Áskorun að æfa úti á landi
Mynd / Julien Lavallée
Fréttaskýring 10. nóvember 2025

Áskorun að æfa úti á landi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Einn mikilvægasti þátturinn í uppvexti barna er þátttaka í hvers kyns íþrótta- og tómstundastarfi. Úrvalið um allt land er fjölbreytt, en ýmsar áskoranir geta fylgt þátttöku ungmenna sem búa í dreifðari byggðum. Fjarlægðir og samgöngur skipta höfuðmáli, en einnig getur mikill kostnaður fylgt þátttöku í mótum sem yfirleitt eru á suðvesturhorni landsins.

Hér verður reynt að varpa ljósi á hvað fylgir því að stunda markvissar íþróttaæfingar utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar með því að ræða við þrjá aðila sem lifa og hrærast í íþróttum. Allir eru sammála um að börn á landsbyggðinni þurfi að leggja mikið á sig vilji þau stunda íþróttir af kappi.

Íþróttastarf að mestu í stærsta kjarnanum

Dagný Finnbjörnsdóttir, íþrótta- og
æskulýðsfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ. Mynd / Aðsend

Dagný Finnbjörnsdóttir, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, segir mest allt íþróttastarf í sveitarfélaginu fara fram á Ísafirði. Innan Ísafjarðarbæjar eru jafnframt þrír minni byggðakjarnar á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri ásamt byggð í dreifbýli.

„Við hjá Ísafjarðarbæ erum með íþróttaskóla fyrir krakka í fyrsta til fjórða bekk og höldum úti æfingum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Í hverjum bæ eru æfingar tvisvar í viku en oftar á Ísafirði,“ segir Dagný. Íþróttaskólinn taki fyrir allar mögulegar íþróttir og er ekki einblínt sérstaklega á eina umfram aðra. Fyrir utan blak á Suðureyri séu ekki fastar íþróttaæfingar fyrir ungmenni í hverjum kjarna umfram íþróttaskólann.

Samgöngur skipta máli

„Aðgengi krakkanna að íþróttum veltur því á samgöngum,“ segir Dagný. Börn búsett annars staðar en á Ísafirði þurfa að komast þangað ýmist með almenningssamgöngum eða á eigin vegum. Foreldrar þeirra barna sem búa í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði eiga rétt á akstursstyrkjum vegna íþrótta- og tómstundastarfs sem nemur 40.000 á hvert heimili. Þá eru áætlunarferðir til og frá Þingeyri, Flateyri og Suðureyri þrisvar til fjórum sinnum á dag.

Sveitarfélagið kemur ekki að því að styðja fjölskyldur í þátttöku á íþróttamótum og keppnum sem eru ósjaldan á höfuðborgarsvæðinu. „Það er yfirleitt farið í hóp – leigðir níu manna bílar og að jafnaði tveir fararstjórar sem skipta með sér verkum. Ef þetta er bara ein nótt með gistingu á ódýru hóteli kostar ferðin í kringum 30.000 krónur á haus,“ segir Dagný, en þarna talar hún af reynslu sem foreldri með þrjú börn í íþróttastarfi.

Hver einstaklingur hefur áhrif

Aðspurð segir Dagný aðgengi og íþróttamenningu á hverjum stað stjórna því oft hvaða íþrótt krakkarnir velja. Mest sé í boði af hópíþróttum, en jafnframt sé öflugt starf í kringum skíði. Í áðurnefndum íþróttaskóla skipi til að mynda skíðaæfingar einn stærstan sess yfir háveturinn. Þá hafi fótboltaiðkendum fjölgað mikið eftir að Vestri komst upp í Bestu deildina.

