Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lífkol er að verða mjög eftirsótt jarðvegsbætiefni víða um heim, t.d. í Þýskalandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Indlandi
Lífkol er að verða mjög eftirsótt jarðvegsbætiefni víða um heim, t.d. í Þýskalandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Indlandi
Mynd / wikipedia
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Höfundur: Cornelis Aart Meijles og Sigurður Torfi Sigurðsson, ráðunautar hjá RML.

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfélagsins - hjá bændum, fyrirtækjum, einstaklingum og sveitarfélögum. Mikill samfélagslegur kostnaður er fólginn í söfnun, flutningi og meðhöndlun á þessum úrgangi og að jafnaði lítill ávinningur.

Gerjun á lífrænum úrgangi, ormamoltugerð og lífkola-framleiðsla gætu verið heppilegar og hagkvæmar leiðir til að umbreyta lífrænum (úrgangs) efnum í verðmætar afurðir og nýta næringarefni og orkuna í þeim til jarðvegsbóta eða annarra nytja. Verð á tilbúnum áburði hefur hækkað verulega undanfarin ár og mun að öllum líkindum halda áfram að hækka, m.a. vegna örra verðhækkana á fosfati og eldsneyti/orku sem fer í að vinna köfnunarefni úr andrúmslofti. Íslenskur landbúnaður er alfarið háður innflutningi á tilbúnum áburði fyrir matvæla- og fóðurframleiðslu. Það væri því áhugavert og til mikils að vinna ef raunhæft væri að vinna afurðir úr lífrænum úrgangi sem gæti að einhverju leyti komið í stað tilbúins áburðar. Ýmis verkefni um bætta nýtingu lífrænna áburðarefna eru þegar komin af stað eða í farvatninu, þar má t.d. nefna nýtingu á laxamykju sem fellur til með vaxandi fiskeldi hér á landi. Eins má nefna að starfandi er vinnuhópur á vegum matvælaráðuneytisins sem vinnur að vegvísi um nýtingu lífrænna áburðarefna. Fyrirsjáanlegt er því að eftirspurn á lífrænum áburðarefnum muni aukast verulega í ljósi ört hækkandi orku- og áburðarverðs og óvissu sem ríkir í fæðuöryggi vegna núverandi aðstæðna í heiminum.

Nýjar leiðir til bættrar nýtingar lífrænna (úrgangs)efna

Meira en þriðjungur gróðurhúsaáhrifa stafar af landhnignun og jarðvegseyðingu. Landhnignun og jarðvegseyðing ýtir undir loftslagsbreytingar og veldur minnkandi frjósemi jarðar.

Hægt er að snúa þróuninni við með því að byggja upp humusforða í jarðvegi. Það má gera t.d. með því að draga úr notkun tilbúins áburðar, minnka jarðvegsvinnslu og auka notkun afurða úr lífrænum (úrgangs)efnum. Með því má draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, binda kolefni úr andrúmslofti, bæta frjósemi jarðvegs og minnka þörf á innflutningi á fóðurefnum og tilbúnum áburði.

Á undanförnum árum hafa verið þróaðar nýjar leiðir til að nýta lífrænan úrgang. Hér á eftir verður fjallað um þrjár þeirra sem gætu nýst á Íslandi – gerjun, ormamolta og lífkol.

Bokashi aðferðin er víða að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum, bæði í
smáum stíl inni á heimilum, en einnig er verið að útfæra hana á stærri skala
á bóndabýlum sem og á vegum fyrirtækja og sveitarfélaga.
1. Hauggerjun (bokashi)

Bokashi aðferðin, sem nefna má hauggerjun á góðri íslensku, er einfaldari og ódýrari en aðrar meðhöndlunarleiðir fyrir lífrænan úrgang. Aðferðin felst í að gerja lífræna massann í 6-8 vikur. Gerjunarferlið er sett í gang með því að blanda góðgerlum (e. Effective Microorganisms) í úrgangsmassann. Úr verður úrvals jarðvegsbætir og sannkallaður veislumatur fyrir jarðvegslífið. Ferlið er lyktarlaust og miðar m.a. að því að eyða skaðlegum örverum og illgresisfræi í úrganginum og draga úr ásókn meindýra. Næringarefni og kolefni varðveitast mun betur miðað við aðrar aðferðir og því verður endurnýting á lífrænum verðmætum betri en ella.

