Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
Hátt hlutfall gjörunninna matvæla í mataræði mannsins er orðið eitt stærsta lýðheilsuverkefni samtímans. Röð þriggja greina í The Lancet leiðir í ljós að þessi þróun tengist lakari gæðum fæðunnar, aukinni áhættu á fjölmörgum langvinnum sjúkdómum og kerfisbreytingum í matvælaframleiðslu sem knúnar eru áfram af öflugum iðnaði. Höfundar greinarinnar leggja til víðtækar stefnumótandi aðgerðir til að snúa þessari þróun við.
Greinaröð The Lancet varar við hraðri útbreiðslu gjörunninna matvæla um allan heim. Þessi matvæli, sem eru iðnaðarframleiddar blöndur úr ódýrum innihaldsefnum og aukefnum, innihalda oft lítið sem ekkert af óunnum matvælum. Þau eru hönnuð til að hámarka hagnað og ryðja hefðbundnum matarvenjum úr vegi.
Rannsóknir sýna að mataræði með háu hlutfalli gjörunninna matvæla tengist aukinni áhættu á offitu, sykursýki tvö, hjarta- og æðasjúkdómum, þunglyndi og jafnvel hærri dánartíðni. Tilraunarannsóknir styðja þessi tengsl og benda til skaðlegra verkunarmáta, svo sem ójafnvægis í næringarefnum, ofáts, hormónatruflandi efna og aukefna sem geta valdið bólgu og truflunum í líkamsstarfsemi.
Höfundar greinarinnar segja að frekari rannsóknir muni halda áfram, en að tafarlausar aðgerðir í lýðheilsu séu nauðsynlegar til að vernda og efla mataræði sem byggir á óunnum matvælum og hefðbundinni matargerð.
En skoðum betur efni greinanna þriggja í The Lancet.
Áhrif á heilsu
Fyrsta grein fjallar um áhrif gjörunninna matvæla á mataræði og heilsu. Höfundar setja fram þrjár tilgátur.
Sú fyrsta heldur því fram að gjörunnin matvæli séu að ryðja úr vegi hefðbundnum matarvenjum sem byggja á óunnum matvælum og heimagerðum réttum. Áratugalangar rannsóknir á matarvenjum styðja þetta og sömuleiðis nýleg gögn um sölu matvæla um allan heim.
Önnur tilgátan er sú að þessi breyting leiði til lakari gæða mataræðis, sérstaklega þegar kemur að forvörnum gegn langvinnum sjúkdómum. Rannsóknir sýna að mataræði sem byggir á gjörunnum matvælum valdi ójafnvægi í næringarefnabúskap fólks, hvetji til ofáts vegna mikillar orkueiningaþéttni og bragðstyrks gjörunnins matar, og dragi úr neyslu heilsusamlegra plöntuefna. Auk þess eykst inntaka eitraðra efna, hormónatruflandi efna og matvælaaukefna sem geta verið skaðleg.
Þriðja tilgátan er sú að þessar matarvenjur auki hættu á fjölmörgum langvinnum sjúkdómum. Þetta er stutt af yfir 100 rannsóknum, þar á meðal slembirannsóknum og samantektargreiningum, sem sýna skaðleg áhrif á nær öll líffærakerfi.
Heildarniðurstöðurnar benda til þess að útbreiðsla gjörunninna matvæla sé einn helsti drifkraftur vaxandi alþjóðlegs vandamáls sem er fjölgun langvinnra sjúkdóma sem tengjast mataræði.
Hinar tvær greinarnar í röðinni fjalla um hvaða aðgerðir og stefnu þarf til að vernda og efla mataræði sem byggir á ferskum og lítið eða óunnum matvælum og koma í veg fyrir að þau víki fyrir hinum gjörunnu.
Þróuninni snúið við
Önnur greinin fjallar um leiðir til þess að stöðva og snúa við þróun í átt að aukinni framleiðslu, markaðssetningu og neyslu gjörunninna matvæla.
Höfundar leggja til að gripið verði til aðgerða af hálfu stjórnvalda í öllum löndum til að stöðva og snúa við útbreiðslu gjörunninna matvæla, ekki aðeins með því að draga úr fitu, sykri og salti, heldur með víðtækari aðgerðum sem taka á framleiðslu, markaðssetningu og neyslu slíks matar.
Ýmislegt þarf að breytast að mati greinarhöfunda. Núverandi stefna, sem miðar að því að draga úr fitu, sykri og salti í matvælum, þarf að verða víðtækari og beinast sérstaklega að gjörunnum matvælum. Breyta þarf lagalegu umhverfi með reglum sem takmarka markaðssetningu, aðgengi og taka sömuleiðis á verðlagningu gjörunninna matvæla. Lönd eins og Kólumbía, Mexíkó, Brasilía og Chile hafa þegar innleitt skatta, viðvörunarmerkingar og bann við sölu eða auglýsingum í skólum, en þessar aðgerðir þurfa að styrkjast og ná til fleiri landa, segir í greininni.
Aðgerðirnar þurf að beinast að framleiðendum gjörunninna matvæla, skyndibitakeðjum og stórum smásölum, en einnig landbúnaði, alþjóðaviðskiptum og þeim umhverfisáhrifum sem framleiðslan hefur. Nauðsynlegt er að takmarka pólitísk áhrif og markaðsvald alþjóðlegra fyrirtækja sem framleiða og selja gjörunnin matvæli.
Samhliða þarf að efla framleiðslu, aðgengi og hagkvæmni ferskra og lítið unninna matvæla og takast á við félagslegt og kynbundið ójafnvægi sem eykur eftirspurn eftir gjörunnum matvælum.
