Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Höfundur: Guðmundur Sigurðsson, skógarbóndi og stjórnarmaður í búgreinadeild skógarbænda innan Bændasamtaka Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí 2021 var samþykkt að skógarbændur gerðust félagar í Bændasamtökum Íslands (BÍ).

Guðmundur Sigurðsson.

Sú sameining varð síðan að veruleika á búgreinaþingi í mars 2022. Stofnuð var búgreinadeild skógarbænda innan Bændasamtakanna, skammstafað Skóg BÍ, sem tók þá við því starfi sem áður tilheyrði LSE. LSE er enn til en ekki með neina starfsemi en er eigandi að 51% af Kolefnisbrúnni á móti BÍ sem á 49%. Aðalfundur Skóg BÍ er búgreinaþing skógarbænda sem haldið er í febrúar/mars ár hvert á sama tíma og aðrar deildir innan Bændasamtakanna halda sín búgreinaþing. Búgreinaþingið er fulltrúaþing en opið öllum félögum Skóg BÍ.

Til að gerast félagi að BÍ og þar með Skóg BÍ þarf viðkomandi að ganga í BÍ og greiða þar árgjald. Árgjaldið er veltutengt og greiða félagar með 0-1,9 milljón kr. veltu 15 þúsund kr. í árgjald. Hver og einn þarf að sækja um aðild að BÍ í gegnum Bændatorgið á heimasíðu BÍ, bondi.is, og skógarbændur þurfa að merkja við skógrækt og eru þá sjálfkrafa félagar í Skóg- BÍ. Viðkomandi þarf ekki að vera félagsmaður í Félagi skógarbænda þó það sé vissulega æskilegt.

Fulla aðild að BÍ geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni eða vegna eigin nota. Aðild samkvæmt þessum staðli veitir full réttindi fyrir tvo einstaklinga. Bændasamtökin eru félagasamtök bænda og þar með skógarbænda og fara með hagsmunamál þeirra sem annarra bænda. Bændasamtökin hafa á að skipa lögfræðingi, hagfræðingi umhverfisfræðingi ásamt ýmsum sérfræðingum sem tilbúnir eru til starfa fyrir skógarbændur, t.d. að markaðsmálum. Hlynur Gauti Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri LSE, er starfsmaður BÍ og er hann ávallt tilbúinn að starfa með skógarbændum. Bændasamtökin gefa út Bændablaðið, þar geta skógarbændur komið á framfæri fréttum af starfinu og kynnt sjónarmið sín í landbúnaðarpólitíkinni eða öðru því sem þeir vilja koma á framfæri. Félagsmenn í BÍ fá 30% afslátt af vissum forritum BÍ. Þeir hafa rétt til að leigja orlofsíbúð á höfuðborgarsvæðinu, Þeir geta sótt um stuðning í starfsmenntasjóð. Sjá frekar á bondi.is.

Verkefni á sviði loftslagsmála verða sífellt fyrirferðarmeiri í starfi Bændasamtakanna. Gerðar eru miklar kröfur til landbúnaðar varðandi samdrátt í losun en ekki síður kolefnisbindingu. Frumkvæði skógarbænda að stofnun Kolefnisbrúarinnar hefur reynst mikilvægur þáttur í að skapa ramma um verkefni sem snúa að kolefnisbindingu. Á þessu sviði eru hlutirnir að gerast hratt og án efa munu verkefni Kolefnisbrúarinnar skapa mikil tækifæri til skógræktar um allt land. Á Búnaðarþingi 2020 var samþykkt Umhverfisstefna landbúnaðarins 2020-2030. Eitt af megináhersluatriðum í stefnunni er aukin áhersla á skógrækt í tengslum við loftslagsaðgerðir.

Enda er leiðarljós stefnunnar loftslagsmál, sjálfbærni og vistheimt. Bændasamtökin leggja áherslu á það í sínu starfi að skógrækt skapar, nú þegar, mikil verðmæti í viðarafurðum. Á þessu sviði eru mörg ónýtt tækifæri í að skapa verðmæti og störf víða um land. Þá má ekki gleyma því að skógrækt og skjólbeltaræktun getur skapað betri ræktunarskilyrði sem aðrar búgreinar, einkum kornrækt og grænmetisrækt, njóta góðs af.

Áform um eflingu kornræktar og útiræktunar á grænmeti þurfa að byggja á því að meira verði gert í því að nýta skjólbelti og skógrækt til að bæta ræktunarskilyrði.

