Fríverslunarsamningur EFTA við Mercosur
Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) skrifuðu 16. september síðastliðinn undir fríverslunarsamning við Mercosurtollabandalagið í Suður-Ameríku. Áætlað er að þingsályktunartillaga um fullgildingu samningsins fyrir Íslands hönd verði lögð fram á yfirstandandi þingi.
Að Mercosur standa Argentína, Brasilía, Úrúgvæ og Paragvæ. Aðildarríki EFTA eru Ísland, Liechentstein, Noregur og Sviss. Fríverslunarsamningur Evrópusambandsins við Mercosur hefur talsvert verið til umræðu, en hér er um að ræða sitthvorn samninginn.
Landbúnaður áfram varinn
Í samtali segir Sveinn K. Einarsson, deildarstjóri viðskiptasamninga hjá utanríkisráðuneytinu, að fríverslunarsamningurinn muni opna stórt og verðmætt markaðssvæði fyrir helstu útflutningsvörur Íslendinga, en aðildarríki Mercosur sé stór markaður sem sé varinn með tollum. Þegar samningurinn tekur gildi og verður kominn í fulla virkni fella Mercosur-ríkin niður tolla á vörur eins og sjávarafurðir, vélbúnað til matvælaframleiðslu, lyf, járnblendi, lifandi hestum, skyri, æðardúni, vörum úr sjávarþara, drykkjarvatni, drykkjarvörum og unnum matvælum sem framleidd eru á Íslandi, svo eitthvað sé nefnt. Sveinn segir að samningurinn muni ekki hafa í för með sér stórvægilegar breytingar á innflutningi á landbúnaðarvörum til Íslands, en við samningagerðina var þess gætt að verja áfram innlenda framleiðslu á landbúnaðarafurðum sem er viðkvæm fyrir erlendri samkeppni. Þá hefur Ísland ekki verið með tolla á landbúnaðarafurðum sem ekki eru framleiddar hér, eins og á korni og sojabaunum sem eru mikið til framleiddar í Suður-Ameríku.
Aðspurður segir Sveinn samninganefnd Íslands meta að engar greinar samfélagsins muni hljóta skarðan hlut af fríverslunarsamningnum. „Aðalhagsmunirnir eru þegar kemur að útflutningi og það er aðalástæðan fyrir því að við erum í þessum samningum yfir höfuð. Okkar samningsumboð tekur skýrt tillit til landbúnaðarstefnu Íslands, sem snýst að miklu leyti um að verja innlenda framleiðslu. Í samræmi við það veitum við engan markaðsaðgang fyrir vörur sem gætu grafið undan markmiðum íslenskrar landbúnaðarstefnu,“ segir Sveinn.
Áfram tollkvóti á nautakjöti
Alþingi þarf að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn áður en hann tekur gildi hvað Ísland varðar. Fríverslunarsamningurinn mun ekki koma til framkvæmda fyrr en þremur mánuðum eftir að minnst eitt ríki frá EFTA og eitt ríki frá Mercosur hefur fullgilt samninginn. Sveinn segir ómögulegt að spá fyrir hvenær hin ríkin fullgildi samninginn hjá sér, en hann telur sennilegt að samningurinn komist í gegnum Alþingi fyrir sumarfrí.
Með samningnum opnast betra aðgengi fyrir 97 prósent útflutningsvara beggja fríverslunarsamtakanna. Þó svo að EFTA-ríkin séu ekki stór, eru þau meðal 20 stærstu hagkerfa í heiminum þegar þau eru lögð saman og er hár kaupmáttur meðal íbúa þeirra. Því sjá Mercosur-ríkin hag sinn í að auka viðskiptin við EFTA. Íbúar Mercosur-ríkjanna eru samtals 267 milljónir á meðan íbúar EFTA eru um 15 milljónir. EFTA-ríkin fluttu vörur inn frá Mercosur fyrir samtals þrjá milljarða evra árið 2024, á meðan Mercosur ríkin versluðu vörur fyrir samtals 5,2 milljarða evra sama ár. Með fríverslunarsamningnum verður til fríverslunarsvæði með sameiginlega þjóðarframleiðslu upp á 3,7 billjónir evra.
Sveinn útskýrir að í gegnum Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) séu Íslendingar með 95 tonna tollkvóta á nautakjöti sem sé opinn fyrir öll aðildarríki WTO. Innan þess kvóta er innheimt uppboðsgjald sem innflytjendur borga. Þegar samningurinn tekur gildi muni þetta gjald verða helmingi lægra fyrir nautakjöt sem kemur frá Mercosurríkjunum, samanborið við kjöt sem kemur frá öðrum aðildarríkjum WTO. Magn á erlendu nautakjöti á íslenskum markaði muni því haldast óbreytt, en það verður hagstæðara fyrir innflytjendur að kaupa kjöt frá Mercosur-ríkjunum miðað við það sem áður var. Mercosur-ríkin eru stórir framleiðendur á nautakjöti.
