Vindurinn fái farveg
Enn ríkir óvissa um hlut vindorku í orkuframboði vegna lagaumhverfis og kærumála. Fyrirhugaðar breytingar á lögum um rammaáætlun gætu þó skerpt línurnar í þessum efnum en sem fyrr vakna spurningar um hverjir hagnist raunverulega á vindorkunni þegar fram í sækir.
Á Íslandi eru hugmyndir um í það minnsta fjörutíu vindorkuver víða um land, flestar þó á frumstigi. Einkafyrirtæki, bæði innlend og erlend, sýna mikinn áhuga en gagnrýni beinist að eignarhaldi, áhrifum á náttúru og skorti á lagaramma. Sveitarfélög fá lítið af tekjum þar sem orkumannvirki eru undanþegin fasteignaskatti. Hávær krafa hefur verið um heildarstefnumörkun, skýr viðmið um staðsetningu og gjaldtöku, og að arður af auðlindinni renni til þjóðarinnar.
Verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði sl. vor fram tillögur að tíu vindorkukostum í biðflokk. Orkumálaráðherra lagði til að einn þeirra færi í nýtingarflokk en í gildandi rammaáætlun eru sem stendur tveir virkjanakostir í þeim flokki, Búrfellslundur og Blöndulundur.
Skýrari lagarammi og verndarsjónarmið
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði í samtali við Útvarp Bændablaðið 8. janúar sl. að til standi að sett verði inn í raforkulög að stjórnvöld skuli móta raforkuöflunarstefnu og vinna samkvæmt henni. Sérstaklega verði horft til hennar við gerð rammaáætlunar og við flokkun virkjanakosta. Þetta gæti, þegar fram í sækir, eflt markvissa stýringu á uppbyggingu og eignarhaldi vindorkuvera. Í dag er aðeins í raforkulögum að stjórnvöldum beri að setja sér stefnu um uppbyggingu flutningskerfis en ekkert um framleiðsluna sjálfa.
Ráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 48/2011 um verndarog orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) til að fella vindorku formlega undir gildissvið laganna. Markmiðið er sagt vera að skapa skýran lagaramma um meðferð virkjunarhugmynda í vindorku og styrkja vernd svæða í verndarflokki. Áhersla sé lögð á að tryggja jafnvægi milli orkuöflunar og náttúruverndar. Frumvarpsdrögin eru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda til 19. janúar.
Neitunarvald sveitarfélaga
Frumvarpið kveður á um að virkjunarhugmyndir í vindorku sem hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða vindorkumannvirki sem ná 100 metra hæð, falli undir rammaáætlun. Sérstök grein, 10. gr. a., setur fram lykilsjónarmið við mat á virkjunarkostum: hvort svæði sé raskað, áhrif á friðlýst svæði, óbyggð víðerni og fuglalíf, auk áhrifa á raforkuöryggi og byggðaþróun. Lagt er til að virkjunarkostum verði forgangsraðað á röskuð svæði til að vernda hálendi og óröskuð víðerni.
Frumvarpið felur þannig í sér landfræðilegar takmarkanir: vindorkunýting verður óheimil á svæðum í A- og B-hluta náttúruminjaskrár, innan friðhelgunar menningarminja, á heimsminjaskrá UNESCO, Ramsarvotlendissvæðum og öllu miðhálendinu.
Þá á að efla skipulagsvald sveitarfélaga með þeim hætti að niðurstaða rammaáætlunar verði ekki bindandi við gerð skipulagsáætlana, þannig að sveitarfélög hafa endanlegt ákvörðunarvald um staðsetningu vindorkuvera. Sveitarfélögum verði veitt eiginlegt neitunarvald gagnvart vindorkuáformum, þ.e. með undanþágu frá þeirri almennu reglu að flokkun svæða sé bindandi gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Þessu er ætlað að tryggja staðbundna hagsmuni og samræmi við byggðastefnu.
