Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundins fangelsis fyrir stórfellt brot á lögum um velferð dýra.
Í dómnum, sem kveðinn var upp 25. nóvember, kemur fram að bóndinn hafi vanrækt umönnunarskyldur sínar með þeim afleiðingum að 29 gripir voru dauðir þegar lögregla og dýralæknir komu á vettvang. Auk þess þurfti að aflífa 21 grip á staðnum og senda 28 gripi til neyðarslátrunar. Bóndinn mun hafa látið hjá líða að tryggja nautgripunum aðgang að fóðri og vatni. Eins mun hann hafa yfirgefið veika gripi í bjargarlausu ástandi og ekki tryggt að þeir fengju læknismeðferð eða væru aflífaðir.
Dómurinn hefur ekki verið birtur opinberlega og er búið að afmá allar persónugreinanlegar upplýsingar í þeim afritum sem send hafa verið á fjölmiðla. Er það gert í ljósi þess að opinber útgáfa dómsins yrði dómfellda afar þungbær. Brotin munu hafa átt sér stað á árunum 2022 til 2024 og segir í dómnum að ákærði hafi verið í miklu andlegu ójafnvægi sem tengdist krefjandi aðstæðum hjá honum.
Bóndinn hefur verið sviptur heimild til að hafa dýr í sinni umsjá í fimm ár. Ekki þótti réttlætanlegt að banna honum að halda dýr lengur þar sem um er að ræða takmörkun á atvinnuréttindum sem njóta verndar samkvæmt stjórnarskrá. Í dómnum segir að skýlaus játning ákærða hafi verið honum til málsbóta. Þar kemur jafnframt fram að dómþoli hafi leitast við að vinna úr sínum málum.
