Óvissa og áskoranir í þróun orkumála
Samkvæmt nýútgefinni Orkuspá fyrir Ísland eru umtalsverðar áskoranir og mikil óvissa fram undan í þróun orkumála.
Orkuspá er unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofnun og Raforkueftirlitinu. Hún var kynnt í Hörpu þann 1. desember og er heildstæð orkuspá sem nær yfir jarðvarma, orkuskipti og raforku og er ætlað að varpa ljósi á þróun orkumála á Íslandi til 2050. Spá um raforkuþörf á Íslandi er hluti af lögbundnu hlutverki Landsnets.
Grunnspá og háspá
Í spánni er tveimur sviðsmyndum stillt fram sem grunnspá og háspá. Grunnspá miðast við miðspá í mannfjölda og komu ferðamanna, auk þess sem tekið er mið af núverandi þróun í orkuskiptum og þeim vexti í iðnaði sem hefur verið á undanförnum árum. Einnig að áfram verði í gildi sömu reglur og sama stefna í orkuskiptum. Verkefni eða aðgerðir sem eru fyrirhugaðar eru ekki teknar inn í grunnspá.
Hin sviðsmyndin er háspá í mannfjölda- og ferðamannaspá og auknum umsvifum í stórnotkun, meðal annars í matvælaiðnaði, gagnaversiðnaði og rafeldsneytisframleiðslu. Einnig er í henni gert ráð fyrir hraðari orkuskiptum. Öll aukning í flokknum tekur mið af áformum þróunaraðila.
Orkunotkun færist frá raforku yfir í jarðvarmaorku
Helstu niðurstöður í grunnspá eru að almenn raforkunotkun vex hægar en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Bætt orkunýtni veldur hægari vexti, sem skýrist af nýjum tækjabúnaði auk sparnaðar í þjónustu sveitarfélaga og ríkis. Lækkun er á hlutfalli í nýskráningum hreinorkubíla, úr 67% í 54% á síðasta ári. Með aukinni raforkunotkun í landeldi færist sú grein í flokk stórnotenda og því lækkar vöxtur í iðnaði í grunnspá í samræmi við þá breytingu. Vegna átaksins „Jarðhiti jafnar leikinn“ færist orkunotkun á tilteknum svæðum úr raforku yfir í jarðvarmanotkun.
Í umfjöllun um stórnotkun í grunnspá segir að slæm vatnsár virkjana dragi dilk á eftir sér næstu árin. Miklar breytingar hafi orðið í notkun í gagnaversiðnaði, en um helmings samdráttur varð á árunum 2022 til 2025. Þá er gert ráð fyrir töluvert minni notkun hjá stórnotendum í heild næsta árið vegna viðskiptahafta á kísilmálm, þróunar í gagnaversiðnaði og bilana. Þá er tiltekið að uppbygging nýrra viðskiptavina sé hæg varðandi stórnotendur, en landeldið breytist úr almennum notendum í stórnotendur á næstu árum með nýjum samningum.
Í helstu niðurstöðum um háspá segir að aukin þörf sé á sveigjanleika á orkumarkaði og kvikara viðskiptaumhverfi, með tilkomu hraðari tækniþróunar og fjölbreyttari þarfa stórnotenda. Viðskiptatollar frá Evrópu munu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar á kísilmálmiðnað og rafeldsneyti í háspá kemur seinna inn á spátímabilið en í eldri spám og í minna magni.
Í niðurstöðum fyrir háspá segir enn fremur að framboð á orku verði í hægum vexti og óvissa sé með vindorku. Virkjanaframkvæmdum seinki miðað við fyrri spá þar sem lagaumhverfi og kærumál valdi töfum. Von sé á nýjum örvirkjunum með sólarorku og smávirkjunum með vindorku. Fyrirhuguð stefna í vindorku liggi ekki fyrir og engir nýir vindorkukostir í nýtingarflokki rammaáætlunar.
