eftir að hafa klárað B.Sc. í efnafræði þá dró ég fyrrverandi eiginmann með út til Svíþjóðar þar sem ég fór í framhaldsnám í umhverfisefnafræði. Eftir að hafa búið þar í sjö ár þar til við fluttum heim aftur og beint í Mosó, eignuðumst við þrjú börn og skildum, en nokkrum árum seinna kynntist ég Brynjari og við erum búin að vera límd saman síðan.“

Stjórnarformaður Bláa hersins

Eftir heimkomuna frá Svíþjóð byrjaði Hrönn hjá Matís 2009 sem verkefnisstjóri og varð svo sviðsstjóri yfir matvælaörygginu nokkru seinna og sá um reksturinn á þjónusturannsóknarstofunni. Þaðan kom hún svo beint til Matvælastofnunar í ágúst. 

„Fyrir utan það þá er ég stjórnarformaður Bláa hersins sem er stýrt af herforingjanum Tómasi Knútssyni, eldhuga og frumkvöðli. Fyrir utan vinnuna þá er ég djúpt sokkin í reiðhjólasportið þar sem búið er að skipta út reiðskjótunum með keppnum, þjálfun og æfingum. Á veturna stundum við fjölskyldan svo skíðasportið af miklum móð þar sem við hjónaleysin förum mikið á fjallaskíði. En annars er öll útivist mjög ofarlega á áhugasviðslistanum. Ég held að það sé óhætt að segja að ég sé jákvæður orkubolti sem hefur gaman af lífinu og nýjum áskorunum. Eins og ég segi í hjólreiðunum, ég elska brekkur,“ segir Hrönn og hlær.

Matvælaöryggi og umhverfismál

Talið berst næst að því hvað hafi komið til að hún hafi sótt um starf forstjóra Matvælastofnunar þegar hún var í góðu starfi hjá Matís.

„Já, þú segir nokkuð, bæði í mínu námi erlendis og hjá mínum fyrri vinnuveitanda, Matís, þá hef ég unnið að málum sem varðar matvælaöryggi og umhverfismál. Í gegnum þessa vinnu og rannsóknir þá hef ég þróað hjá mér brennandi áhuga á málaflokkunum, og þá sérstaklega matvælaöryggi og get drepið niður hvaða partí sem er með umræðum um óæskileg efni í matvælum og áhrif þeirra á heilsu manna. 

Ég hef mjög góða þekkingu og kunnáttu á áhættumati og matvælaöryggi og hef mjög sterkar skoðanir á mikilvægi málaflokksins. Ég hafði einnig unnið með Matvælastofnun í gegnum árin og finnst starf stofnunarinnar vera einstaklega mikilvægt og að mörgu leyti vanmetið. Eins hef ég líka sterka skoðun á hvert er hægt að fara með stofnunina til að gera hana enn betri og það voru þær hugmyndir og skoðanir sem gerðu það að verkum að ég gat ekki annað en sótt um,“ segir  Hrönn.

Hrönn á skrifstofunni sinni á Selfossi en fjölskyldan hefur ákveðið að flytja á Selfoss og er að leita sér að hentugu húsnæði á staðnum. Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson

Stolt af því að hafa fengið stöðuna

Kom það þér á óvart að hafa fengið starfið hjá Matvælastofnun?

„Já og nei, það kom mér vissulega á óvart að komast áfram því ég veit að samkeppnin var gríðarlega sterk og mjög flottir kandídatar sem sóttu um og ég er því líka mjög stolt af því að hafa fengið stöðuna. En ég held að ég hafi margt fram að færa og ég náði að selja þá framtíðarsýn og stefnu sem ég hef á eftirliti og stjórnun inn í valnefndina og til ráðherra. 

Það sem ég held að hafi veitt mér forskot á aðra aðila var að ég vil leggja mikla áherslu á samtal og skilning milli aðila ásamt því að ég er mjög drífandi og framávið með góða þekkingu og skilning á hluta verkefna stofnunarinnar.

