Nýta mætti afurðir hreindýra betur
Formaður Hreindýraráðs Austurlands segir að mun betur megi nýta veidd hreindýr en að hirða bara af þeim kjötið.
Í 2. tbl. Austurgluggans í ár er rætt við Þórhall Borgarson, formann Hreindýraráðs Austurlands, um nýtingu hreindýraafurða. Segir hann að nýta megi til muna betur það sem til fellur af hreindýrinu fyrir utan kjötið.
„Segja má að nýting á hliðarafurðum veiðanna sé sama marki brennd og nýting hliðarafurða í afurðastöðvum fyrir sauðfé og naut. Ekki hefur fundist markaður fyrir afurðirnar sem reynt hefur verið að nýta og örugglega hefur ekki verið unnið nógu markvisst að því að finna hann. Möguleikarnir eru samt örugglega til staðar,“ segir Þórhallur í grein Austurgluggans.
Tækifæri í skapandi sjálfbærni
Að hans sögn er hartnær öllum skinnum hent þar sem engin sútunarstöð sé lengur í landinu sem geti leðursútað eða loðsútað skinn og þau hreindýraskinn sem séu til sölu á Íslandi séu vetrarskinn frá Finnlandi. Hann nefnir einnig að búa mætti til soð af þeim hundruðum kílóa hreindýrabeina sem til falli í vinnslustöðvum á Austurlandi. Þá væri hægt að nýta fitu af hreindýrsskrokkunum, t.d. í sápu. Hjörtu, lifur og tungur séu nýtt að mestu leyti en eflaust hægt að bæta nýtinguna. Horn og klaufir séu lítt eða ekki notuð. Þórhallur bætir þó við að einstakir hreindýraveiðimenn nýti sjálfir allt dýrið.
Jafnframt kemur fram í grein Austurgluggans að Háskóli Íslands á Hallormsstað hafi boðið upp á kennslu í skapandi sjálfbærni, m.a. í vinnslu ýmissa afurða hreindýrsins, svo sem „kerti, sápur, sútun á skinnum, leðursaum, beinum í soð og skrautmuni, nýtingu á kjöti og innmat, hausasultu, heilabollur og fleira nýtt“. Skólinn hafi jafnframt aðgang að sútara ef þörf sé á.
Austfirsk hönnun og handverk
Því má bæta við að á Austurlandi, ekki síst á Fljótsdalshéraði, hefur til skamms tíma verið viss hefð fyrir að nýta m.a. skinn, horn, bein og klaufir til listmuna- og fatagerðar. Signý Ormarsdóttir fatahönnuður saumaði t.d. um árabil glæsilega kjóla, pils, trefla og aðrar flíkur úr hreindýraskinni og nýtti gjarnan holdrosann. Þá voru unnar töskur, hattar, armbönd o.fl. úr hreindýraleðri á Jökuldal, gerðir eyrnalokkar og annað skart úr hreindýraklaufum, og fatatölur og útskurðargripir úr hornum og beinum.
664 hreindýr voru veidd síðasta haust.