Orkan lykilbreytan
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hélt erindi á undan kynningum á þeim þremur flokkum sem Orkuspáin nær yfir. Sagði hann að Orkuspáin væri algjört lykilgagn fyrir ríkisstjórn sem vinnur samkvæmt skýrum markmiðum um aukna verðmætasköpun, aukna framleiðni og fjölgun vellaunaðra starfa um allt land. Í slíkri framtíðarsýn væri orkan algjör lykilbreyta.
Tryggt og fyrirsjáanlegt aðgengi að raforku á samkeppnishæfu verði væri forsenda þess að við gætum opnað nýjar dyr og ný tækifæri um landið allt. Aukin orkunotkun og orkuframleiðsla, annars vegar, og aukinn hagvöxtur, verðmætasköpun og atvinnusköpun hins vegar, væru tvær hliðar á sama peningnum.
Íslendingar hafi byggt upp sterkt raforkukerfi sem við getum verið stolt af, en samkeppnisforskotið liggi líka í jarðvarmaorkunni.
Ríkisstjórnin væri staðráðin í því að auka samkeppnisstöðu Íslands á þessu sviði og þess vegna hafi nýverið verið ráðist í stærsta jarðhitaátakið á þessari öld. Verið sé að móta jarðhitastefnu til ársins 2050, ekki aðeins til jöfnunar lífskjara heldur líka til verðmætasköpunar hvarvetna á landinu.
Mikill vöxtur í jarðhitanotkun
Ingvar Þór Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, kynnti síðan sérstaklega orkuspá fyrir jarðvarmann.
Sagði hann að sé horft á jarðhitanotkun til tíu ára gera sviðsmyndirnar ráð fyrir 40 til 70 prósent vexti, 40 í grunnspá og 70 í háspá. Samkvæmt báðum sviðsmyndum verður mikil aukning í flokkunum þjónusta, iðnaður og fiskeldi. Lítil aukning verður hjá heimilum og í landbúnaði, en notkun heimila á jarðvarmanum hefur verið í kringum 50 prósent af heildarnotkun.
Gert er ráð fyrir að hlutfall heimilisnotkunar af heildarnotkun muni minnka í samhengi við vöxt í fiskeldi og þjónustu þar sem áætlað er að mesta notkunin verði – og einkum í aukinni þjónustu. Báðar spárnar gera ráð fyrir um eða yfir þreföldun í jarðvarmanotkun í fiskeldi. Mest vegna uppbyggingar atvinnugreinarinnar á Suðurlandi og Reykjanesi.
Orkuskipti almennt skynsamleg
Silja Björk Axelsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, kynnti orkuskiptaspá Íslands. Hún sagði að jarðefnaeldsneyti væri stærsti áhrifaþáttur samfélagslosunar Íslands, sem er flokkur í losunarbókhaldinu sem heyrir beint undir ábyrgð stjórnvalda.
Stjórnvöld hafi sett sér háleit markmið í þeim málum og því sé mikilvægt að átta sig á stöðunni í dag og líklegri þróun næstu ára. Bæði út frá núverandi aðgerðum og þeim aðgerðum sem gætu orðið að veruleika.
Hún sagði að óháð loftslagsáhrifum væru orkuskipti líka almennt skynsamleg. Með því að nota hreina íslenska orkugjafa í stað innfluttra getum við aukið orkuöryggi Íslands og stuðlað að gjaldeyrissparnaði. Orkuskipti á landi gengju almennt vel, þótt þróunin hafi verið aðeins hægari en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Silja sagði að orkuskipti í flugi og á hafi væru lítið sem ekkert hafin en þar væri aðallega bætt orkunýtni sem hefði skilað árangri.