Aðspurður segir Sveinn ekki hægt að flytja vörur til Íslands með krókaleiðum frá þeim svæðum sem ESB er með fríverslunarsamning við með því að flytja þær fyrst til landa í Evrópu. Ívilnanir Íslands gagnvart landbúnaðarvörum frá Evrópu eru háðar því að hægt sé að sýna fram á að þær eigi uppruna sinn þar.
Miðað við regluverk WTO
Í öllum nýrri fríverslunarsamningum EFTA er sérstakur kafli um viðskipti og sjálfbæra þróun. Sveinn segir að þar sé meðal annars tekið á umhverfismálum, jafnréttismálum og á vinnuréttarmálum og gera samningsaðilar skuldbindingar gagnvart hver öðrum um að þeir muni innleiða sínar alþjóðlegu skuldbindingar þegar kemur að þessum málaflokkum. Áðurnefndur kafli er undanskilinn svokölluðum deiluúrlausnarkafla samningsins, þannig að ekki er hægt að kalla til gerðardóm. Hins vegar er ákvæði um sérfræðinganefnd sem getur metið hlutlaust hvort um samningsbrot hafi verið að ræða og yrði niðurstaða þess mats birt opinberlega og þannig letja viðkomandi ríki til að ganga á bak orða sinna.
Í fríverslunarsamningnum er víða vitnað í WTO. Sveinn útskýrir að það sé vegna þess að þar hafi verið samið grunnregluverk alþjóðaviðskipta sem nánast öll ríki heims eru aðilar að. Grunngildin þar eru að ekki skuli mismuna milli viðskiptaríkja ásamt því sem WTO kemur fram með grunnviðmið þegar kemur að heilbrigði matvæla, tæknilegum viðskiptahindrunum, ríkisstyrkjum og öðru slíku. Með því að gera fríverslunarsamning sé leitast eftir að ganga enn þá lengra gagnvart viðkomandi samningsaðila en kveðið er á um í regluverki WTO.
Íslenskir útflytjendur í samkeppni við ESB
Í svari við fyrirspurn sem send var utanríkisráðuneytinu segir jafnframt: „EFTA-ríkin hafa gert 35 fríverslunarsamninga við 49 lönd. Íslenskir útflytjendur eru oft í beinni samkeppni við útflytjendur innan aðildarríkja ESB. Það er því mikilvægt að tryggja þessum útflytjendum jafnan samkeppnisgrundvöll og aðgang að mörkuðum þriðju ríkja. Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og Mercosur er sambærilegur öðrum fríverslunarsamningum sem Ísland er aðili að á grundvelli EFTA-samstarfsins. Þetta á jafnt við um efnisatriði samningsins og skuldbindingar, þ.e. um markaðsaðgang eða aðrar bindandi reglur á sviði alþjóðlegra viðskipta.
Samningurinn tryggir EFTA-ríkjunum sambærilegan aðgang að markaði Mercosur og samningur Mercosur við Evrópusambandið. Fríverslunarsamningar gilda bara á milli ríkjanna sjálfra sem eiga aðild að viðkomandi samningi en hafa ekki áhrif á skuldbindingar gagnvart þriðju ríkjum. EFTAríkin eiga því enga aðkomu að samningi Evrópusambandsins og Mercosur og munu því ekki með neinum hætti verða fyrir beinum áhrifum af honum.“
Vaxtarhormón ekki í sjálfbærum landbúnaði
Í svari utanríkisráðuneytisins segir enn fremur: „Auk þess að liðka fyrir vöruviðskiptum felur samningurinn í sér skuldbindingar sem lúta m.a. að opinberum innkaupum, vernd hugverkaréttinda og sjálfbærri þróun. Þá veitir hann íslenskum fyrirtækjum auknar heimildir til fjárfestinga í ríkjum Mercosur og bætir aðgang íslenskra þjónustuveitenda að þjónustumarkaði þeirra.
Í samningnum er sömuleiðis kveðið á um hollustuhætti, m.a. í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Má þar nefna reglur um innflutningseftirlit, heilbrigðisvottorð og úttekt afurðastöðva, kröfur um gagnsæi og upplýsingaskipti og ítarlegar verklagsreglur. Í samningnum eru jafnframt ákvæði um umhverfisog vinnurétt, viðskipti, landbúnað og sjálfbæra þróun. Til að mynda er fjallað um það að notkun vaxtarhormóna í kjötframleiðslu eigi ekki heima í sjálfbærum landbúnaði.“