Ég hef nú þegar hafið stefnumótun innan stofnunarinnar sem ég held að leiði til framsýnnar stofnunar sem svarar þörfum samtímans og skapar betri sátt um störf stofnunarinnar.“

Annasamir mánuðir

Eins og gefur að skila tekur það tíma sinn fyrir nýjan forstjóra að kynnast starfi stofnunarinnar og fólkinu sem þar starfar en það hefur þó gengið ótrúlega vel hjá Hrönn.

„Já, fyrstu mánuðirnir hafa verið mjög annasamir. Fyrir það fyrsta að reyna að ná áttum og yfirsýn yfir það gríðarlega víðfeðma svið sem stofnunin sinnir og kynnast öllu því frábæra fólki sem hjá stofnuninni vinnur. Eins er áskorun að takast á við stjórnun á stofnun sem ég þekki ekki til fullnustu á tímum COVID og tryggja það að fólk geti unnið áfram, líði vel og geti sinnt sínum verkefnum. En sem betur fer er ég með mjög gott fólk með mér til aðstoðar. Við erum að byrja að marka framtíðarsýn fyrir stofnunina og vinna að því að efla stofnunina svo við getum betur sinnt þeim verkefnum sem eru hjá okkur. 

Það eru skipulags- og rekstrarlegar áskoranir hjá okkur á næsta ári að takast á við ásamt því að byggja upp okkar gagnagrunna og tölvukerfi,“ segir Hrönn og bætir strax við: „Sem dæmi, við erum t.d. að takast á við stærsta riðutilfelli sem upp hefur komið síðustu áratugi og það er ótrúlegt að fylgjast með fagfólkinu takast á við það verkefni. Við erum að takast á við úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu og hvernig það hefur á íslenskan inn- og útflutning.

Mér líst virkilega vel á starfið og allt því sem starfinu fylgir. Mig óraði samt ekki alveg fyrir hversu fjölbreytt stofnunin er og það hefur verið mjög upplýsandi að fá að fylgjast með mismunandi verkefnum og að kynnast öllu því fólki sem vinnur hér.“

100 manna stofnun á fjórum stöðum

– Hvernig er stofnunin byggð upp og hvar eruð þið með starfsemi og hver er fjöldi starfsmanna?

„Við erum u.þ.b. 100 manns sem starfa hjá stofnuninni dreift um landið á 4 mismunandi sviðum ásamt skrifstofu forstjóra. Sviðin eru Neytendavernd og fiskeldi, Dýraheilsa, Markaðsmál og svo Samhæfing og þjónusta. 

Höfuðstöðvarnar eru á Selfossi og svo erum við með stóra skrifstofu á Dalshrauni í Hafnarfirði þar sem inn- og útflutningsmál (markaðsmál) eru staðsett. 

Hjá okkur eru fimm héraðsdýralæknar með hvert sitt umdæmi á landinu. Störfin og verkefnin eru einstaklega fjölbreytt og viðamikil en kjarninn er eftirlit með matvælum og dýraheilsu og velferð og umbjóðendur okkar eru neytendur, dýr og plöntur.“

Neytendavernd og fiskeldi

Hrönn heldur áfram að segja frá starfsemi Matvælastofnunar og tekur skýrt fram að starfsemin sé  gríðarlega viðamikil og fjölbreytt, en líka skemmtileg og krefjandi.

„Já, það er rétt því það  má segja að við séum með tvö stór eftirlitssvið, þá annars vegar Neytendavernd og fiskeldi sem hefur eftirlit með matvælaframleiðslu og fiskeldi og hins vegar Dýraheilsa sem hefur eftirlit með frumframleiðslu, dýrasjúkdómum og dýravelferð. Þar koma t.d. gæludýr líka inn. Þriðja stóra sviðið er svo Markaðsmál sem sinnir eftirliti og gefur út vottorð fyrir inn- og útflutning sem gerir það að verkum að markaðir erlendis séu opnir fyrir íslenska framleiðslu sem dæmi. Fjórða sviðið og skrifstofa forstjóra eru mikilvægar stoðeiningar fyrir okkur og ráðuneytið. Það er erfitt að setja hvaða mál taka lengstan tíma en það geta verið flókin og stór mál varðandi úrbætur á athugasemdum sem koma upp í eftirliti. Við erum sífellt að reyna að bæta ferilinn hjá okkur til að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að mál séu að dragast að óþörfu hjá okkur,“ segir Hrönn. 