Bokashi aðferðin er víða að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum, bæði í smáum stíl inni á heimilum, en einnig er verið að útfæra hana á stærri skala á bóndabýlum sem og á vegum fyrirtækja og sveitarfélaga. Bokashi aðferðin gæti hentað íslenskum aðstæðum mjög vel enda fer ferlið fram undir plasti, varið fyrir veðri og vindum, auk þess sem geyma má efnið þar þangað til það á að notast.

Hauggerjun krefst ekki sérhæfðs tækjabúnaðar, þarfnast lítillar vinnu og væri hægt að setja upp víðast hvar á landinu. Hauggerjun getur jafnframt brúað bilið á milli þess er geymslur fyrir lífræn áburðarefni fyllast og þar til að hagstæðar aðstæður skapast til dreifingar.

Við kostnaðargreiningu kemur í ljós að kostnaður vegna gerjunar með Bokashi er töluvert minni en við aðrar meðhöndlunaraðferðir. Þetta getur skýrst meðal annars af því að mun lægri stofnkostnaður er við að koma upp aðstöðu fyrir gerjun og aðferðin er frekar einföld. Rekstrarkostnaður er einnig minni og getur það skýrst af því að færra starfsfólk og vélar þarf til þess að vinna úrganginn.

Enn fremur þarf ekki húsnæði eða steypt plan enda getur vinnslan verið undir berum himni þar sem hún fer fram undir plasti.

Lífrænan heimilisúrgang má jarðgera með hjálp orma. Mynd /ghp
2. Moltugerð með hjálp ánamaðka

Lífrænan heimilisúrgang má jarðgera með hjálp orma. Það er þaulþekkt ferli víða í heiminum en það er lítil reynsla og þekking á því sviði hér á landi. Sumar ormategundir geta umbreytt eigin líkamsþyngd af lífrænum efnum á dag. Lífrænn heimilisúrgangur getur verið varasamur í umgengni vegna mögulegra smitefna.

Því er nauðsynlegt að athuga meðhöndlunarleiðir sem eru færar til að fyrirbyggja smithættu.

Þó að ormar geti unnið úr flestöllum lífrænum úrgangsefnum án vandkvæða þá þarf að leggja fram einhverskonar vottorð um að afurðin, ormamoltan, sé laus við smitefni.

Möguleg leið væri að meðhöndla úrganginn fyrst með góðgerlum (bokashi). Það má gera strax t.d. á heimili, í mötuneytum og á veitingastöðum með því að úða vökva sem inniheldur góðgerla yfir matarafganga. Við það fer gerjun strax í gang og óæskilegar örverur á borð við salmónellu og e. Coli drepast og finnast ekki í afurðinni. Þetta hefur verið prófað og er staðfest af Matís.

Afurð úr bokashigerð er jafnframt herramannsmatur fyrir orma enda er gerjunin ákveðin formeltun lífrænna efna sem gerir ormum auðvelt fyrir að klára og umbreyta þeim í enn verðmætari afurð – ormamoltu. Auk minnkandi smithættu við söfnun og meðhöndlun lífræns heimilisúrgangs er mikilvægur kostur við þessa forvinnslu að hægt er að geyma gerjaða úrganginn án vandkvæða eða taps á næringarefnum þar til hann er settur í ormavinnslu.

3. Lífkol (biochar)

Með gösun (e. Pyrolisis) er hægt að vinna hreint kolefni úr lífrænum efnum. Lífræn efni eru upphituð í 400 – 700°C án aðkomu súrefnis og kolast í stað þess að brenna upp. Tæknilega séð er mögulegt að vinna hvaða lífrænt efni sem er með þessari aðferð.

Með þessari vinnslu eyðist allt smitefni, aðferðin er þ.a.l. mjög örugg og hentar vel fyrir nýtingu á lífrænum heimilisúrgangi, auk nýtingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðslu og afurðastöðvum.

Afurð vinnslunnar er hreint og mjög stöðugt kolefni sem gengur undir heitinu lífkol (e. Biochar). Ferlið er sjálfbært orkulega séð, en eftir upphitun myndast við ferlið brennanlegt gas (Sync gas) sem nægir rúmlega til að knúa vinnsluna áfram. Því þarf ekki að bæta frekar eldsneyti við vinnsluna og hægt er að nota umframorkuna t.d. til upphitunar. Með lífkolagerð má jafnframt minnka urðun á lífrænum úrgangi og lækka tilheyrandi flutnings- og urðunarkostnað.

En kannski liggur stærsta tækifærið fyrir lífkol í allt öðru: Varanlegri og fjárhagslega hagkvæmri kolefnisbindingu í jarðvegi úr CO2 í andrúmslofti og spornar þannig gegn hlýnun jarðarinnar. Kostirnir vegna notkunar á lífkoli eru í stuttri samantekt; Aukin geta jarðvegs til að binda vatn, betri uppskera með tilkomu minna tilbúins áburðar, minni útskolun næringarefna, allmennt betri frjósemi jarðvegs.

Lífkol er að verða mjög eftirsótt jarðvegsbætiefni víða um heim, t.d. í Þýskalandi, Hollandi, Bandaríkjunum, Ástralíu,og Indlandi.

Gæðastaðall fyrir afurðir úr lífrænum (úrgangs)efnum

Moltugerð úr lífrænum úrgangi hefur verið efld á Íslandi á síðustu árum. Eftirspurn eftir moltu hefur þó verið fremur lítil á hér á landi og því hefur moltan aðallega verið notuð við frágang á urðunarstöðum undanfarið. Fremur lágt verð fæst fyrir moltu en meginástæðuna fyrir lítilli eftirspurn má væntanlega rekja til takmarkana og óvissu um nýtingu hennar sem jarðvegsbæti eða áburð og einnig vegna smitefna sem geta leynst í lífrænum úrgangi, s.s. salmónellu, e. Coli og riðusmit.

Út frá efnahagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum og einnig til að stuðla að fæðuöryggi hér á landi er æskilegt að notkun á afurðum úr lífrænum úrgangi verði aukin verulega og þá í öðrum tilgangi en við frágang á urðunarstöðum. Lífræn efni sem notuð eru sem jarðvegsbætir eða áburður auðga vistkerfi, bæta vatnsbúskap og loftun jarðvegs. Jafnframt hafa þau sýnt að ef þau eru borin á bera jörð hefta þau fok á verðmætum jarðvegi.

Þó að lífræn efni innihaldi að jafnaði minna magn næringarefna en t.d. er að finna í tilbúnum áburði, þá losna þau hægt úr læðingi. Það telst kostur þar sem gróður sem myndast með tímanum hefur þá næringarforða til umráða á meðan hann vex. Þess ber þó að geta að mikill munur getur verið í hlutfalli næringaefna í lífrænum efnum.

T.d. getur breytileiki í næringarinnihaldi moltu verið mjög mikill. Breytingar á forsendum við matvælaframleiðslu kalla á gæðastaðla fyrir afurðir sem vinna má úr lífrænum (úrgangs) efnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við og treyst. Ljóst er að fjölmargir hagsmunaaðilar þurfa að koma að þessu máli og því er æskilegt að sett verði á víðtækt samráð sem hefur það að markmiði að þróa gæðastaðal fyrir lífræn áburðaefni.

Í samráðinu yrði tekið mið af mismunandi kröfum sem fyrir liggja og staðallinn yrði öruggur, stöðugur og raunhæfur. Verði slíkur gæðastaðall almennt viðurkenndur mun það auka notkunargildi á þessum afurðum verulega og að sama skapi verðmæti þeirra.

