Skýrari flokkun dýrasjúkdóma og enn betra eftirlit
Atvinnuvegaráðuneytið hefur birt drög að reglugerð um flokkun tilkynningar- og skráningarskyldra dýrasjúkdóma og smitefna í samráðsgátt stjórnvalda.
Markmiðið er að tryggja skýra flokkun sjúkdóma eftir alvarleika, skilgreina tilkynningar- og skráningarskyldu og setja fram aðgerðir til að hindra útbreiðslu og vinna að útrýmingu þegar við á. Reglugerðin gildir um smitsjúkdóma og smitefni sem greinast í dýrum eða umhverfi, og tekur einnig til áður óþekktra sjúkdóma sem upp kunna að koma.
Árið 2014 var lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 breytt á þann hátt að ráðherra skyldi setja í reglugerð lista yfir sjúkdóma í dýrum en fyrir lagabreytinguna voru dýrasjúkdómar tilgreindir í viðauka við lögin. Reglugerð um tilkynningar- og skráningarskylda dýrasjúkdóma nr. 52/2014 var sett í kjölfar lagabreytingarinnar, en án efnislegrar uppfærslu á sjúkdómalistunum. Sjúkdómalistunum hafði verið breytt síðast með lögum árið 2001 og er því núgildandi sjúkdómalisti orðinn 24 ára gamall.
Flokkun og viðbrögð
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru flokkaðir í tvo meginflokka. Fyrsti flokkurinn nær til mjög alvarlegra sjúkdóma sem krefjast tafarlausra aðgerða til útrýmingar, þar á meðal gin- og klaufaveiki, hundaæðis, miltisbrands og fuglainflúensu. Annar flokkurinn tekur til sjúkdóma sem þarf að halda í skefjum eða útrýma, svo sem blátungu, garnaveiki og salmonellusýkingar. Skráningarskyldir sjúkdómar, sem taldir eru upp í viðauka II, eru landlægir eða taldir hafa minni áhrif, en mikilvægt er að fylgjast með útbreiðslu þeirra til að bregðast við ef tíðni eykst.
Eftirlit og gildistaka
Reglugerðardrögin kveða á um tafarlausar varúðarráðstafanir ef grunur vaknar um tilkynningarskyldan sjúkdóm, þar á meðal einangrun og tilkynningu til Matvælastofnunar. Stofnunin hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og getur lagt til breytingar á flokkun sjúkdóma ef ný vísindagögn liggja fyrir.
Málið verður í samráðsgátt til 26. janúar.