Hún tekur líka fram að erfið velferðarmál dýra geta verið átakanleg og flókin og oft erfitt að takast á við, þar geti komið inn erfiðar mannlegar aðstæður, andleg og líkamleg veikindi, félagsleg vandamál og svo framvegis.

„En ég held að slæm meðferð á dýrum séu alltaf átakanlegustu málin. Eins má segja að riðutilfellin núna fyrir norðan eru einstaklega erfið og viðamikil þar sem afleiðingarnar eru virkilega sárar fyrir ábúendur býlanna sem þarf að skera niður. Ég sé það hins vegar að starfsfólk Matvælastofnunar setur virkilega hjarta og sál í sína vinnu og gerir það virkilega vel,“ segir Hrönn.

Frábær mannauður

Þegar talið berst að mannauði Matvælastofnunar er Hrönn fljót til svars.

„Ég segi það hreint út að ég er ákaflega stolt af mínu fólki hjá Matvælastofnun og af stofnuninni í heild sinni. Sérfræðingastofnun eins og Matvælastofnun væri ekkert án þess frábæra fólks sem er innanhúss og sérfræðiþekkingin er gríðarleg.

Ég hef séð hvað fólkið mitt er tilbúið að leggja á sig til að fylgja eftir málum, vinna að bættu umhverfi og betri velferð dýra, oft við mjög erfiðar aðstæður. Eftirlitsfólkið hefur orðið fyrir aðkasti og árásum einstaklinga sem eiga við vanheilsu að etja, hefur stigið inn í virkilega erfiðar aðstæður til að tryggja velferð dýra og hefur þurft að taka mjög erfiðar ákvarðanir til að tryggja öryggi neytenda. 

Auðvitað gerum við mistök, við erum engan veginn hafin yfir gagnrýni og getum alltaf lært og bætt okkur. En ég myndi segja að í heildina vinnum við af heilindum og metnaði með hag okkar umbjóðenda fyrir brjósti. Við erum t.d. að bæta okkur í samskiptum við hagaðila sem ég held að sé mjög mikilvægt því það hefur í gegnum tíðina skort á skilningi á okkar störfum. Ég vil opna meira á samtal og samráð þannig að við getum stuðlað að betri sátt um störf okkar.“

Erlend samskipti

Matvælastofnun á í miklum erlendum samskiptum og Hrönn segir þau mjög mikilvæg. 

„Við tengjumst sambærilegum stofnunum á Norðurlöndunum og Evrópu, ásamt Matvælaöryggisstofnun Evrópu. Samskiptin eru mikilvæg því við erum oft að kljást við sömu vandamálin og áhætturnar, við getum alltaf lært af hvert öðru og það er mjög mikilvægt að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur. Samskiptin eru margs konar, það eru netverk, fundir, námskeið og fleira sem er unnið saman og ég myndi gjarnan vilja finna leiðir til skiptivinnu milli norrænna stofnana til að við lærum af hvert öðru og flutt þekkingu og verklag milli landa.“

Mörg erfið mál

„Það geta oft komið mjög erfið mál inn á okkar borð. Við höfum innleitt teymisvinnu til að geta betur tekið á erfiðari og stærri málum. Teymin hafa gefið stofnuninni mikið, með því erum við að tryggja að við séum með réttan mannauð til að takast á við málin í hvert sinn, þau séu leyst heildstætt og samhæft, sérstaklega milli landshluta. Eins eru teymin líka stuðningur fyrir starfsfólkið þannig að það standa fleiri að baki ákvörðuninni sem er tekin,“ segir Hrönn aðspurð hvernig tekið sér á erfiðum og flóknum málum, sem koma inn á borð stofnunarinnar.