Í samkomulagi sem undirritað var 4. janúar 2022 af atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, Bændasamtökunum og búgreinadeild skógarbænda innan BÍ um verkefni vegna skógarafurða samkvæmt 12. grein rammasamnings frá 19.2.2016 með síðari breytingum og búnaðarlaga nr. 70/1998 mun BÍ leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Standa vörð um og efla íslenska nytjaskógrækt, skjólbeltarækt og stuðla að fræðslu og kynningu á þeim tækifærum sem felast í skógrækt.
  • Koma á stöðugu framboði af innlendum skógarafurðum, þar á meðal kolefnisbindingu í skógum, hvetja til aukinnar notkunar á efni úr íslenskum viði og ýta undir þróun úrvinnsluiðnaðar.
  • Aðilar að samkomulaginu eru sammála um að búgreinadeild skógarbænda innan BÍ annist framkvæmd þess fyrir hönd samtakanna. Fulltrúi deildarinnar undirritar samkomulagið í ljósi þess.

Auk þess segir í samkomulaginu að hlutverk BÍ sé að nýta framlagið til að standa straum af kostnaði við ýmis verkefni fyrir skógarbændur, t.d kynningu á tækifærum sem felast í skógrækt, vinna í samstarfi við Skógræktina og skógarbændur um nákvæma viðarmagnsúttekt í hverjum landshluta. Leggja grunn að þróun, framleiðslu og söluferli fjölbreyttra skógarafurða og efla menntun, hönnun, framleiðsluferli og markaðssetningu.Safna upplýsingum á einn stað um nýtanlegt magn viðar sem liggur fyrir og hvað hægt er að nálgast. Vinna að kolefnisjöfnuði íslensks landbúnaðar með öðrum búgreinum

Hlutverk ráðuneytisins er að greiða til BÍ umsamdar fjárhæðir eins og þær eru tilgreindar í rammasamningi. Samkomulagið gildir til ársins 2026.

Af þessu má sjá að BÍ hefur viðamiklu hlutverki að gegna hvað varðar að efla störf og stöðu skógarbænda. Sú vinna verður unnin í samstarfi og samráði við skógarbændur. Í dag eru skógarbændur fáliðaðir í BÍ miðað við þann fjölda sem skráður er í LSE, úr þessu þarf að bæta til að rödd skógarbænda verði öflugri innan heildarsamtakanna.

Eftir því sem fleiri skógarbændur verða félagsmenn í BÍ og um leið í búgreinadeild skógarbænda verða skógarbændur með sterkari samningsstöðu gagnvart fjárveitingarvaldinu og eins verður allt þeirra félagsstarf öflugra sem leiðir til fjölbreyttara og árangursríkara starfs.

Hægt er að hafa samband við þjónustufulltrúa BÍ í síma 563-0300 til þess að fá aðstoð við skráningu í Bændasamtökin. Netfang BÍ er bondi@bondi.is. Tilvonandi félagsmenn, sem hafa aðgang að Bændatorginu, geta skráð sig í samtökin þar með einföldum hætti. Þeir bændur sem stunda skógrækt og eru í BÍ gegnum aðra búgrein geta tengt sig við skógrækt með því að haka við skógrækt í viðkomandi reit í Bændatorginu.

Mikilvægt er fyrir skógarbændur að skrá sig í Bændasamtökin fyrir áramót til að eiga rétt á að velja fulltrúa til setu á búgreinaþingi deildarinnar sem haldið verður í mars.

Hver er ávinningur minn af því að vera í Bændasamtökunum?

Bændasamtökin vinna að hagsmunum allra bænda og eru málsvari stéttarinnar

  • Þú ert þátttakandi í samtökum bænda og getur haft áhrif á félagsstarfið
  • Þín aðild eflir kynningar- og ímyndarmál landbúnaðarins
  • Þú nýtur ráðgjafar um réttindi og málefni sem snerta bændur
  • BÍ koma fram fyrir þína hönd gagnvart ríkisvaldinu og gera samninga fyrir bændur
  • Þú nýtur 30% afsláttar af vissum forritum BÍ – sjá verðskrá RML
  • Þú getur leigt orlofsíbúð á höfuðborgarsvæðinu
  • Sem félagsmaður getur þú sótt um stuðning í starfsmenntasjóð
  • Félagsmenn eiga kost á að sækja um stuðning í Velferðarsjóð þegar áföll knýja dyra
  • Samtakamáttur heildarinnar er mikill og verður meiri eftir því sem fleiri taka þátt.

Af heimasíðu BÍ, bondi.is

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...