Með auknum orkuskiptum skapist eðlilega umræða um aukna raforkuþörf. Spáin gerir ráð fyrir hóflegri raforkuþörf vegna rafvæðingar, en geti orðið töluverð ef rafeldsneyti verður framleitt hér innanlands. Orkuskipti hafi þegar skilað árangri með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Orkuskipti fólksbíla ganga vel
Næst vék Silja talinu að helstu orkunýtingaflokkum sem skipta máli varðandi orkuskiptin. Varðandi vegasamgöngur sagði hún að hvort sem litið væri til grunnspár eða háspár, væri ljóst að notkun á jarðefnaeldsneyti myndi fara mjög minnkandi. Orkuskipti fólksbíla gengi almennt vel, en yfir 50% nýskráninga væru rafbílar hjá heimilum og fyrirtækjum en aðeins um 10% hjá ökutækjaleigum – sem standa fyrir um 40% af nýskráðum fólksbílum.
Þyngri ökutæki væru komin styttra á leið en möguleikum í nýorkutækni fjölgaði hratt og því mætti gera ráð fyrir miklum framförum á þessu sviði á næstu árum. Í háspá sé gert ráð fyrir öflugum aðgerðum og aðeins verði hægt að nýskrá hreinorkubifreiðar frá árinu 2028, í flokki fólks og sendibíla, og frá 2035 fyrir stærri bifreiðar. Auk þess geri spáin ráð fyrir auknum kröfum um íblöndun lífeldsneytis og almennt hraðari þróun orkuskipta.
Í orkuskiptaflokknum fiskiskip eru orkuskipti ekki hafin. Þó sést í rauntölum að notkun á jarðefnaeldsneyti hefur dregist saman þrátt fyrir aukið aflaverðmæti. Þá þróun má rekja til þess að skipum hefur fækkað og þau stækkað sem hefur leitt til olíusparnaðar í greininni. Í grunnspá er ekki gert ráð fyrir notkun á nýjum orkugjöfum á næstu árum í fiskiskipaflotanum, en á seinni hlutanum megi gera ráð fyrir litlu magni endurnýjanlegra orkugjafa. Í háspá er hins vegar gert ráð fyrir að tíu prósent íblöndun lífeldsneytis verði komið árið 2030 og önnur orkuskipti verði hraðari en í grunnspá.
Hægt að fasa út fyrir 2050
Silja sagði að orkunotkun í millilandaflugi færi að mestu eftir fjölda ferðamanna, hvort sem litið væri til skiptifarþega eða ferðamanna sem væru að heimsækja Ísland. Forsendur um orkuskipti í millilandaflugi gera ráð fyrir að innleiðing sjálfbærs þotueldsneytis fylgi evrópskum viðmiðum, bæði í grunn- og háspá. Spárnar gera ráð fyrir að vöxtur í notkun á rafeldsneyti og lífeldneyti verði nokkur í þessum geira upp úr árinu 2030.
Í máli Silju kom fram að töluverð aukning hefur verið á undanförnum árum í sölu á jarðefnaeldsneyti til millilandasiglinga, sem skýrist af fjölgun á komum skemmtiferðaskipa til landsins. Með vaxandi orkuskiptum í landinu verði óvissa um hvort skemmtiferða- og flutningaskip muni velja að taka orkugjafa í íslenskum höfnum eða annars staðar.
Í grunnspá er áætlað að fyrstu tíu prósent nýrra orkugjafa í þessum flokki verði lífeldsneyti, og innleiðingin hefjist í kringum 2030, en í háspá er gert ráð fyrir að orkuskiptin gangi hraðar eftir að innleiðingin er hafin. Silja segir að þegar horft sé á heildarnotkun á jarðefnaeldneyti allra samgangna sést að miðað við grunnspá verði hægt að fasa út jarðefnaeldsneyti í vegasamgöngum fyrir 2050. Í háspá verður útfösunin hraðari og gert ráð fyrir að nánast verði hægt að fasa jarðefnaeldsneyti alveg út úr innanlandsnotkun samgangna árið 2050. Svolítill hluti fiskiskipa mun þó nýta þetta eldsneyti áfram samkvæmt spánni.