COVID er mikil áskorun

– Hver eru brýnustu mál stofnunarinnar á þessum skrýtnu tímum sem við lifum á?

„Vissulega er vinna á tímum COVID virkileg áskorun og að finna betri leiðir til að sinna okkar vinnu áfram. Það eru stór utanaðkomandi verkefni sem við þurfum að takast á við eins og afleiðingar Brexit á íslenskan inn- og útflutning. Ég myndi segja að brýnustu málin séu annars vegar að byggja upp frekari samskipti milli okkar og hagaðila okkar til að geta byggt upp betri og sterkari Matvælastofnun með jákvæða ímynd. 

Eins erum við að skoða lausnir til að efla rafrænar lausnir sem á bæði við okkar viðskiptavini en eins okkar eigið starfsfólk. Við þurfum að endurskipuleggja uppsetningu okkar gagnagrunna og gera t.d. afgreiðslu vottorða eins sjálfvirka og við getum. Eins erum við að meta og skoða hvernig við getum sinnt betur okkar eftirliti. Við settum niður 3 vísa fyrir þjónustu annars vegar og eftirlit hins vegar sem við ætlum að styðjast við. En í framtíðinni viljum við að þjónustan okkar sé snögg, fagleg og aðgengileg og að eftirlitið sé einfalt, málefnaleg og skilvirkt.“

Framtíðarsýnin er skýr

– Hver eru brýnustu verkefni Matvælastofnunar í náinni framtíð?

„Mín framtíðarsýn er að Matvælastofnun sem ein mikilvægasta stofnun landsins í Matvælalandinu Ísland, vinni samhliða hagsmunaaðilum með jákvæðu hugarfari beggja aðila og að allir eftirlitsaðilar séu samhæfðir og skilvirkir í sínu eftirliti. 

Mín framtíðarsýn er líka að eftirlit sé litið jákvæðum augum og eftirlit sé notað sem tækifæri til að bæta sig og sína framleiðslu og jafnvel sem markaðstækifæri. Ef eftirlit er einfalt, málefnalegt og skilvirkt þá er það klárlega styrkur fyrir góðan iðnað og framleiðslu.

 Við þurfum líka að tryggja að sá rammi sem Matvælastofnun vinnur innan svari þörfum samtímans. Ég mun leggja áherslu á samtal og samvinnu við hagsmunaaðila, betri upplýsingagjöf og stafrænni Matvælastofnun.“

Framtíðin björt

Hrönn segist horfa björtum augum á framtíð Matvælastofnunar þegar hún horfir í gegnum kristalkúluna sína næstu 10 til 15 árin.

„Já, já, ég sé mjög bjarta framtíð fyrir Matvælastofnun, ég held að við séum alltaf að þróast og breytast og það er hollt. Samfélagið er sífellt í þróun og við verðum að fylgja því.

Við erum byrjuð á stefnumótun til næstu fimm ára og ég sé það sem virkilega spennandi verkefni en við erum búin að lista niður bæði innanhúss og utanhúss verkefni niður á blað. Ég sé að ráðuneytið er á góðum stað og samskiptin milli Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eru mjög góð þar sem ráðuneytið hefur virkilega lagt sig fram við að fá yfirsýn yfir öll þau fjölmörgu verkefni sem við sinnum. Ég held að næstu ár verði viðburðarík og ég sé vel skipulagða og skilvirka stofnun eftir 10–15 ár.“

Fjölskyldan, Hrönn og Brynjar ásamt börnunum, sem eru Eiríkur Freyr, Iðunn Ragna í miðjunni og Ásdís Rún. Myndin var tekin í fjölskylduferð til vesturstrandar USA 2018, tekin í Universal studios í LA. Mynd / Úr einkasafni

Djúpt sokkin í hjólasportið

Hrönn Ólína á sér mörg áhugamál og reynir að sinna þeim eftir fremsta megni þegar hún er ekki í vinnunni.

