Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Höfundur: Þröstur Helgason

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyrr og það á alveg örugglega við litla en mikilsverða bók sem hefur að geyma þýðingar á tveimur sögum eftir þýska skáldjöfurinn Johann Wolfgang von Goethe, sem nefndar eru eftir þeim bókmenntaformum eða bókmenntagreinum sem þær eru skrifaðar inn í af höfundi sínum, Nóvella og Ævintýrið.

Ævintýrið var samið á miðjum tíunda áratug 18. aldar, við upphaf rómantísku stefnunnar. Það einkennist af mikilli notkun tákna, yfirnáttúrulegum fyrirbærum og kraumandi ímyndunarafli. Í evrópskri menningu var áherslan að færast frá skynsemishyggju og vísindalegri rökvísi til áherslu á innsæi, tilfinningar og hins dulda í manni og náttúru. Goethe leit á andagiftina sem leið til að leita svara við hinum ýmsu spurningum um jafnt heimspekileg sem vísindaleg efni. Ævintýrið fjallar meðal annars um þessa hugmynd, að það sé eitthvert dularfullt samband á milli manneskjunnar og náttúrunnar, andans og hins margræða og marglaga heims sem hann hrærist í. Sagan leiðir í ljós með einkar rómantískum hætti að raunveruleikinn sé flóknari og dýpri en það sem fyrir augu ber.

Nóvella kom út þremur áratugum síðar, eða 1828. Þá var Goethe orðinn aldrað meginskáld og hugmyndafræðingur rómantíkurinnar. Í evrópskri menningu mátti sjá vaxandi áherslu á innra líf, hlutverk mannsins, siðferðisleg gildi og persónulega ábyrgð. Í Nóvellu glímir Goethe við ýmsar spurningar sem tengjast til dæmis tímanum, tengslunum milli örlaga og frelsis og ábyrgðar einstaklingsins. Fantasían er minni hér en í Ævintýrinu en um leið er Nóvellan innhverfari, bæði að formi og efni.

Það er ákveðin hefð fyrir því að gefa þessar tvær sögur út saman þótt þrjátíu ár skilji þær að í ferli Goethes, en ástæðan er kannski einmitt sú að þær varpa ákaflega forvitnilegu ljósi á þróun í hugsun og skáldskap höfundarins og í menningarlífi Evrópu á fyrstu áratugum nítjándu aldar. Í því ljósi er alveg sérlega skemmtilegt að lesa þær saman og ekki spillir að þessari útgáfu fylgir vandaður eftirmáli eftir Jón Bjarna Atlason sem jafnframt þýddi Nóvellu. Sögurnar endurspegla þær víðtæku breytingar sem áttu sér stað í evrópskri hugsun frá myrkri og dularfullum draumum til sjálfsskoðunar og siðferðislegs þroska. Goethe nær að tengja þarna á milli, annars vegar trúar á hið dularfulla innra líf náttúru og manns og hins vegar síaukna áherslu á þörf mannsins fyrir merkingu og samfélagslega ábyrgð. Breytt samband mannsins við náttúruna þegar líður á nítjándu öldina er kannski meginþemað sem lesa má úr þessum tveimur sögum sem svo varð auðvitað eitt af aðalviðfangsefnum þeirra bókmennta og lista sem kenndar eru við módernisma.

Fyrir áhugafólk um bókmenntir og menningu nítjándu aldarinnar er þessi bók mikill fengur og vitanlega þakkarvert að hér séu til þýðendur sem eru þess bærir að færa okkur þýskar heimsbókmenntir á íslensku.

Vetur í stofunni
Líf og starf 26. janúar 2026

Vetur í stofunni

Að ýmsu er að hyggja til að halda pottaplöntum heilbrigðum og fallegum yfir vetr...

Öxin kysst
Líf og starf 26. janúar 2026

Öxin kysst

Þann 12. janúar voru 195 ár liðin frá því að Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigur...

Enn lengur á Biðstofunni, takk!
Líf og starf 16. janúar 2026

Enn lengur á Biðstofunni, takk!

Nú er að hefjast ein skemmtilegasta sjónvarpsveisla ársins með Evrópumótinu í ha...

Að missa af síðustu lestinni
Líf og starf 30. desember 2025

Að missa af síðustu lestinni

6 pör spiluðu alslemmu í spili dagsins, 14 fóru í hálfslemmu en nokkur létu duga...

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum
Líf og starf 30. desember 2025

Fjölmargir krýndir í yngri flokkum

Dagana 29. og 30. nóvember fóru fram tvö Íslandsmót. Annars vegar Íslandsmót ein...

Myndflöturinn logar
Líf og starf 28. desember 2025

Myndflöturinn logar

Bjart er yfir sýningu Eggerts Péturssonar í Hafnarborg. Sýningin heitir Roði en ...

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi
Líf og starf 28. desember 2025

Feðgin skrifa um réttir á Íslandi

Feðginin Anna Fjóla og pabbi hennar, Gísli B. Björnsson, eru nú á fullum krafti ...

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki
Líf og starf 28. desember 2025

Húsfreyjan í Ytri-Hlíð lyfti grettistaki

Vopnfirðingurinn Oddný Aðalbjörg Methúsalemsdóttir vann á sinni tíð ötullega að ...