Góð afkoma lykilatriði fyrir nýliðun
„Að fólk geti greitt sér laun fyrir vinnuna, byggt upp jarðir, ræktun og byggingar, að það sé hægt að reikna sig fram úr þessu. Hægt sé að taka við búum sem eru jafnvel í fullum rekstri eða þá byggja upp frá grunni. Kerfið eins og það er í dag býður tæplega upp á þetta,“ segir Steinþór Logi Arnarsson, endurkjörinn formaður Samtaka ungra bænda, sem héldu aðalfund um þarsíðustu helgi en hann var viðmælandi í Útvarpi Bændablaðsins. Hann segir afkomuvandann í landbúnaði einkum standa í vegi fyrir nýliðun.
Steinþór bendir á að um 300 manns hafi sótt um nýliðunarstuðning síðustu tíu ár og að það samsvari um það bil tíu prósent bænda. Hann segir áskorun að halda utan um tölfræði um starfandi unga bændur.
Meiri stuðningur í Evrópu
Steinþór segir að Evrópa hafi lengi lagt mikla áherslu á nýliðun. „Í dag eru 3 prósent eyrnamerkt ungum bændum þar. Hér á Íslandi erum við nokkuð innan við 1 prósent,“ segir hann og bendir á að rætt sé um að allt að 10 prósent fari í stuðning við unga bændur í endurskoðun evrópsku stefnunnar 2028. „Að þessu leyti getum við sótt til Evrópu,“ segir Steinþór.
Nýliðunarstuðningurinn dugar skammt
Nýliðunarstuðningurinn hér heima nýtist mörgum en vegur lítið í stækkandi fjárfestingum.
„Hver einstaklingur er kannski að fá svona þrjár milljónir í úthlutun eða sjö til níu milljónir að hámarki yfir þrjú ár,“ segir Steinþór. Á móti séu fjárfestingar nýliða komnar í milljarða. „Þessi upphæð dugar því skammt,“ bætir hann við og nefnir að stuðningurinn jafngildi stundum vaxtagreiðslum í einn til tvo mánuði hjá ungum bændum.
Lengri lánstími og skattalegar ívilnanir lykilatriði
Steinþór segir að þrír þættir skipti mestu í að leysa nýliðunarvandann: að styrkja nýliðun innan stuðningskerfisins, að bæta fjármögnun og að innleiða skattalegar ívilnanir við kynslóðaskipti.
Nú er lánstíminn 25 ár fyrir fjárfestingar í landbúnaði og segir Steinþór Logi það ansi stuttan tíma. „Greiðslubyrði nýrra bænda er óþarflega þung.“
Það er jafnframt misjafnt milli greina hversu raunhæft er að hefja búskap. Í sumum greinum séu fjárfestingar miklar en arðsemi lítil og framtíðaráform óviss. Í öðrum séu blikur á lofti um hvort næsta kynslóð taki við og nefnir þar hvíta geirann. „Þar mætti mikið betur gera,“ segir Steinþór og bendir sérstaklega á svínaog alifuglarækt.
Krefjandi tímar fram undan
Steinþór, sem mun gegna formennsku næstu tvö árin, segir samtökin ætla að láta til sín taka í umræðu um starfsskilyrði og komandi búvörusamninga. „Það eru spennandi en krefjandi tímar,“ segir hann.
Um Evrópusambandsumræðuna segir hann: „Við viljum bara taka þátt í þessari umræðu og að hún sé sem upplýstust. Líklega má segja að ég hitti færri sem eru jákvæðir í garð aðildar.“
Heildarályktun aðalfundar Samtaka ungra bænda
Samtök ungra bænda telja tíma til kominn að blása til sóknar í íslenskum landbúnaði. Í of langan tíma hefur samdráttur og bág afkoma verið viðloðandi við atvinnugreinina sem er þróun sem verður ekki við unað lengur. Möguleikar ungs fólks til að hasla sér völl í landbúnaði hefur vegna þessa orðið fyrir neikvæðum áhrifum sem er undirstaða framleiðslu matvæla og annarra landbúnaðarafurða til framtíðar.
Spennandi tækifæri til sóknar eru svo sannarlega til staðar en til þess að þau verði gripin þarf samhent og opinskátt samtal stjórnvalda, bænda og neytenda. Yfirstandandi samtal um starfsskilyrði í landbúnaði og búvörusamninga er hinn besti vettvangur fyrir slíka umræðu. Mikilvægt er að það samtal nái heildstætt utan um þá þætti sem raunverulega hafa áhrif á starfsskilyrði í landbúnaði.
Samtök ungra bænda styðja við framlengingu búvörusamninga um eitt ár, eða til ársloka 2027, en vilja þó um leið árétta að þeir fjármunir í gildandi samningum sem ætlað er að styðja við nýliðun duga mjög skammt. Fjárfestingar nýliða fara stöðugt vaxandi um leið og umsóknum um nýliðunarstuðning fjölgar jafnframt á ári hverju. Æskilegt væri að bregðast við þessu með framlengingu búvörusamninga.
Ungir bændur eru tilbúnir til að grípa tækifærin sem blasa við og axla þá ábyrgð sem fylgir aðgangi og notkun lands og auðlinda. Í alþjóðlegu samhengi hefur það sjaldan verið meira áberandi hvað það skiptir sjálfstæði og öryggi þjóða miklu máli. Landbúnaður er atvinnugrein sem krefst mikillar þekkingar og er að þróast hratt tæknilega en framfarir í þeim efnum verða sem áður drifnar áfram af yngri kynslóðum bænda.
Ungir bændur treysta á stjórnvöld og almenning að taka höndum saman öllum til heilla.