„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að maður verði að hafa eitthvað annað fyrir stafni til að hvíla hugann ef maður er í krefjandi starfi, það er mjög mikilvægt að kúpla sig aðeins út. Eins er mikilvægt að sinna fjölskyldunni og ég hef alltaf verið mikil fjölskyldumanneskja. Annars er ég djúpt sokkin í hjólasportið, líklega mikið meira en góðu hófi gegnir en hjólreiðar eru eitt það skemmtilegasta sem ég veit en ég stunda bæði þjálfun, æfingar og keppnir. Svo koma skíðin eftir það en skíðin eru líka eitthvað sem við öll fjölskyldan stundum saman. Annars eru almenn útivera og samvera með fjölskyldunni það sem ég legg áherslu á, bara t.d. fara út að kvöldi til í stjörnuskoðun með krökkunum er æði, sérstaklega svona á COVID-tímum.“

Jólin eru æði

Nú þegar jólahátíðin er alveg að ganga í garð er ekki komist hjá því að spyrja nýjan forstjóra Matvælastofnunar hvernig jólin séu í hennar huga.

„Ég er svona laumujólabarn, mér finnst jólin æði. Ég er samt aðeins of löt í skreytingum og bakstri. Það eru samt alltaf settar upp einhverjar seríur og alltaf eitthvað bakað en það er pínu óskipulagt og ómarkvisst. Ég laumast samt alveg til að spila jólalög fyrir 1. desember. 

Ég hlakka alltaf til jólanna þar sem maður finnur að samfélagið dettur í annan gír og það eru alltaf ákveðnir töfrar í kringum jólin. Ég ákvað líka fyrir löngu að stressa mig ekki of mikið á jólunum og reyna að njóta þeirra frekar. Eins höfum við skapað þá hefð að fara alltaf í skógræktina í Mosó og saga niður eigið jólatré sem er svo skreytt á Þorláksmessu með eins miklu af heimatilbúnu og gömlu skrauti eins og hægt er, mér finnst það mjög heimilislegt en algjörlega stíllaust. Annars eru foreldrar okkar beggja úti á landi og við höfum bara reynt að hitta sem flesta en skipulagið er nú oft bara eftir eyranu eftir því sem hentar hverju sinni. Krakkarnir mínir eru stundum hjá okkur en ef þau eru ekki heima, þá er jólahaldið bara fært til,“ segir Hrönn.

2021 verður frábært ár

Hvernig leggst nýtt ár, 2021, í þig?

„Ég er í eðli mínu einstaklega bjartsýn og lausnamiðuð manneskja þannig að ég held að 2021 verði frábært ár. Og auðvitað vonar maður að 2021 verði betra en 2020. En ég held að við förum að fara að komast út úr þessu COVID, við getum farið að hittast meira og farið að koma samfélaginu aftur í gang. Ég sé fullt af skemmtilegum verkefnum fyrir mér á árinu, bæði persónulega og hvað vinnuna varðar. 

Við fjölskyldan erum t.d. búin að selja heimilið í Mosfellsbænum og erum að leita okkur að húsi á Selfossi þar sem höfuðstöðvar Matvælastofnunar eru, þannig að það verður spennandi nýr kafli í lífinu að flytja á nýjan stað. Ég er líka mjög jákvæð gagnvart 2021 hjá Matvælastofnun. Vissulega eru áskoranir fram undan, COVID hafði töluverð áhrif á stofnunina sem við erum ekki búin að sjá fyrir endann á. En við erum að móta okkur framtíðarsýn og búin að ákveða verkefni til að vinna að sem ég held að geri stofnunina betri. Þannig að ég horfi björtum augum á framtíðina,“ segir nýi forstjórinn.  

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt