Stefna Íslands um líffræðilega fjölbreytni
Stefna Íslands um líffræðilega fjölbreytni til ársins 2030 hefur verið gefin út.
Í inngangi hennar segir að meginstefið snúi að því að málefni líffræðilegrar fjölbreytni fái meira vægi í opinberri stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku á öllum stjórnsýslustigum.
Í henni segir að staða líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu sé alvarleg. Náttúrunni hnigni vegna áhrifa loftslagsbreytinga, landnotkunar, mengunar, framandi ágengra tegunda og annarra álagsþátta. Náttúra Íslands sé ekki undanskilin þessari þróun og því sé vernd lífríkis, endurheimt raskaðra vistkerfa og sjálfbær nýting náttúruauðlinda ein helsta forsenda undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar.
Vernd og endurheimt vistkerfa
Meðal helstu verkefna sem felast í stefnunni eru að vernda og endurheimta vistkerfi og tegundir, nýta land og auðlindir á sjálfbæran hátt, verjast ágengum tegundum, draga úr mengun, samræma loftslagsaðgerðir og lífríkisvernd. Einnig að ýta undir þátttöku samfélagsins og auka vitund þess um líffræðilega fjölbreytni, efla rannsóknir, vöktun og menntun um líffræðilega fjölbreytni
Í henni kemur fram að hún sé í samræmi við stefnu aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem samþykkt var árið 2022. Ísland setji sér skýr markmið til 2030 og taki þátt í sameiginlegu átaki um að snúa þróun hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni við.
Ný nálgun í auðlindastjórnun
Stefnt er að því að árið 2030 hafi 30% lands, ferskvatns, strand- og hafsvæða á Íslandi verið skilgreind sem verndarsvæði með virkri stjórn og vöktun. Einnig að 30% raskaðra vistkerfa á landi, í ferskvatni, til stranda og sjávar verði undir virkri endurheimt árið 2030.
Í stefnunni segir að þetta séu mikilvæg skref við að styrkja líffræðilega fjölbreytni en ekki síður með tilliti til loftslagsmála þar sem vernd og endurheimt vistkerfa séu einnig mótvægis- og aðlögunaraðgerðir.
Þá er í stefnunni fjallað um mikilvægi þess að bregðast við framandi ágengum tegundum og setja skýra lagalega og stjórnsýslulega umgjörð utan um málaflokkinn. Jafnframt er lögð áhersla á að stjórnun á nýtingu auðlinda sé samræmd með aðferðafræði vistkerfisnálgunar að leiðarljósi. Sú nálgun stuðli að jafnvægi verndunar vistkerfa, sjálfbærri nýtingu og jafnri deilingu ágóða. Það feli í sér að áætlanir um nýtingu og framkvæmdir, svo sem vegna orkuvinnslu, fiskveiða, landbúnaðar, lagareldis og efnistöku, verði metnar með tilliti til áhrifa á vistkerfi samhliða mati á efnahagslegri hagkvæmni. Þannig að virkni þeirra haldist þrátt fyrir nýtingu.
