Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Borgar Páll Bragason, fagstjóri, rekstrar- og umhverfissviðs RML.
Borgar Páll Bragason, fagstjóri, rekstrar- og umhverfissviðs RML.
Mynd / Aðsend
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur á undanförnum árum falist í því að mæla með nákvæmari og markvissari áburðarnotkun.

Þetta segir Borgar Páll Bragason, fagstjóri rekstrar- og umhverfissviðs RML, þegar hann er spurður út í nýjar aðgerðir stjórnvalda sem eiga að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með nákvæmari áburðarnotkun í landbúnaði.

Samráð við stjórnvöld

Stjórnvöld hafa auglýst styrki til bænda að heildarupphæð 80 milljónir króna sem hægt er að sækja um í Loftslags- og orkusjóð, til fjárfestinga í tækjakaupum sem eiga að stuðla að þessum samdrætti.

Borgar segir að stjórnvöld hafi haft samráð við RML og tekið mið af ýmsum verkefnum sem hafa meðal annars snúist um þetta markmið, að draga úr áburðarnotkun með nákvæmari og markvissari vinnubrögðum. Nefnir Borgar meðal annars árangur sem bændur í Loftslagsvænum landbúnaði hafa náð og það sem kemur fram í Loftslagsvísi landbúnaðarins sem dæmi í því sambandi. „Bændur í Loftslagsvænum landbúnaði hafa til dæmis verið að prófa sig áfram og nýta sér kosti nákvæmnisbúskapar með áburð að þessu leyti og náð góðum árangri. Það gildir bæði um tilbúinn áburð og búfjáráburðinn.“

Hagkvæmari búskapur

Að sögn Borgars er þetta í raun ekki ný nálgun. „Þessi þróun hefur verið í gangi í nokkurn tíma og í ýmsum nágrannalöndum okkar eru þessar aðferðir orðnar nokkuð þróaðar, hvort sem það er áburðardreifing eða annar nákvæmnisbúskapur. Allt saman leiðir þetta til hagkvæmari búskapar, betri nýtingar á aðföngum sem hefur þá jákvæðari loftslagsáhrif.“

Styrkirnir sem í boði eru eiga að standa straum af kaupum á gps-búnaði, fyrir bætta nákvæmni við áburðargjöf og tækni til niðurfellingar eða lagningar á áburði. Að auki verða styrkir í boði fyrir annan tækjabúnað sem getur bætt nýtingu áburðar.

Í auglýsingu stjórnvalda kemur fram að forgangur sé veittur þeim verkefnum sem eru talin skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í hlutfalli við upphæð styrks. Heimilt sé að veita styrki til kaupa á búnaði sem keyptur er í samstarfi aðila, svo sem í gegnum búnaðarfélag eða verktaka sem annast áburðardreifingu fyrir bændur.

Hámarks styrkhlutfall skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar án virðisauka. Styrkfjárhæð í hverri úthlutun skal nema að hámarki tíu milljónum króna fyrir hvern umsækjanda.

Fjárfestingar í grænum landbúnaði

Í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2025 til 2026 eru nokkur forgangsverkefni kynnt og þar á meðal fjárfestingar í grænum landbúnaði. Þar eru þrjár aðgerðir sérstaklega tilgreindar sem snúa að slíkum fjárfestingum.

Innleiðing á skyldu um skil á upplýsingum um áburðar- og kölkunarþörf. Í henni felst að safnað verður með kerfisbundnari hætti jarðvegssýnum úr ræktuðu landi og þær upplýsingar notaðar til að bæta nýtingu áburðarefna. Markmið aðgerðarinnar er að árið 2030 munu 100% býla skila upplýsingum um áburðar- og kölkunarþörf.

Þá er aðgerð sem felst í stuðningi við innleiðingu á tækni til nákvæmnisdreifingar áburðar og stuðningur við innleiðingu tækni til nákvæmnisdreifingar áburðar. Markmið hennar er að 50% býla nýti nákvæmnisdreifingar fyrir áburð á árinu 2030.

Loks er það stuðningur til bænda til aðgerða sem draga úr áburðarþörf. Markmið þeirrar aðgerðar er að 10% býla muni nýta sér stuðning til kölkunar eða ræktunar á niturbindandi tegundum.

Margir þegar fjárfest í búnaði

Borgar bendir á að sumir bændur hafi ekki treyst sér í fjárfestingarnar sem fylgja þessari nálgun – og ekki talið að þær myndu borga sig nógu hratt upp. „Það á sérstaklega við um þá sem þurfa að fara yfir frekar fáa hektara. Aðrir, sem eru með marga hektara undir, sjá í hendi sér að þetta geti borgað sig hratt upp. Núna eru því tækifæri fyrir bændur að sækja um þessa styrki.

Fyrir ákveðinn hóp bænda eiga þessir styrkir ekki sérstaklega við, margir eru þegar búnir að fjárfesta í slíkum búnaði og því komast þeir lítið lengra í þessari nálgun. En það þarf líka að endurnýja búnaðinn og svo fleytir tækninni alltaf fram. Það er þó enn stór hópur sem getur notið góðs af þessu úrræði stjórnvalda. Kannski er svona stuðningur einhverjum árum of seint, en það má alveg segja að það sé betra seint en aldrei í þessu.“

Hjálpa til við gerð umsókna

Borgar segir enn fremur að þeirra vinna varðandi þessa styrki muni snúast um ráðgjöf gagnvart bændum, eins og verið hefur, en ekki aðkoma að forgangsröðun stjórnvalda varðandi verkefnin. „Við munum áfram gera með bændum áburðar- og kölkunaráætlanir og hjálpa bændum að vinna umsóknir.

Hann bendir að lokum á að kölkunarhluti áburðaráætlana sé mjög mikilvægur, því það sé hægt að ná miklum árangri með því að standa rétt að honum. „Með því að kalka og halda sýrustigi í jarðveginum þannig að áburðurinn nýtist sem best. Í mörgum tilfellum er það enn þannig að sýrustigið er of lágt til að áburðurinn nýtist að fullu og jafnvel að stórum hluta ekki. Ýmsar ástæður eru fyrir því, þetta er til dæmis dýrt og þá einkum flutningurinn og svo er aðgengi að kalkdreifurum sums staðar ekki gott. Styrkir stjórnvalda gætu þó ef til vill nýst til fjárfestinga í kalkdreifurum, sem dreifa af nákvæmni.“

Skylt efni: Nákvæmnisbúskapur

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...

Hvað á klukkan að vera?
Fréttir 15. janúar 2026

Hvað á klukkan að vera?

Nú eru í gangi tveir undirskriftalistar á island.is þar sem annars vegar er bari...

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður
Fréttir 15. janúar 2026

Undanþáguheimildir til sameininga felldar niður

Drög að frumvarpi um breytingu á búvörulögum hafa verið birt á vef Alþingis. Í þ...

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló
Fréttir 15. janúar 2026

Tap af nautaeldi nam 19 krónum á hvert framleitt kíló

Enn er nokkurt rekstrartap af nautaeldi á Íslandi og samkvæmt rekstraryfirliti R...