Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum við sauðfjárbændur á síðasta ári vegna ullarinnleggs.
Nú í byrjun nýs árs hefur félagið greitt alls 90 milljónir króna til bænda, sem er um 42% af heildarskuldinni.
Að sögn Sigurðar Sævars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra félagsins, þurfti ekki að taka lán fyrir þessum greiðslum til bænda heldur hafi fjármagnið komið úr rekstrinum en sala á handprjónabandi til Þýskalands, Svíþjóðar og Noregs glæddist aðeins í lok síðasta árs.
Greiðslum skipt í hlutfalli við innlegg
Var þessum 90 milljónum skipt á milli allra ullarinnleggjenda í hlutfalli við innlegg fyrir bæði haust- og vetrarull. Í tilkynningu til bænda segir að gott sé að geta byrjað að greiða niður skuldirnar og áfram verði unnið að því að flýta þeim greiðslum. Tímabilið hafi verið erfitt og mikil vinna sé fram undan til að ná jafnvægi. Áfram verði greitt til bænda um leið og svigrúm til þess hafi skapast.
Sala til Bandaríkjanna og Finnlands sé enn óvenju lítil, en það eru mikilvægir markaðir fyrir vörur Ístex. Sala á handprjónabandi á Íslandi hefur verið sambærileg fyrri árum, en metsala á ullarsængum.
Samdráttur í sölu
Ástæða rekstrarvandans var aðallega samdráttur í sölu á vörum félagsins. Á upplýsingafundi um rekstrarvandann sem haldinn var með bændum 14. október útskýrði Gunnar Þórarinsson, stjórnarformaður félagsins, að hluti vandans væri einnig sá að á árunum 2023 og 2024 hafi verið ráðist í fjárfestingar í tækjabúnaði til að mæta þeirri sívaxandi eftirspurn sem var á þeim tíma.
Í máli Gunnars kom fram að vegna fjárhagsvandans hafi Ístex þurft að segja upp fjölda starfsfólks og draga úr framleiðslu til að minnka framleiðslukostnað.
