Hvatningarverðlaun skógræktar
Óskað hefur verið eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna í skógrækt sem verða veitt á alþjóðlegum degi skóga þann 21. mars næstkomandi. Að baki verðlaununum standa Skógræktarfélag Íslands, Land og skógur og Bændasamtök Íslands.
Verðlaunin voru fyrst veitt árið 2024 þegar þau féllu í skaut Sigurðar Arnarssonar. Hann hefur skrifað stórt safn pistla um trjátegundir, skóga og skógrækt sem birtir hafa verið meðal annars á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga, ásamt því sem hann hefur verið virkur í samfélagsumræðu um skógartengd málefni. Eins skrifaði Sigurður bók um belgjurtir.
Í fyrra hlaut Pálmar Guðmundsson verðlaunin, en hann hefur unnið mikið kynningarstarf á YouTuberás sinni, Skógurinn, að eigin frumkvæði og áhuga. Þar að auki hefur hann þurft að bregðast við miklum áskorunum sem formaður Skógræktarfélags Grindavíkur. Verðlaunin hafa verið veitt á heimaslóð verðlaunahafa, þannig að ekki er vitað hvar athöfnin mun fara fram í ár.
Í skriflegu svari segir Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands hvatningarverðlaun af þessu tagi vera mikilvæg þar sem skógrækt er tiltölulega ung grein hér á landi og ekki eins samofin innviðum, atvinnuháttum og stjórnmálum eins og í öðrum löndum. Víða um land vinni frumkvöðlar öflugt og óeigingjarnt starf í skógrækt sem eigi skilið að eftir því sé tekið.
Hún bendir á að hugmyndin að hvatningaverðlaununum hafi komið í ályktun frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Verðlaunagripirnir hafa verið handverksskálar unnar úr íslenskum skógarefniviði ásamt því sem verðlaunahafar fá trjáplöntur að gjöf. Ragnhildur hvetur alla til að skila inn tilnefningum í gegnum heimasíðu Skógræktarfélags Íslands (skog.is) fyrir 16. febrúar.