Náum ekki markmiðum okkar
Loks fjallaði Silja um raforkuþörf þessara flokka vegna orkuskipta, þar sem mikill munur er á milli sviðsmyndanna. Orkuskipti sem fara fram með beinni notkun raforku eru innifalin í grunnspá. Þar er ekki gert ráð fyrir umfangsmikilli aukningu stórnotenda vegna orkuskipta, umfram það sem þegar er í rekstri eða þegar hefur verið staðfest með endanlegri fjárfestingarákvörðun. Undir það fellur framleiðsla á rafeldsneyti.
Í grunnspá er gert ráð fyrir að endurnýjanlegt eldsneyti verði innflutt að mestu leyti. En í háspá í gert ráð fyrir að hluti af rafeldsneytisverkefnum verði að veruleika hér innanlands og að framleiðsla verði umfram eftirspurn út tímabilið.
Varðandi raforkuþörf bílaflotans vegna orkuskipta, segir Silja að áætlað sé að hún verði um hálf TWh árið 2030 og allt að 2,5 TWh við full orkuskipti í vegasamgöngum. Til samanburðar þá er heildar raforkunotkun á Íslandi í dag um 20 TWh.
Töluvert meiri raforku þarf til ef forsendur háspár um eftirspurn eftir rafeldsneyti ganga eftir og ef rafeldneyti verður framleitt hér innanlands. Segir Silja að ljóst sé að grunnspá skili ekki Íslandi til skemmri tíma, nógu nálægt markmiðum okkar og skuldbindingum – og því mikilvægt að fylgjast vel með og skoða hvort þörf sé á frekari aðgerðum.
Landeldi verður stórnotandi
Arngunnur Einarsdóttir, sérfræðingur hjá Landsneti, kynnti raforkuspá. Hún fór fyrst yfir þróun á raforkumarkaði. Tiltók sérstaklega að sú breyting væri að verða með landeldi að greinin væri að þróast frá því að vera almennur notandi raforku yfir í að verða stórnotandi. Þá nefndi hún að vaxtartækifæri væru hjá gagnaverum.
Óvissa væri í alþjóðaviðskiptaumhverfi sem hafi áhrif á stórnotendur og framboð raforku væri enn í hægum vexti, hægari en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Ástæður væru meðal annars kærumál varðandi virkjunarkosti og óvissa með vindorku.
Síðan fór Arngunnur yfir mögulega virkjunarkosti næstu tíu árin og framboð á raforku í kjölfar þeirra.
Virkjunarkostir metnir
Þeir virkjunarkostir sem liggja til grundvallar, byggja á samtölum við virkjunaraðila, hafa hlotið meðferð hjá rammaáætlun og eru samþykktir af Alþingi. Sumsé virkjunarkostir úr fjórða áfanga rammaáætlunar og fyrr.
Sagði Arngunnur að almenn raforkunotkun skiptist í tvennt. Almenn notkun og svo stórnotendur. Undir almenna notendur flokkist heimili og smærri fyrirtæki, eða öll þau fyrirtæki sem eru ekki stórnotendur á raforku.
Samkvæmt grunnspá um almenna notkun er gert ráð fyrir hægari vexti í raforkunotkun miðað við undanfarnar spár, meðal annars vegna yfirfærslu á landeldinu í flokk stórnotenda og svo ganga orkuskiptin líka hægar sem skiptir líka máli. Loks hefur það áhrif að vegna jarðhitaáætlunarinnar „Jarðhitinn jafnar leikinn“, mun raforkunotkun færast yfir í jarðvarmanotkunarflokkinn.
Flokkurinn orkuskipti innanlands er sá flokkur sem mun stækka langmest samkvæmt báðum sviðsmyndum, en þar telur rafbílavæðingin langmest.
