Húðþrimlaveiki hefur skýr og auðgreinanleg einkenni.
Húðþrimlaveiki hefur skýr og auðgreinanleg einkenni.
Mynd / Bivatec
Á faglegum nótum 27. janúar 2026

Alvarlegir smitsjúkdómar herja á evrópsk kúabú

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Í áratugi hafa yfirvöld víða um heim barist með kúabændum við það að útrýma alvarlegum smitsjúkdómum og víða hefur náðst gríðarlega góður árangur.

Sjúkdómarnir halda þó áfram að vera veruleg áskorun fyrir kúabændur heimsins með áhrifum þeirra á heilbrigði dýra, framleiðni og arðsemi búanna. Undanfarin ár hefur tíðni nýrra tilfella af sjúkdómum, sem áður hafði verið útrýmt, aukist og hafa yfirvöld víða tekist á við tilfellin líkt og gert var áður, þ.e. oftar en ekki með niðurskurði. Þetta fellur þó misvel í bændur nútímans, sem þekkja ekki af eigin reynslu hvernig það var að vera með svona sjúkdóma í hjörðum sínum enda sú kynslóð sem hefur þá reynslu að mestu eða öllu horfin úr búgreininni. Fyrir vikið hafa margir bændur brugðist hart við og mótmælt, nú síðast í Frakklandi í desember þegar þarlendir bændur efndu til umfangsmikilla mótmæla m.a. vegna niðurskurðar á gripum vegna húðþrimlaveiki sem fannst í grip.

Smita ekki í fólk

Þeir sjúkdómar sem fréttir hafa borist af undanfarið eru vissulega misalvarlegir, en eiga það sameiginlegt að vera smitandi á milli gripa og valda verulegum búsifjum en eru ekki hættulegir fólki. Helstu sjúkdómarnir, sem skotið hafa upp kollinum á ný undanfarin ár, eru ginog klaufaveiki, húðþrimlaveiki og blátunga og svo er komið nýtt afbrigði fuglaflensu í Bandaríkjunum sem virðist hafa aðlagast að nautgripum. Auðvitað eru til ýmsir aðrir smitandi nautgripasjúkdómar sem verða þó ekki ræddir hér, en hér verður aftur á móti gerð stuttleg grein fyrir framangreindum sjúkdómum enda hafa bændur á Íslandi sem betur fer ekki reynslu af þeim.

Gin- og klaufaveiki

Gin- og klaufaveiki (Foot and Mouth Disease, FMD) er veirusjúkdómur sem leggst á klaufdýr, þar á meðal nautgripi, svín, sauðfé og geitur. Gripir sem veikjast af þessum sjúkdómi eru yfirleitt með hita, slefa óvenjulega mikið og hafa fyrirferðarmiklar og sársaukafullar blöðrur í munni, á tungu og í kringum fætur, sem oft leiðir til heltis. Þá myndast einnig blöðrur og sár á spenaendum (sjá meðfylgjandi mynd), sem jafnhliða minna áti gripa vegna sársauka frá blöðrum í munni, hefur mikil áhrif á mjólkurframleiðsluna. Þó að sjúkdómurinn valdi því sjaldan að fullorðnir gripir drepist, þá leiðir hann til alvarlegs framleiðslutaps og þar með veldur hann miklu fjárhagstjóni auk þess sem kostnaður búa við að takast á við smit er mjög mikill. Vegna alls þessa og þó líklega fyrst og fremst hinna umfangsmiklu efnahagslegu áhrifa sjúkdómsins á búskap, hafa viðbrögðin undanfarið verið sú að ef upp koma tilfelli þá er brugðist hratt við, búið sett í einangrun og skorið niður.

Fyrstu tilfellin í áratugi

Gin- og klaufaveiki er landlægur sjúkdómur t.d. í Afríku en hefur verið nánast óséður í Evrópu um langa hríð. Síðasta ár komu þó upp átta tilvik, í Þýskalandi, Ungverjalandi og Slóvakíu. Bændur eru eðlilega uggandi yfir þessu enda getur vírusinn borist hratt á milli, bæði með snertingu gripa, búnaði, bifreiðum og fatnaði. Þá getur þessi vírus einnig borist stuttar vegalengdir með vindi, sem er áhyggjuefni. Yfirvöld þessara þriggja landa brugðust hratt við, settu upp takmarkanir á ferðir og skáru niður. Með því tókst að koma í veg fyrir frekari smit og tókst að útrýma vírusnum á ný. Þessi tilvik sýna þó skýrt að aðgerðaáætlun þarf að vera til staðar, til að takast á við sjúkdóm sem þennan. Slíkar aðgerðir leiða þó einnig oftar en ekki til banns við innflutningi afurða frá heilu löndunum þar sem e.t.v. bara eitt tilvik kom upp í, en það á sér líklega frekar rætur að rekja til viðskiptasjónarmiða frekar en raunverulegra smitvarna innflutningslandanna.