Höfundar leggja áherslu á að alþjóðleg samhæfð aðgerðaráætlun sé brýn, óháð þróunarstigi landa, til að vernda heilsu og stuðla að hollara mataræði.
Alþjóðlegar aðgerðir gegn gjörunnum matvælum
Í þriðju greininni er kallað eftir alþjóðlegum aðgerðum gegn áhrifavaldi matvælaiðnaðarins sem stendur að baki gjörunnum matvælum. Þrátt fyrir að skaðleg áhrif þessara matvæla á lýðheilsu sé nú viðurkennd séu alþjóðleg stefnumótandi viðbrögð enn á byrjunarstigi. Þar er vísað til baráttunnar gegn notkun tóbaks fyrir nokkrum áratugum. Talað er um mikilvægi þess að auka þurfi skilning á rót vandans og hraða alþjóðlegum aðgerðum.
Iðnaðurinn sem stendur að baki gjörunnum matvælum er lykildrifkraftur vandans, segir í greininni. Stærstu fyrirtækin og tengdir aðilar hafa endurskipulagt matvælakerfi víða um heim til að ýta undir neyslu gjörunninna matvæla. Hærri arðsemi gjörunninna matvæla miðað við önnur matvæli styrkir viðskiptamódel iðnaðarins og fjármagnar frekari útbreiðslu.
Pólitísk ítök iðnaðarins standa einnig í vegi fyrir því að farið sé í aðgerðir gegn honum. Og hann hefur ítök um allan heim. Hagsmunagæslan sé sterk og hafi áhrif á stjórnmálafólk auk þess sem iðnaðurinn hafi áhrif á almenna umræðu með „vísindalegum“ gögnum sem skapa efasemdir, eins og segir í greininni.
Til þess að leysa vandann segir að það þurfi að rjúfa viðskiptamódel gjörunninna matvæla og beina fjármagni til annarra framleiðenda. Verja þurfi stefnumótun gegn áhrifum fyrirtækja og innleiða öflugar reglur um hagsmunaárekstra í stjórnsýslu, rannsóknum og faglegri starfsemi.
Enn fremur þarf að móta alþjóðlega viðbragðsáætlun sem felur í sér að skilgreina gjörunnin matvæli sem forgangsmál í alþjóðlegri lýðheilsu, byggja upp öflug hagsmunasamtök á heimsvísu og innan landa sem halda fram málstað heilnæmra matvæla, efla lagalega stöðu og fræðilega, auk þess að styrkja umræðuna og knýja þannig fram breytingar. Þannig megi tryggja sanngjarna umbreytingu til mataræðis með litlu hlutfalli gjörunninna matvæla.
Greinin leggur áherslu á að samhæfð, vel fjármögnuð alþjóðleg viðbrögð séu brýn – aðgerðir sem takast á við vald matvælaiðnaðarins, endurheimta stefnumótun í almannaþágu og endurskipuleggja matvælakerfi heimsins með heilsu, jöfnuð og sjálfbærni í forgrunni.
Í grófum dráttum
Hvað segja rannsóknirnar?
- Mataræði með háu hlutfalli gjörunnina matvæla tengist offitu, sykursýki tvö, hjarta- og æðasjúkdómum, þunglyndi og hærri dánartíðni.
- Rannsóknir sýna að gjörunnin matvæli leiða til ójafnvægis í næringarefnum, ofáts, minni neyslu heilsuverndandi efna og aukinnar inntöku eiturefna og aukefna.
- Heildarniðurstöður yfir hundrað rannsókna og tilrauna staðfesta að gjörunnin matvæli eru lykilþáttur í vaxandi álagi á heilbrigðiskerfi heimsins vegna langvinnra sjúkdóma.
Hvers vegna breiðast gjörunnin matvæli svona hratt út?
- Hærri arðsemi gjörunninna matvæla miðað við önnur matvæli ýtir undir viðskiptamódel sem byggir á gjörunnum vörum.
- Stærstu fyrirtæki í greininni hafa alþjóðavæðst og stækkað markaði, sérstaklega í lág- og millitekjulöndum.
- Öflug markaðssetning og pólitísk ítök hindra reglugerðir og bæla mótstöðu. Þetta felur í sér hagsmunagæslu, fjárframlög, málarekstur af ýmsu tagi og framleiðslu „vísindalegra“ gagna sem skapa efasemdir.
Hvað þarf að gera?
- Núverandi áhersla á fitu, sykur og salt þarf að ná til gjörunninna matvæla sem heildarflokks.
- Innleiða reglur sem takmarka markaðssetningu, aðgengi og taka sömuleiðis á verðlagningu gjörunninna matvæla. Lönd eins og Chile, Mexíkó og Brasilía hafa þegar tekið fyrstu skrefin með sköttum, viðvörunarmerkingum og banni við sölu í skólum.
- Rjúfa viðskiptamódel gjörunninna matvæla, endurdreifa fjármagni til annarra framleiðenda, útiloka fyrirtækin á bak við gjörunnu matvælin úr stefnumótun og innleiða öflugar reglur um hagsmunaárekstra.
- Efla framleiðslu, aðgengi og hagkvæmni ferskra og lítið unninna matvæla, sérstaklega fyrir heimili með lægri tekjur.
Alþjóðleg samhæfð aðgerðaráætlun er brýn
- Skilgreina gjörunnin matvæli sem forgangsmál í alþjóðlegri lýðheilsu.
- Koma upp öflugum hagsmunasamtökum um heilnæm matvæli innan landa og á heimsvísu.
- Efla lagalega, fræðilega og samskiptalega getu til að knýja fram breytingar.
- Tryggja sanngjarna umbreytingu til mataræðis með litlu hlutfalli gjörunnina matvæla sem styður sjálfbærni, fæðuöry