Til að útskýra slíkt neitunarvald sveitarfélaga frekar sagði Jóhann Páll að rammaáætlun væri nú bindandi gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga og þau þurfi að skipuleggja svæði með tilliti til hennar. Þeim beri þannig að liðka fyrir orkuöflun ef Alþingi hefur ákveðið að setja tiltekið svæði í nýtingarflokk þótt þau hafi jafnframt ýmsa möguleika á að setja skilyrði. Nú sé hins vegar gert ráð fyrir að ákvörðun Alþingis um nýtingu vindorku á svæðum verði ekki bundin þeirri reglu. Sveitarfélögin geti því, nái frumvarpið fram að ganga í óbreyttri mynd, í raun hafnað vindorkukostum. Þannig verði til tvöföld fyrirstaða á vindorkuframkvæmdir og þurfi grænt ljós á tveimur stöðum; annars vegar frá Alþingi og hins vegar frá viðkomandi sveitarfélagi. Ráðherra sagði að með þessu sé lýðræðisleg ákvarðanataka um vindorkunotkun hámörkuð.
Til álita að rukka auðlindagjald
Í almennri umræðu hefur borið á spurningum um hverjir muni hagnast á vindorkunni og hvort hver sem er, sama hvort um ræðir innlenda eða erlenda aðila, geti byggt upp vindorkuver á Íslandi. Inntur eftir hvort lagarammi yrði settur um þetta sérstaklega svaraði ráðherra því til að viðkomandi aðili þyrfti að komast í gegnum rammaáætlunarferlið og fá öll tilskilin leyfi til að vindorkuver gæti risið.
„Segjum að landsvæðið sé í eigu ríkisins, t.d. þjóðlenda eða eitthvað slíkt, þá tekur ríkið auðvitað gjald fyrir afnot af því, en við viljum vissulega búa þannig um hnútana að arðurinn af þessu skili sér til ríkisins. Þess vegna er innviðaráðherra með á þingmálaskrá frumvarp sem felur í sér skattlagningu orkumannvirkja, þar á meðal vindorkumannvirkja, sem hingað til hafa verið undanþegin fasteignaskatti. Þarna kæmi þá fasteignaskatturinn til sveitarfélagsins. Í löndunum í kringum okkur er algengt að vindorkufyrirtæki setji upp m.a. samfélagssjóði til að styðja nærsamfélag á viðkomandi svæði. Auðvitað er alltaf hægt að setja ýmiss konar skilyrði þegar leyfi eru veitt og til lengri tíma litið hlýtur að koma til álita að rukka einhvers konar auðlindagjald. Fyrsta stóra vindorkuverið sem er að rísa er á vegum Landsvirkjunar, sem er í okkar eigu. En þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að taka á í löggjöf og regluverki. En það er ekki þannig í dag að vindurinn sé auðlind í eigu þjóðarinnar. Það er umræða sem mætti taka,“ sagði Jóhann Páll.
Í ársbyrjun 2024 birti starfshópur, skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra, skýrslu um skattlagningu orkuvinnslu, þar sem vindorka er sérstaklega tekin til skoðunar. Í skýrslunni er lögð áhersla á að vindorka verði þriðja stoðin í raforkuframleiðslu Íslands ásamt vatnsafli og jarðhita, til að ná markmiðum um orkuskipti og kolefnishlutleysi.
Starfshópurinn skoðaði möguleika á sérstökum skatti á vindorkuver, en taldi ekki tímabært að innleiða hann þar sem uppbygging væri á frumstigi. Þess í stað var mælt með almennum leiðum, svo sem afnámi undanþágu frá fasteignamati virkjana eða raforkuskatti sem næði til allra virkjana, þar á meðal vindorku. Markmiðið yrði að tryggja að nærsamfélög nytu sanngjarns ávinnings, m.a. með skiptingu tekna eftir raunverulegum áhrifum, svo sem sýnileika vindmyllna.
Í skýrslunni var einnig vísað til reynslu Norðmanna, þar sem auðlindarentuskattur á vindorku tryggi samfélaginu hlutdeild í umframávinningi. Slíkur skattur gæti komið til greina síðar, en það krefðist frekari undirbúnings.
Samtök orkusveitarfélaga hafa m.a. bent á að breyta ætti skattlagningu þannig að tekjurnar skili sér ekki eingöngu til sveitarfélaganna þar sem orkumannvirkin eru staðsett, heldur einnig til nágrannasveitarfélaga sem verði fyrir áhrifum.
Halla Hrund Logadóttir, f.v. orkumálastjóri og núverandi þingmaður, er ein allmargra sem lýst hafa áhyggjum af því að arður af vindorku renni til erlendra fjárfesta og skattaskjóla og að orkuframleiðsla muni hækka raforkuverð fyrir almenning. Þá hefur verið gagnrýnt að vindorkuver séu að mestu í einkaeigu, og ekki opinberra aðila, sem skapi ójafnvægi milli hagsmuna samfélagsins og fjárfesta.
Fyrsta stóra vindorkuver Íslands
Vaðölduver, fyrsta stóra vindorkuver landsins, í eigu Landsvirkjunar, er að rísa í Búrfellslundi við Vaðöldu í Rangárþingi ytra. Vindorkuverið mun samanstanda af 28 vindmyllum með heildar uppsett afl upp á 120 MW, sem markar tímamót í nýtingu vindorku á Íslandi.
Landsvirkjun gerði um mitt ár í fyrra samning við Ístak hf. um byggingu mannvirkja fyrir verkið að upphæð 6,8 milljarða króna. Framkvæmdir hófust í fyrravor og er áætlað að þeim ljúki sumarið 2027. Til stendur að helmingur vindmyllanna verði gangsettur í haust og vindorkuverið komið í fullan rekstur fyrir árslok 2027.
Hefðbundið ferli vindorkuverkefna í rammaáætlun hefur til þessa verið að framkvæmdaaðili leggur fram hugmynd og sendir inn beiðni til Orkustofnunar (nú Umhverfis- og orkustofnunar), sem skráir virkjunarkostinn. Málið fer síðan til verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem vinnur greiningar og flokkun í samráði við faghópa og setur tillögu í samráð. Að lokinni vinnu fer tillagan til ráðherra, sem leggur hana fyrir Alþingi. Alþingi tekur ákvörðun um flokkun í verndar-, nýtingar- eða biðflokk. Að því loknu fer verkefnið í hönd sveitarstjórna og fer í hefðbundið mats- og leyfisferli, þar sem umhverfismat og leyfisveitingar fara fram áður en framkvæmdir geta hafist.
Verkefnisstjórn 6. áfanga rammaáætlunar var skipuð í júní 2025, til fjögurra ára.
Tvær til fjórar tillögur árlega
Í umhverfismatsferli koma framkvæmdir yfirleitt tvisvar til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Fyrst, áður en eiginlegt umhverfismat byrjar, skilar framkvæmdaraðili inn matsáætlun sem Skipulagsstofnun afgreiðir með áliti um matsáætlun. Síðar skilar framkvæmdaraðili umhverfismatsskýrslu sem Skipulagsstofnun afgreiðir með áliti um umhverfismat framkvæmdar. Á milli þess sem álit um matsáætlun liggur fyrir og framkvæmdaraðili skilar inn umhverfismatsskýrslu er framkvæmd ekki á borði Skipulagsstofnunar þó svo umhverfismat standi yfir.
„Ef við horfum til vindorkuverkefna þar sem umhverfismat er hafið en ekki lokið, þ.e. matsáætlun hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar en álit um umhverfismat framkvæmdar liggur ekki fyrir, þá er um að ræða 16 verkefni en fjögur af þeim eru til meðferðar hjá Skipulagsstofnun í dag. Þar að auki er ein matsskyldufyrirspurn sem varðar vindmyllur til meðferðar hjá Skipulagsstofnun,“ segir Egill Þórarinsson, sviðsstjóri sviðs umhverfismats Skipulagsstofnunar.
Hann segir fjölda nýrra verkefna sem borist hefur á hverju ári hafa verið svipaðan síðan 2019, eða tvö til fjögur ný mál á ári.
„Skipulagsstofnun hefur afgreitt 19 mál sem tengjast vindorkuverum síðan árið 2020 en ekkert vindorkuver hefur þó lokið umhverfismati síðan Búrfellslundur lauk umhverfismati árið 2016,“ útskýrir Egill.
Níu til tíu hugmyndir í biðflokki
Sem fyrr segir hafa um eða yfir fjörutíu hugmyndir um vindorkuver komið fram á undanförnum árum og stór hluti þeirra hefur einhvern tímann verið sendur til verkefnisstjórnar í fyrri áföngum rammaáætlunar. Um er að ræða mjög misstór orkuver og misjafnlega auðvelt er að tengja þau við flutningskerfi.
Eignarhald vindorkuverkefnanna er bæði innlent og erlent, þar sem fyrirtækin Qair og Zephyr standa að stærstu kostunum, en m.a. HS Orka, EM Orka og Hrjónur ehf. koma að öðrum verkefnum.
Vindorkuver í biðflokki Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt til að tíu vindorkuverkefni verði í biðflokki uns frekari greiningar og gögn liggi fyrir. Ástæður eru m.a. óvissa um áhrif á fuglalíf, samfélagsleg áhrif og kostnað við tengingar.
Hnotasteinn á Melrakkasléttu er stærstivirkjunarkosturinn, áætlaður 220 MW með orkugetu um 771 GWh á ári. Hann er ofan byggðar í Öxarfirði, en tengikostnaður er mjög hár, á bilinu 10-14 milljarðar króna, sem dregur úr hagkvæmni.
Sólheimar í Laxárdal í Dölum, 209 MW og 732 GWh, á svæði sem er skilgreint sem mikilvæg farleið hafarna. Fuglalíf og verndaráhættur eru helstu áhyggjuefni, auk hás tengikostnaðar.
Hrútmúlavirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er metin 158 MW og 555 GWh í orkugetu. Hún er á manngerðu landi en sögð hafa veruleg sjónræn áhrif og neikvæð áhrif á ferðaþjónustu.
Alviðra í Borgarfirði, 98 MW og 343 GWh, er á svæði með verðmætt landslag og mælist með mest neikvæð samfélagsleg áhrif í könnunum.
Garpsdalur í Reykhólasveit, 88 MW og 308 GWh, er í jaðri Breiðafjarðar og hefur fengið jákvæðari umsagnir í nærsamfélagi en óvissa er um farleiðir hafarna. Umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa verkefnið í Garpsdal yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar.
Mosfellsheiði I og II, á Mosfellsheiði, hvor um sig 75 MW og 263 GWh. Báðir virkjunarkostir liggja nærri Þingvöllum og hafa mest neikvæð áhrif á ferðamennsku og útivist, auk sjónræns áreitis.
Hrútavirkjun í Hrútafirði, 73 MW og 255 GWh, er í sömu farleið hafarna og Sólheimar og líklegt að verndaráhætta ráði úrslitum.
Reykjanesgarður, 100 MW og 350 GWh, er nálægt núverandi virkjunum og hefur lægstan tengikostnað, en mat á samfélagsáhrifum er ólokið vegna eldvirkni.
Loks er Vindheimavirkjun í Hörgárdal, sem virkjunaraðili hefur lagt á hilluna.
Í það minnsta þrír tugir annarra vindorkuhugmynda eru jafnframt í farvatninu
Í skýrslu um tillögur verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar að flokkun tíu vindorkuverkefna, í maí 2025, er lagt til að allir kostirnir fari í biðflokk, þar sem frekari greiningar og gögn vanti áður en hægt sé að taka afstöðu til nýtingar eða verndar. Ástæður eru m.a. óvissa um áhrif á fuglalíf, samfélagsleg áhrif og kostnað við tengingar. Skýrslan undirstrikar jafnframt að vindorka hafi möguleika til að styrkja orkuöryggi, en kallar á skýra stefnu, frekari rannsóknir á fuglalífi og samráð við nærsamfélög áður en ákvörðun um nýtingu verður tekin. Verkefnisstjórnin á enn eftir að yfirfara meira en tuttugu vindorkukosti til viðbótar, sem undirstrikar umfang málsins og mikilvægi vandaðrar stefnumótunar.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði síðasta sumar til að fyrirhuguð vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi, einn af tíu virkjanakostunum sem verkefnisstjórnin lagði til að færi í biðflokk, yrði fremur sett í nýtingarflokk rammaáætlunar en biðflokk. Voru rökin fyrir því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist þannig ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti.
Ráðherra hefur ekki lagt málið fyrir þingið og því ekki komin niðurstaða þar um.
Vaxandi gagnrýni
Norski orkuráðgjafinn Sveinulf Vågene skrifaði í árslok 2023 grein í Heimildina þar sem hann fjallaði um reynslu Norðmanna af byggingu vindorkuvera. Þar í landi hefðu svæði sem jafnist á við 84 þúsund fótboltavelli verið lögð undir slíka starfsemi. Hann varar við mistökum sem gætu endurtekið sig annars staðar. Upphaflega hafi verið lofað hóflegum áhrifum, en möstrin orðið hærri og umfangið meira en kynnt var. Þetta hafi leitt til almennra mótmæla og stöðvunar leyfisveitinga árið 2019.
Bent er á að fjárfestingarlíkön vindorkufyrirtækja hafi tryggt gróða fyrir erlenda fjárfestingarsjóði í gegnum skattaskjól, á meðan skatttekjur í Noregi urðu litlar sem engar. Lögfræðingar og bankar hagnist einnig á flóknum yfirfærslum. Þrátt fyrir loforð um lægra raforkuverð hafi vindorkan hækkað kostnað vegna óstöðugleika í kerfinu, aukins umfangs dreifikerfis og tenginga við evrópska markaði, sem yfirfæri hátt raforkuverð til Noregs. Fyrirtæki hafi jafnvel flutt starfsemi úr landi vegna hás orkuverðs. Sveinulf telur að Noregur hefði getað tryggt sjálfbærari orku með endurbótum á vatnsaflsvirkjunum í stað vindorku.
Skjótfenginn gróði fyrir fjárfesta hefði ráðið för, á kostnað náttúru, samfélags og stöðugleika í orkukerfinu. Hann hvetur Íslendinga til að læra af þessari reynslu og forðast að endurtaka sömu mistök, með áherslu á sjálfbærar lausnir og gagnsæi í leyfisveitingum og eignarhaldi.
Innlendar gagnrýnisraddir hafa einnig verið nokkuð háværar og mjög á sömu lund. Sem dæmi má nefna að í opnu bréfi vorið 2025 hvöttu Anna Soffía Kristjánsdóttir, Jóna A. Imsland og Hákon Jóhannesson sveitarstjórnir til að endurskoða áform um vindorkuver. Þau leggja áherslu á að meta áhrif á náttúru, ferðaþjónustu og landbúnað, þar sem mengun, örplast og hávaðamengun geti haft óafturkræf áhrif. Spurt er hvort jöfnunarorka ætti frekar að nýtast beint í stað vindorku. Bréfið varar við kostnaði vegna innviða og flutningskerfa sem lendi á skattborgurum, auk lýðheilsuáhrifa og lækkunar fasteignaverðs. Höfundar krefjast skýrra reglna um förgun spaða og túrbína og minna á að skemmdir á vistkerfi séu ekki afturkræfar.
Jafnframt hefur verið bent á að vindorka sé víða að færast frá landi á haf út og að skoða þurfi þá möguleika alvarlega. Danir, Norðmenn og Bretar reisi nærfellt eingöngu vindorkuver á hafi.
Vindorka í Skandinavíu og Evrópu
Undanfarið hefur umræða um vindorku í Skandinavíu einkennst af vaxandi mótstöðu við vindorkuver á landi. Í Noregi jókst andstaða almennings vegna sjónrænna áhrifa og náttúruverndar, þrátt fyrir rök um hagkvæmni og samspil við vatnsafl. Í Svíþjóð stöðvuðu sveitarfélög 26 af 29 verkefnum með neitunarvaldi, sem aftur kynti undir kröfum um skýrari hvata og bótakerfi.
Danmörk glímdi við flöskuhálsa í flutningskerfi og langa leyfisferla; stjórnin svaraði með auknum bótum til nánasta umhverfis vindorkuvera og hraðari kærumeðferð. Hafvindur færðist í forgrunn, með nýjum útboðum í Danmörku og áformum í Eystrasaltinu, þótt leyfisóvissa og kostnaður haldi að mestu aftur af framgangi þeirra verkefna enn sem komið er.
Hvað vindorkumálin á meginlandi Evrópu varðar þá hraðar t.a.m. Þýskaland nú leyfisveitingum á grundvelli „yfirgnæfandi þjóðhagslegra hagsmuna“, sjöfalt meira en fyrir fimm árum. Í Frakklandi er gerð tilraun til að setja á tímabundna stöðvun vegna endurskoðunar (moratorium) á bæði vindog sólorkuverkefni. Bretar afléttu nýlega tímabundnu banni á ný vindorkuver og áætla að tvöfalda vindorku í héruðum fyrir árið 2030. Í Póllandi stendur til að rýmka regluverk um vindorkuver, en Spánn og Frakkland hyggjast herða vernd vegna landslagsáhrifa.
Þrátt fyrir lægri kostnað og mögulegt orkuöryggi halda leyfisáskoranir og staðbundin mótstaða því áfram að tefja uppbyggingu vindorkuvera í nágrannalöndum okkar. Fram undan eru aukin ríkisútboð, endurskoðun reglna og átök um jafnvægi milli orkuþarfar og náttúruverndar. Ríkin virðast jafnframt vera að flytja áherslu á vindorkuuppbyggingu á landi yfir í stórfelld hafvindaverkefni, með auknum útboðum og ríkisstuðningi, en framgangur er hægur vegna leyfisóvissu, kostnaðar og tæknilegra flöskuhálsa.
________________________________
Eignarhald vindorkuverkefna
Eignarhald vindorkuverkefna er bæði innlent og erlent, þar sem Qair og Zephyr standa að stærstu kostunum sem komnir eru í biðflokk rammaáætlunar, en m.a. HS Orka, EM Orka og Hrjónur ehf. koma að öðrum verkefnum.
Qair er alþjóðlegt orkufyrirtæki sem hefur m.a. lagt fram áform um vindorkuver að Hnotasteini á Melrakkasléttu og Sólheimum í Laxárdal í Dölum. Qair er með höfuðstöðvar í París og stofnað árið 2017. Það þróar, fjárfestir í, byggir upp og rekur verkefni í vind- og sólarorku, vatnsorku, auk framleiðslu á vetni, flothafsvindorku, rafhlöðugeymslum og úrgangsorku. Með yfir 1,7 GW í rekstri eða smíði og starfsfólk í kringum 780 manns, teygir starfsemi Qair sig yfir Evrópu, Suður-Ameríku, Afríku og Suðaustur-Asíu.