„Lykilatriðið til þess að ólíkar íþróttagreinar stækki og blómstri er fólkið á bak við þær og það þarf lítið til svo að starfið fari í hvora áttina fyrir sig,“ segir Dagný. Einn einstaklingur í svo litlu sveitarfélagi geti haft mikil áhrif. „Það þarf bara eitt foreldri á Þingeyri sem ákveður að keyra á allar æfingar og þá geta jafnvel fjórir krakkar úr þorpinu farið að æfa á hverjum einasta degi á Ísafirði.“

__________________________________________________________________

Fimleikar vinsælir á Austurlandi

Ásta Dís Helgadóttir, formaður fimleikadeildar Hattar. Mynd / Aðsend

Ásta Dís Helgadóttir er formaður fimleikadeildar Hattar á Egilsstöðum. Hjá þeim er öflugt starf með 22 þjálfurum og samtals um 400 iðkendum. Inni í síðarnefndu tölunni er líka fullorðið fólk, en Höttur býður upp á æfingar fyrir þá sem vilja stunda fimleika sem almenna líkamsrækt. Höfuðstöðvar Hattar eru á Egilsstöðum, en iðkendur koma víða að úr sveitarfélögunum Múlabyggð og Fjarðabyggð.

Aðspurð um hvaða áskoranir fylgi því að halda uppi íþróttastarfi fyrir börn í stóru og dreifbýlu svæði segir Ásta: „Á svæðinu eru margir grunnskólar og því fylgir púsluspil að gera æfingatöflur þannig að þetta henti öllum. Þá er enginn bíll sem sinnir börnum sem búa úti í sveit eftir að skólabíllinn fer frá Egilsstöðum klukkan þrjú. Foreldrarnir þurfa því að skutla fram og til baka, sem ég myndi telja að væri hindrun.“

Ungmenni á menntaskólaaldri komi að þjálfun, en þegar þau eru útskrifuð flytji þau ósjaldan af svæðinu til þess að sækja háskóla. „Það getur reynst áskorun að halda í þjálfara og mannskap. Þar sem okkur vantar mannafla getum við ekki byrjað æfingar strax eftir skóla klukkan tvö á daginn,“ segir Ásta. Því þurfi iðkendur oft að bíða í einn til tvo klukkutíma eftir að kennslu í grunnskólanum lýkur.

Langt að sækja mót

„Það er mikil áskorun að fara alltaf suður á mót. Þau eru oftast á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi eða Selfossi. Við fljúgum á milli og reynum að panta með góðum fyrirvara. Þessu fylgir gríðarlegur kostnaður, en við leggjum áherslu á að öll börn fái að taka þátt og reynum að aðstoða alla. Við erum með starfskonu sem sér alfarið um skipulagningu í aðdraganda móta og jafnast það á við hundrað prósent starf,“ segir Ásta. Með krökkunum fara tveir til fjórir fararstjórar úr hópi foreldra. Þá séu alltaf einhverjir foreldrar sem aka með börnin á eigin vegum eða í hóp með öðrum.

Þegar komið er til Reykjavíkur leigir íþróttafélagið bíla eða rútu og er þeim sem það þurfa útveguð gisting. Tólf ára og eldri gista á hóteli, en yngri krakkarnir gista í skólum eða á frístundaheimili. Við þetta bætist kostnaður við að útvega mat meðan á ferðalaginu stendur. „Foreldrar þeirra barna sem eru með óþol og ofnæmi eru oft fararstjórar, sem auðveldar vinnuna gríðarlega, og erum við þakklát fyrir að þau vilji koma í ferðir.“

Mismunun eftir búsetu

„Við létum taka saman fyrir okkur dæmi um ferðakostnað hjá fimmtán ára stelpu sem fer á fimm mót og gistir á hóteli. Heildarkostnaður fyrir foreldra er rúmlega 421 þúsund krónur,“ segir Ásta. Er þetta til viðbótar við æfingagjöld, sem eru í kringum 212 þúsund krónur fyrir veturinn. Ásta tekur fram að foreldrum standi til boða frístundastyrkur, en það sé ekki nema 35 þúsund krónur.

Hún segir foreldra á landsbyggðinni þurfa að borga miklu meira fyrir íþróttastarf barnanna sinna vegna þessa. „Þetta er augljós mismunun eftir búsetu og við heyrum að foreldrar eru farnir að tala um hvað kostnaðurinn er mikill,“ segir hún. Þetta eigi við um fleiri íþróttir en fimleika.