Í flokki stórnotenda verður mikill munur á samsetningu stórnotenda við upphaf og lok spátíma. Hlutfall álvera í raforkunotkun mun til dæmis verða töluvert minna með tímanum en í dag eru þau með langstærstan hluta raforkunnar. Í grunnspá fyrir þennan flokk er gert ráð fyrir vaxtarmöguleikum „annarra stórnotenda“ og gagnavera, en í háspá kemur rafeldsneytisframleiðsla inn með mikla möguleika sem kemur þó seinna inn en í fyrri spám, eða í kringum 2030.
Óvissa um framboð og eftirspurn
Arngunnur sagði að óvíst væri hvort framboð orku geti mætt eftirspurn til ársins 2030. Miðað við grunnspá verður tæpt á árinu 2029 að framboð nái að mæta eftirspurn, en gert sé ráð fyrir að það takist síðan frá 2030 til 2050. Ástæða sé þó að hafa þann fyrirvara á því að ekki er tekið tillit til slæmu áranna í vatnsbúskap virkjanna. Ekki heldur er tekið tillit til takmarkana í flutningskerfinu.
En samkvæmt háspá nær framboð ekki að mæta orkueftirspurn á tímabili frá 2027 til 2029 – og ekki heldur frá 2031 og út spátímann. Þar munar mjög miklu. Segir Arngunnur ljóst að ekki sé mikið svigrúm fyrir aukningu í notkun, sérstaklega ekki miðað við háspá.
Minni raforkunotkun
Samantekið segir hún að til skemmri tíma geri spáin ráð fyrir minni raforkunotkun en fyrri spá, bæði fyrir stórnotkun og almenna notkun. Við lok spátímabilsins hefur raforkunotkun þó aukist um fjórðung fyrir grunnspá en tvöfaldast í háspá.
Tækniþróunin sé hröð og umhverfið stöðugt að breytast. Með þessum breytingum fylgi áskoranir sem við getum litið á sem tækifæri. En til þess að við getum gert það þá þurfum við að hafa skýra stefnu frá stjórnvöldum um hvernig eigi að gera það.
Orkuskiptin séu farin af stað og þau eru farin að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum vegna losunar á jarðefnaeldsneyti, en þó ekki það hratt að markmið stjórnvalda náist fyrir 2030 án frekari aðgerða. Losun í flokki millilandasamgangna mun aukast áður en áhrif orkuskiptanna ná fram samdrætti.
Orkuskipti innanlands eru að langstærstum hluta fólgin í rafbílavæðingu, en sú aukning felur í sér hóflega aukningu á raforkunotkun. Ef við myndum fylgja sviðsmynd í háspá um framleiðslu á rafeldsneyti innanlands, þá þyrfti töluvert meiri raforku til.
Raforkuskortur ekki útilokaður
Jóhann Páll tók aftur til máls að afloknum erindum um spárnar og sagði að greina þyrfti á milli þeirra og svo stefnu stjórnvalda. En miðað við þessar spár, sé ekki útilokað að það komi til raunverulegs raforkuskorts og því mikilvægt að stjórnvöld séu þegar búin að lögfesta forgang almennings og mikilvægra samfélagsinnviða við slíkar aðstæður.
Sagði hann fleiri virkjunarkosti á teikniborðinu en kæmu fram í spám. Tveir rammaáætlunarpakkar væru til meðferðar á Alþingi núna og ef gert sé ráð fyrir tveimur meðalstórum vindorkukostum að auki ætti það samanlagt að brúa það bil sem grunnspáin gerir ráð fyrir að verði í framboði og eftirspurn raforku í kringum árið 2029.
Þetta væru meðal annars Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun, Urriðafossvirkjun, Tröllárvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Bolaölduvirkjun.
Jóhann Páll sagði að stefna stjórnvalda væri að einfalda regluverk í kringum orkunýtingarkostina og stytta ferla svo hægt væri að hraða þeim verkefnum sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, frá hugmyndastigi yfir á framkvæmdastig.
Á viðburðinum í Hörpu opnaði Jóhann Páll formlega vefinn Orkuspá Íslands (orkuspaislands.is) þar sem hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um þetta verkefni.