Zephyr er m.a. með tvö verkefni á Mosfellsheiði, Mosfellsheiði I og Mosfellsheiði II, en stendur einnig að Hrútavirkjun í Hrútafirði og verkefnum á Austurlandi. Zephyr hefur aðsetur í Noregi og starfsemi á Íslandi sem Zephyr Iceland; samstarfsverkefni milli Zephyr og íslenska fjárfestingarfyrirtækisins Hreyfiafls. Helstu eigendur norska hluta Zephyr Renewable Energy (Zephyr AS) eru einkafjárfestar og stofnanir. Zephyr þróar, byggir og rekur vind- og sólarorkuver í Þýskalandi, Svíþjóð, Noregi og á Íslandi. Á LinkedIn-síðu segir að fyrirtækið hafi yfir 700 MW vindorku í rekstri og 550 MW í byggingu í Noregi, auk þróunarverkefna sem nemi yfir 3.000 MW í landbundinni vindorku og 3.300 MW í flothafsvindorku, ásamt sólarorkuverkefnum.
Wpd áformar m.a. Hrútmúlavirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Wpd er alþjóðlegt vind- og sólarorkufyrirtæki sem nýlega stofnaði útibú á Íslandi undir nafninu wpd Ísland ehf. Þjónustan felur í sér þróun, fjármögnun, byggingu og rekstur landbundinna vind- og sólarorkuverkefna á Íslandi. Félagið er hluti af wpd Group, sem hefur þriggja áratuga reynslu í þróun vind- og sólarorkuvera á mörkuðum víða um Evrópu, Ameríku og Asíu.
Hrjónur stendur að vindorkuverkefninu Alviðru í Borgarfirði. Fyrirtækið er íslenskt einkahlutafélag með lögheimili á Hafþórsstöðum í Borgarnesi. Reksturinn felst aðallega í leigu á landi og landréttindum. Fyrirtækið hefur m.a. unnið að vindorkuverkefni á Grjóthálsi í Borgarfirði og nýlega lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna vindmyllugarðs – sem áætlað er að yrði reistur á jörðunum Hafþórsstöðum og Sigmundarstöðum – en slíkar hugmyndir hafa áður verið til umfjöllunar og endurskoðunar vegna umhverfisáhrifa.
Þannig eru Hrjónur ehf. bæði landeigandi og framkvæmdaraðili vindorkuáforma á Grjóthálsi.
EM Orka stendur að vindorkuverkefninu í Garpsdal í Reykhólasveit. Er það íslenskt orkufyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun vindorkuverkefna á Íslandi. Að baki því standa Empower, írsk-norrænt vindorkufyrirtæki, og Greenvolt, portúgalskt orkufyrirtæki með aðsetur á Íslandi.
HS Orka er m.a. með verkefnið Reykjanesgarð. Er það íslenskt einkahlutafélag með höfuðstöðvar á Reykjanesskaga, þar sem það rekur tvö jarðhitaver; Svartsengi og Reykjanes auk vatnsaflsvirkjunarinnar Brúar. HS Orka er nú í eigu Jarðvarma slhf. (14 íslenskir lífeyrissjóðir) og Ancala Partners LLP, bresks fjárfestingarsjóðs, sem saman mynda eigendahópinn með 50/50 eignarhlutfall hvor.
Taka ber fram að þetta er ekki tæmandi upptalning á þeim fyrirtækjum sem nú hafa í hyggju að reisa vindorkugarða á Íslandi.
Þess má og geta að nú eru til kynningar í Skipulagsgátt fram til 2. febrúar nk. áform wpd um að reisa um 533 MW vindorkuvirkjun innan tæplega 37 km² framkvæmdasvæðis á Brekknaheiði og Sauðaneshálsi í um 3,5 km fjarlægð frá Þórshöfn á Langanesi.
Gert er ráð fyrir að allt að 74 vindtúrbínur verði reistar í áföngum og verði hæð með spaða í efstu stöðu allt að 210 m og þvermál undirstöðu hverrar vindmyllu um 30 m.
Áætlað er að framkvæmdin muni taka um 5–7 ár með undirbúningsvinnu
