Hópur kúabænda af öllu landinu á leið í ráðuneytið.
Hópur kúabænda af öllu landinu á leið í ráðuneytið.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt var hugmyndum um breytingar á búvörulögum.

Fyrir hópnum fór Baldur Helgi Benjamínsson, bóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði. Hann stofnaði til rafræns undirskriftalista í gegnum island.is þar sem skorað var á Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra að falla frá breytingum á búvörulögum sem hefðu komið í veg fyrir undanþágu mjólkursamlaga til samráðs.

Baldur segist viljandi ekki hafa auglýst undirskriftalistann opinberlega því hann vildi að undirskriftirnar myndu afmarkast sem mest við kúabændur í mjólkurframleiðslu. Því hafi hann tekið til þess ráðs að senda út tölvupósta og vera í beinu sambandi við fólk og tókst að safna undirskriftum frá bændum á 65 prósent starfandi kúabúa. „Langflestir bændur sem eru yfir höfuð að velta starfsskilyrðum í nautgriparækt fyrir sér eru andvígir þessu frumvarpi,“ segir Baldur.

Hanna Katrín Friðriksson tekur við undirskriftum frá Baldri Helga Benjamínssyni.
Undirskriftir frá 65% kúabúa

„Þegar frumvarp til breytinga búvörulaga kom í samráðsgáttina í haust var fyrirséð að ríkisstjórnin myndi vilja rúlla til baka löggjöfinni frá 2024 sem snéri að auknum heimildum kjötafurðastöðva til sameininga og samstarfs. Það kom hins vegar mjög á óvart og olli vonbrigðum að það stæði til að fella út 71. grein búvörulaganna, sem heimilar samstarf og samvinnu í mjólkuriðnaði og við kúabændur höfum byggt allt okkar starf á síðan árið 2004.

Þess vegna ákvað ég að safna rafrænum undirskriftum hjá kúabændum og á endanum voru þetta 489 einstaklingar sem skrifuðu undir. Ég aflaði upplýsinga frá Auðhumlu um öll bú sem leggja inn mjólk og mér telst svo til að það hafi verið rekstraraðilar, einn eða fleiri, frá 295 búum. Það er rúmlega 65 prósent af öllum kúabúum á Íslandi, en þau eru í kringum 450. Í mínum huga er það alveg ljóst að það er afgerandi og skýr meirihluti fyrir því að hvetja ráðherrann til að draga umræddar breytingar til baka.“ 

Hópur hitti Hönnu

„Ég náði að mæla mér mót við ráðherrann síðastliðinn föstudag, en þá hitti svo á að það var fulltrúaráðsfundur Auðhumlu í Reykjavík. Ég fékk því með mér bændur víðs vegar að af landinu til að fara með mér á fund ráðherra þar sem henni voru afhentar þessar undirskriftir. Hún tók við þeim og sagði að það stæði til að gera á frumvarpinu talsverðar breytingar þegar það yrði lagt fyrir þingið eftir áramót, en fór ekki nákvæmlega út í í hverju þær fælust.

Eins og ég sagði við ráðherrann, erum við kúabændur mjög ósáttir við að lagaheimild sem er búin að vera í gildi í tuttugu ár og er undirstaða mjólkuriðnaðarins eins og hann er eigi allt í einu að vera felld úr gildi. Það verður að horfa til þess hvernig þessi lagaheimild kom til, en árið 2001 var birt skýrsla sem heitir Staða og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi og var samin af nefnd sem hafði breiða samfélagslega skírskotun. Ein af meginniðurstöðunum var að hraða ætti hagræðingu meðal afurðastöðva með fækkun vinnslustöðva og sérhæfingaraðgerðum. Þegar mjólkursamlögin voru flest voru þau sennilega sautján, en núna er Mjólkursamsalan með fimm vinnslustöðvar sem allar eru sérhæfðar, Arna með eina í Bolungarvík, BioBú með eina í Reykjavík og að auki einhverjar minni mjólkurstöðvar.“

Myndi veikja stöðu bænda

„Auðhumla á áttatíu prósent í Mjólkursamsölunni á móti Kaupfélagi Skagfirðinga. Þessi fyrirtæki eiga með sér samstarf og hafa stuðlað að sérhæfingu í tuttugu ár sem hefur gjörbreytt iðnaðinum. Vinnslukostnaður á mjólk hefur minnkað mikið, verð lækkað til neytenda og verðhækkanirnar sem hafa skilað sér til okkar bænda hafa að hluta til verið vegna aukins hagræðis í iðnaðinum. Síðan þessu var steypt saman fyrir tuttugu árum standa allir bændur jafnfætis gagnvart markaði þar sem allir borga það sama fyrir mjólkurflutninginn. Hér áður var verulega stór hluti af mjólkurverðinu sem fór í flutninginn í sumum sveitum.

Ef það á að afnema lagaákvæðið sem allt þetta hangir á er verið að búa til gríðarlega óvissu og uppnám. Það er algjörlega skýrt í okkar huga að það er ekki verið að huga að hagsmunum kúabænda með þessum breytingum. Það eina sem þetta gerir er að veikja stöðu bænda og mjólkuriðnaðarins,“ segir Baldur.

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...