Þar sem gin- og klaufaveiki er landlæg, eins og víða í Afríku, eru hjarðirnar oftar en ekki bólusettar. Það er þó með þennan vírus, eins og marga slíka, að bóluefnin ná ekki alltaf að fyrirbyggja smit þar sem vírusar breytast og aðlagast nýjum aðstæðum. Það þarf því að takast á við smit með öðrum hætti einnig, svo sem einangrun smitaðra gripa og með því að verkjastilla gripina. Sé það gert rétt má draga verulega úr afurðaminnkun og áhrifum sjúkdómsins, sem gengur nokkuð hratt yfir, eða á 2–3 vikum. Eftir það ná gripirnir sér nokkuð vel, sé rétt staðið að málum.

Margir vita líklega ekki að gin- og klaufaveiki leggst einnig harkalega á spenaenda. Mynd / Snorri Sigurðsson.

Húðþrimlaveiki

Hinn bráðsmitandi sjúkdómur húðþrimlaveiki (Lumpy Skin Disease, LSD), er vírussjúkdómur sem hefur áhrif á bæði vatnabuffala og nautgripi, sjá meðfylgjandi mynd. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að gripirnir fá hita og vegna slappleika éta þeir lítið og því snarminnkar mjólkurframleiðslan. Helstu einkenni sjúkdómsins eru þó hnútar sem myndast í húðinni. Þeir valda kláða hjá gripunum og ef þeir bresta kemur oft upp sýking í þeim sem getur verið erfitt að ráða við. Gripir drepast í raun sjaldan af þessum sjúkdómi en sýkingar, vegna opinna sára út frá framangreindum hnútum, geta hæglega dregið gripi til dauða.

Þessi sjúkdómur smitast aðallega með skordýrum eins og moskítóflugum, öðrum flugum og mítlum sem bera veiruna frá sýktum nautgripum til heilbrigðra nautgripa, og smitið nær yfirleitt hámarki á hlýindatíma. Hann getur einnig smitast með beinni snertingu við sýkt svæði á grip, fóðri, menguðum búnaði og með fleiri leiðum en skordýrasmit er þó það sem er aðaláhyggjuefnið þegar kemur að útbreiðslu smitsins.

Fyrst á Sardinínu

Síðasta ár fór að bera á húðþrimlaveiki í suðurhluta Evrópu og kom fyrsta staðfesta tilfellið upp í Sardinínu á Ítalíu og talið hafa komið með skordýrum frá norðurhluta Afríku, en sjúkdóminn má finna í dag í nánast allri Afríku. Frá Sardinínu barst smitið áfram til meginlandsins og kom m.a. upp í Frakklandi eins og áður segir, og einnig á Spáni. Þar sem þessi sjúkdómur kemur upp í Evrópu eru viðbrögð yfirvalda að skera niður, óháð magni útbreiðslunnar. Einn gripur er nóg til að skera niður heila hjörð, en það var einmitt ástæða uppþotsins í Frakklandi þar sem bændum þóttu frönsk yfirvöld heldur öfgafull í viðbrögðum sínum. Þess má þó geta að í landinu hafa komið upp meira en 100 tilfelli frá miðju síðasta ári svo enn hefur ekki tekist að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins til fulls.

Líkt og með gin- og klaufaveiki er hægt að bólusetja gegn þessum sjúkdómi og gengur sú bólusetning alla jafna betur en fyrir gin- og klaufaveiki þar sem bóluefnið fyrir LSD nær betur að koma í veg fyrir ný smit. Slík bólusetning er einmitt gerð að kröfu nú í ýmsum löndum og/eða svæðum innan landa, þar sem smit hafa komið upp eða eru í nágrenninu.