Keðjusamráð

Þó að margir framleiðendur, þjónustufyrirtæki og stjórnvöld séu hlynnt sjálfbærri þróun er hver aðili fyrir sig oft ekki í þeirri stöðu að geta umbreytt framleiðsluferli í vörukeðju. Hann getur í besta falli haft ákveðin áhrif á „nágranna“ sína, t.d. seljendur hráefna, flutningsaðila og kaupendur vara. En til að gera heilar vörukeðjur sjálfbærri þarf meira til, enda gerist slíkt oftast ekki sjálfkrafa. Í fylkinu Fríslandi í Hollandi hefur verið þróað nýtt samvinnuform til að ná fram lokun mismunandi efnahringrása.

Í fjölmörgum efnis- og vörukeðjum í Hollandi eru nú starfrækt svokölluð keðjusamráð, sem má líkja við „klasar“ á viðskiptasviði (clusters). Þátttakendur eru fulltrúar sex hagsmunasviða sem tilgreina má í vörukeðju (sjá mynd). Þessir aðilar vinna saman í samráðskeðju við að lágmarka efnis- og orkunotkun við framleiðslu, dreifingu, pökkun, flutning, geymslu og sölu á vörum sínum. Markmiðið hverju sinni er að vinna saman við að umbreyta þeim hluta keðjunnar sem viðkomandi aðilar ráða yfir og ná fram meiri sjálfbærni en var fyrir.

Úrgangur frá einum aðila verður að hráefni annars og við það sparast ekki einungis verðmæt og oft óendurnýjanleg efni heldur einnig gríðarlegt magn af orku. Samráðskeðjur í Fríslandi, Hollandi eru starfræktar í eftirfarandi efnisog vörukeðjum: steypu, matvælum, fatnaði, (umbúða)plasti, málningu, þakdúkum úr biki, lífrænum úrgangi o.fl. Hvert keðjusamráð samanstendur af fulltrúum sex hagsmunasviða, sem eru: Framboð, Eftirspurn, Endurnýting, Umbreyting, Stjórnvöld og Þekking.

Hagsmunasvið í samráðskeðju.

Þátttakendur í samráðskeðju fyrir lífrænan úrgang hafa það hlutverk að greina hvaða vandamál eru í raun mest áberandi er varða meðhöndlun og vinnslu á lífrænum úrgangi.

Þeir eiga jafnframt að koma með tillögur að hvernig leysa megi vandamál og hvaða mögulegar aðgerðir séu fyrir hendi. Síðan eru þeir spurðir hvað hver og einn gæti fyrir sitt leyti lagt að mörkum til að vinna að lausnum. Þannig byggist upp heildarmynd um hagsmuni mismunandi aðila og gagnkvæmur skilningur myndast á afstöðu hvers og eins. Samhliða fæst yfirsýn yfir möguleika allra, hvaða takmarkanir og / eða hindranir eru til staðar og hvað þurfi til að markmiðum verði. náð. Þar sem allir hagsmunaaðilar eiga fulltrúa í keðjusamráðinu þarf ekki að bíða eftir viðbrögðum aðila
sem ekki taka þátt.

Með þessum hætti myndast fljótt jákvætt andrúmsloft meðal þátttakendanna því strax verður ljóst að hagsmunum hvers og eins er best borgið með samvinnu, enda þarf samstarf til að ná árangri.

Ef vel tekst til geta allir þátttakendur í endurskipulagðri framleiðslukeðju grætt á samstarfinu með það að markmiði að loka hringrás sem sparar vinnu, efni og orku og á endanum fjármagn. Þessar nýju keðjur geta verið fjárhagslega sjálfbærar, oft reknar
án þess að til komi styrkir þar sem allir þátttakendur í samráðskeðju fá greitt fyrir sitt (auka)vinnuframlag með hagræðingu. Þátttakendur sjá að þeir ná meiri árangri með samvinnu en ef þeir stæðu fyrir utan samráðskeðjuna.

Með keðjusamráði aukast líkur á árangri og er það í raun öllum – og þar með samfélaginu í heild – til hagsbóta.

Skylt efni: lífrænn úrgangur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Gerum okkur dagamun
12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun