Verndun vatns og vistkerfa þess
Markmið nýs frumvarps um vatnamál, sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda, er einkum að kveða á um að vernda vatn og vistkerfi þess, bæði yfirborðsvatn og grunnvatn til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar.
Frumvarpið leggur til heildarendurskoðun laga um stjórn vatnamála til að skýra hlutverk, flokka vatn og bæta vöktun í samræmi við ESB-tilskipanir. Það miðar að vernd yfirborðs- og grunnvatns, að koma í veg fyrir hnignun vatnavistkerfa og bæta ástand þeirra. Lögin eiga jafnframt að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns með langtímasjónarmiði, í samræmi við vatnatilskipun ESB.
Helstu breytingar lúta að skýrari málsmeðferðarreglum, skilgreindum heimildum stjórnvalda og styrkingu hlutverks Umhverfis- og orkustofnunar, sem mun bera ábyrgð á vatnáætlun, aðgerðaáætlun og vöktun. Vatnaráð fær einnig aukið hlutverk. Áhersla er lögð á víðtækt samráð við fagaðila, hagsmunaaðila og félagasamtök.
Frumvarpið á að uppfylla lágmarkskröfur vatnatilskipunarinnar án þess að ganga lengra. Breytingar ná til umhverfismarkmiða, endurskoðunar vatnaáætlana og innra eftirlits með framkvæmdum og mælingum.
Málið er í samráðsgátt stjórnvalda til 26. janúar. Engar umsagnir höfðu borist þegar blaðið fór í prentun.