Blátunga

Blátunga er vírussjúkdómur sem hefur raunar herjað á bú í Evrópu í mörg ár svo hann fellur ekki beint í sama flokk og framangreindir sjúkdómar. Hann hefur þó verið nokkuð staðbundinn í löndum eins og Belgíu og Hollandi en í fyrra, eða raunar undir lok ársins 2024, byrjaði nýtt afbrigði vírussins að dreifa sér hraðar og víðar en fyrri smit. Þannig barst veikin á síðasta ári víða um Evrópu, m.a. til StóraBretlands, Austurríkis, Póllands, Ítalíu, Grikklands og landanna á Balkanskaga svo dæmi séu tekin.

Sjúkdómurinn, sem berst á milli dýra (nautgripa, sauðfjár, geita og fleiri búfjártegunda) með flugnabiti mest yfir sumartímann, lýsir sér þannig að veikar skepnur fá hita, minnkaða átlyst vegna bólgu í munni og tungu og veldur búum miklum efnahagslegum skaða vegna tekjutaps. Nafn sjúkdómsins er dregið af einu af einkennum sjúkdómsins, en mikið veikar skepnur fá bláleita tungu vegna skemmda sem vírusinn veldur og þar með súrefnisskorti á afmörkuðum svæðum. Þetta á sérstaklega við um sauðfé enda geta nautgripir verið veikir án þess að sýna veruleg einkenni. Það getur því verið erfitt að greina sjúkdóminn tímanlega og því erfitt að stöðva útbreiðslu hans.

Í dag er staðan þannig að sjúkdómurinn er það útbreiddur í Evrópu að talið er að eina ráðið til að útrýma honum sé að bólusetja.

Eitt af einkennum blátungu-sjúkdómsins er einmitt bláleit tunga. Mynd / Farmers Journal.

Fuglaflensa í Bandaríkjunum

Nýjasta dæmið um smitsjúkdóm í nautgripum er svo fuglaflensa en afbrigði vírussins, sem veldur þeim sjúkdómi í fuglum, hefur nú greinst í nautgripahjörðum í Bandaríkjunum en fyrsta tilfellið greindist á síðasta ári og alls voru komin fleiri en 1.000 staðfest tilfelli fyrir árslok. Þó svo að líkurnar á því að sjúkdómurinn nái að berast þaðan og til Evrópu er áhættan vissulega til staðar. Smitaðir nautgripir eru annaðhvort einkennalausir eða með væg einkenni sem koma fram sem slappleiki, hiti, ofþornun og minnkuð mjólkurframleiðsla. Áhyggjur sérfræðinga af þessum sjúkdómi er aðallega hve vírusinn er fljótur að aðlaga sig nýjum hýslum og við það að fara úr fuglum og yfir í spendýr eins og nautgripi hafa margir áhyggjur af því að vírusinn breytist frekar og geti smitast frá nautgripum og yfir í fólk. Enn sem komið er, er þessi gerð vírussins þó staðbundin við Bandaríkin.

Breytt sviðsmynd

Yfirvöld og nautgripabændur í Evrópu standa nú frammi fyrir endurnýjuðum og flóknum áskorunum þegar kemur að dýraheilbrigði, þar sem nokkrir smitsjúkdómar í nautgripum hafa komið upp aftur eða aukist um alla álfuna árið 2025. Útbreiðsla ginog klaufaveiki, húðþrimlaveiki og blátungu síðasta ár undirstrikar skýrt hve viðkvæmur þessi geiri er gagnvart kraftmiklum smitsjúkdómum, sem hefur svo aftur bein áhrif á dýravelferð, afkomu bænda og alþjóðaviðskipti.

Þó svo að hver sjúkdómur sé mismunandi hvað varðar dreifingu, og hvernig er tekið á því þegar veikindi koma upp, þá geta þessi tilfelli frá árinu 2025 kennt okkur að breytt umhverfi, svo sem loftslagsaðstæður, knýja á um að bændur og yfirvöld geri gangskör í því að bregðast hratt við mögulegum tilvikum. Snögg viðbrögð, smitvarnir, bólusetningar, svæðisbundnar lokanir og mögulega niðurskurður í stöku tilvikum, er eitthvað sem allar þjóðir þurfa að vera tilbúnar í. Enn sem komið er hefur Ísland sloppið við þessi ósköp, en það breytir því ekki að mikilvægt er fyrir bændur að þekkja einkenni þessara megin nautgripasjúkdóma þannig að ef svo óheppilega vill til að smit berist hingað, þá sé hægt að hindra frekara smit hratt og örugglega.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...