Nýtt mælaborð BÍ tekið í notkun
Nýtt mælaborð hefur verið tekið í notkun hjá Bændasamtökum Íslands (BÍ) sem á að veita greinargott yfirlit yfir innflutning landbúnaðarafurða í samhengi við innlenda framleiðslu.
Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur BÍ, segir tilganginn með mælaborðinu vera að styrkja hagsmunagæslu bænda. Mikilvægt sé að bændur hafi gott aðgengi að upplýsingum sem sýni skýra mynd af þróun í innflutningi búvara. Harpa segir að það hafi verið snúið að nálgast samanburðarupplýsingar um innlenda framleiðslu og innflutning. Með mælaborðinu sé hins vegar mögulegt að fá skýra mynd af innflutningi eftir ýmsum búvöruflokkum, eins og grænmeti, kjöt og mjólkurafurðum.
Einnig megi nálgast nánari upplýsingar um tiltekin grunnatriði varðandi innflutning, eins og hvernig vörurnar eru tollskrárflokkaðar, en það getur verið misjafnt eftir eðli og vinnslu afurða.
Mælaborðið er aðgengilegt í gegnum Mínar síður á vefnum www.bondi.is.