Ásta segir að Höttur hafi ítrekað kallað eftir því hjá Fimleikasambandi Íslands að fá að halda mót á Austurlandi, en það hafi ekki fengist í nokkur ár. „Við bjóðumst til þess að halda mót á hverju einasta ári, en þurfum alltaf að fara suður.“ Hún bætir við að nýlega hafi þjálfarar verið skyldaðir til að sækja námskeið sem er eingöngu haldið á höfuðborgarsvæðinu. Höttur sendi fimm þjálfara og kostnaðurinn við ferðalag, gistingu og uppihald var á bilinu ein og hálf til tvær milljónir.

__________________________________________________________________

Körfuboltamaðurinn úr Bárðardal

Tryggvi Snær Hlinason er atvinnumaður í körfubolta. Hann ólst upp á innsta bæ í Bárðardalnum og komst fyrst á markvissar körfuboltaæfingar á sautjánda aldursári. Mynd / Jón Gautur

Tryggvi Snær Hlinason, einn af fremstu körfuboltamönnum landsins, ólst upp á Svartárkoti í Bárðardal – sem er einn afskekktasti bær landsins. Hann er í landsliðinu í körfubolta og spilar með liðinu Bilbao á Spáni. Hann byrjaði ekki að æfa körfubolta fyrr en á sautjánda aldursári.

Tryggvi, sem er fæddur árið 1997, gekk í grunnskóla að Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði. Á þeim árum stundaði hann allar þær íþróttir sem stóðu honum til boða, eins og sund, blak og fótbolta, og fóru æfingarnar fram að Stórutjörnum eða Laugum í Reykjadal. Með skólabíl tók ferðalagið frá Svartárkoti um klukkutíma hvora leið, en Stórutjarnir eru í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Svartárkoti ef ekið er viðstöðulaust.

Framboð íþrótta breytilegt

„Ég tók þátt í öllum íþróttum í grunnskóla,“ segir Tryggvi. „Við vorum með sund á Laugum – svo var eitthvað um blak og ég var mikið í frjálsum. Þá var eitthvað um fótbolta um sumarið. Þetta var oftast einu sinni eða tvisvar í viku. Fyrir mér var ekkert eðlilegra en að taka klukkutíma skólabíl fram og til baka og gista hjá vini aðra hverja viku eftir æfingu.

Á Laugum í Reykjadal var frjálsíþróttavöllur og þar fór ég líka í sund á tímabili. Á Stórutjörnum var æft blak og körfubolti í tvö ár,“ segir Tryggvi, en framboð íþrótta réðist oft af því hvaða þjálfarar fengust til starfa. „Þetta var klassísk sveitaskólastemning – menn mættu og það var gaman að leika og skemmta sér með vinunum,“ segir Tryggvi. Þá hafi tvær fjölskyldur í Bárðardalnum stundum getað skipst á að fara með börn á íþróttaæfingar.

„Ég er þakklátur mömmu og pabba fyrir að hafa lagt alla þessa vinnu á sig og leyft mér að stunda allt sem ég vildi stunda. Ég var mjög aktífur krakki og var alltaf að gera eitthvað allan daginn heima í sveitinni.“

Í einni af sterkustu deildum heims

Eftir grunnskóla fór Tryggvi í nám við Verkmenntaskólann á Akureyri. „Það var tvisvar sinnum potað í mig úti í búð, bæði af handboltaþjálfara og blakþjálfara, sem spurðu hvort ég hefði áhuga á að kíkja á æfingar,“ segir Tryggvi. Hann valdi hins vegar körfuboltann fyrir tilviljun fljótlega eftir áramót fyrsta veturinn í skólanum. „Ég get ekki sagt að ég hafi verið góður körfuboltamaður á þeim tíma, en sýndi fram á að ég er ekki bara hávaxinn og gat gert eitthvað af viti,“ segir Tryggvi.

Þegar hann var búinn að stunda íþróttina í um tvær vikur hafi hann tekið þátt í æfingu sem var undir stjórn þjálfara U18 landsliðsins sem sá að Tryggvi lofaði góðu. Þjálfarinn sagði að Tryggvi skyldi spila með U18 landsliðinu rúmu ári síðar.

Síðan þá hefur Tryggvi náð miklum árangri í körfuboltanum og má fullyrða að hann sé í hópi þeirra bestu frá Íslandi. Hann er fyrirliði Bilbao, sem spilar í efstu deildinni á Spáni. Fyrir utan NBA deildina í Bandaríkjunum og Evrópukeppnina þá er félagsliðadeildin á Spáni talin ein sú besta á heimsvísu.

Aldrei of seint að byrja

Tryggvi telur ekki víst að það hefði breytt miklu fyrir hans feril ef hann hefði haft ótakmarkaðan aðgang að íþrótta- og tómstundastarfi eins og krakkar á þéttbýlli svæðum. „Það hefði kannski hjálpað mér að komast fyrr á þann stað sem ég er í dag, en á sama tíma trúi ég því að hlutirnir gerist eins og þeir eigi að gerast. Svo hefði ég allt eins getað lent í álagsmeiðslum ef ég hefði byrjað fyrr og þurft að hætta að spila körfubolta um tvítugt.“

Samkvæmt honum sé aldrei of seint að byrja í íþróttum og hefur hann heyrt af mörgum íþróttamönnum sem hafa náð langt þrátt fyrir að hafa ekki stundað markvissar æfingar fyrr en seint á unglingsárunum. „Það er hins vegar alveg ástæða fyrir því að það er miklu sjaldgæfara en hin hefðbundna leið þar sem atvinnumenn hafa æft sína íþrótt frá unga aldri.“

Tryggvi segir erfitt að fullyrða hvað hann hefði tekið sér fyrir hendur ef hann hefði ekki orðið atvinnumaður í körfubolta. „Ég er lærður rafvirki og og væri líklega starfandi sem slíkur á Akureyri á meðan ég væri að vinna að því að verða bóndi í Svartárkoti. Ég valdi rafvirkjun af því að pabbi er ekki sá besti þegar kemur að rafmagni og ég vildi því geta hjálpað til,“ segir Tryggvi. Hann telur allt eins líklegt að hann flytji aftur á heimaslóðir þegar körfuboltaferlinum lýkur. 

Íslendingar fá 45% hitaeininga úr gjörunnum matvælum
Fréttaskýring 4. desember 2025

Íslendingar fá 45% hitaeininga úr gjörunnum matvælum

Niðurstöður nýrrar íslenskrar rannsóknar leiða í ljós að í fæðuneyslu landsmanna...

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
Fréttaskýring 4. desember 2025

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu

Hátt hlutfall gjörunninna matvæla í mataræði mannsins er orðið eitt stærsta lýðh...

Smávirkjanir til sérstakrar skoðunar
Fréttaskýring 22. nóvember 2025

Smávirkjanir til sérstakrar skoðunar

Umhverfis- og orkustofnun og Blámi hafa verið með frekari þróun í smávirkjanakos...

Áskorun að æfa úti á landi
Fréttaskýring 10. nóvember 2025

Áskorun að æfa úti á landi

Einn mikilvægasti þátturinn í uppvexti barna er þátttaka í hvers kyns íþrótta- o...

Frumvarpið vekur spurningar um framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi
Fréttaskýring 24. október 2025

Frumvarpið vekur spurningar um framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi

Frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögum nr. 99/1993, sem nú er ...

Mun auðugri auðlind en áður var talið
Fréttaskýring 13. október 2025

Mun auðugri auðlind en áður var talið

Milljarði íslenskra króna var á dögunum úthlutað til verkefna í átaki stjórnvald...

Ýtt undir áburðarnýtni í landbúnaði
Fréttaskýring 29. september 2025

Ýtt undir áburðarnýtni í landbúnaði

Talsvert er litið til bændastéttarinnar og landbúnaðarins í nýjum tillögum umhve...

Innflutt hráefni algeng í veitingarekstri
Fréttaskýring 29. september 2025

Innflutt hráefni algeng í veitingarekstri

Í íslenskum veitingarekstri er algengt að notast sé við innflutt hráefni. Ástæðu...