Er einhver leið að hætta?
Þegar kemur að því að bændur vilja bregða búi getur ferlið tekið frá einu ári upp í fimm. Þeir eru ekki eingöngu að láta af störfum, heldur þurfa þeir oftast að selja heimilið og sjá eftir bújörð sem þeir hafa byggt upp í áratugi. Eftir sölu þurfa þeir að standa skil á ýmsum sköttum sem geta reynst þungur baggi.
Þeim bændum, sem rætt var við fyrir þessa grein, var umhugað um að búskapur héldist áfram á þeirra jörð eftir þeirra tíð og vildu ekki „rífa innyflin úr búrekstrinum“ með því að selja framleiðslurétt, skepnur og jörð hvert í sínu lagi. Þá þarf að finna eftirmenn, ýmist afkomendur eða óskylda aðila.
Nauðsynlegt að hafa óbilandi áhuga
Anna María Flygenring er bóndi í Hlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hún er 69 ára og Tryggvi Steinarsson, eiginmaður hennar, er 71 árs. Hjónin hafa aðeins kynnt sér hvernig þau eigi að bera sig að því að hætta í búskap þar sem ekki er hægt að treysta því að heilsan haldist endalaust. Þau eiga afkomendur sem hafa valið sér önnur störf og stefna því ekki að því að taka við. „Mér finnst ekki hægt að pína fólk í búskap, eins og var gert í gamla daga. Ungt fólk í dag vill vera með góða afkomu og eiga möguleikann á fríum,“ segir Anna. Þá sé mikil skuldbinding að fara í búskap og nauðsynlegt að hafa óbilandi áhuga.
„Staðan er sú að við erum með kúabú í fullum rekstri, þar sem hús og vélar eru í góðu standi og skepnur skila sínu. Við teljum okkur vera með virkilega gott bú í höndunum, sem við síðan neyðumst til að láta af hendi því einhvern tímann þarf maður að hætta. Starfslok okkar eru mun flóknari en hjá öðrum stéttum. Við getum ekki bara lokað dyrunum að fjósinu og sagt að við séum hætt.“
Vilja að mjólkurframleiðsla haldi áfram
Aðspurð um þær áskoranir sem hjónin sjá fyrir sér við starfslokin nefnir Anna: „Ef við ætlum að selja búið í fullum rekstri þurfum við að hafa húsnæði fyrir tilvonandi bændur. Það þýðir að við þurfum að flytja úr okkar húsi eða byggja nýtt fyrir þann sem tekur við. Ef við viljum búa áfram hérna á staðnum þurfum við að búa til lóð og byggja hús, því það er ekkert auka íbúðarhús hérna. Hvorugt okkar getur hugsað sér að búa í þéttbýli.
Auðvitað gætum við selt kvótann og allan bústofn og verið hérna áfram, en þá finnst okkur sem við séum að loka enn einu kúabúinu í viðbót og rífa innyflin úr búrekstrinum. Það væri allt í lagi ef fjósið væri handónýtt, en byggingarnar eru í góðu ástandi.
Við gætum selt þetta til einhverra sem hafa ekki hug á búrekstri, en fyrst og fremst viljum við fara frá þessu þannig að einhver annar geti tekið við mjólkurframleiðslunni, þar sem við viljum að fæðuframleiðsla á Íslandi geti dafnað,“ segir Anna og bætir við að á Suðurlandi séu frábær skilyrði til að framleiða mjólk. „En það getur strandað á fjármagni og við vitum alveg hvernig staðan er með ungt fólk sem vill komast í búskap. Það getur oft varla keypt foreldra sína út.“
Þurfa að eiga fyrir húsnæði og lífeyri
„Ef við förum of langt niður með verðið gætum við verið að setja okkur í klemmu, því við þurfum að hafa efni á öðru húsi til að flytja inn í eftir að við erum búinn að borga alla skatta. Við höfðum hugsað okkur í gegnum tíðina að þetta bú gæti verið lífeyririnn og við fengjum einhvern pening út úr því þannig að við gætum lifað sæmilegu lífi þegar við hættum, en lífeyririnn sem við eigum annars von á er ekki mikill. Svo væri ekkert verra ef við værum ekki alveg á kúpunni og gætum leyft okkur að ferðast eitthvað,“ segir Anna.
„Það sem mér finnst erfiðast er að sjá á eftir þessu öllu saman. Þetta er ævistarfið. Fyrir utan það er bóndi minn fæddur hér og uppalinn og ég hef tengst þessum bæ og búi mjög miklum böndum. Ég kvíði því að sjá á eftir því sem við erum búin að byggja upp og bæta í að verða 45 ár. Ef við komum þessu í hendurnar á einhverjum sem við treystum til að halda uppbyggingarstarfinu áfram þá erum við í góðum málum,“ segir Anna. Það sé hins vegar ekki hægt að tryggja hvernig þeir sem taka við haga sínum rekstri. Þetta sé áhætta sem þau þurfi að taka, enda eigi þau ekki völ á öðru.
Sjá fram á háa skatta
„Skattamálin þarf að skoða af einhverjum sérfræðingum því þau geta reynst okkur þungur baggi. Ef við seljum fáum við söluhagnað og af því getur reiknast hátekjuskattur. Við erum búin að borga skatta af vinnu okkar alla ævi, en þurfum svo að borga frekari skatt því við getum ekki hætt nema með því að selja. Er þetta sanngjarnt? Fyrir mína parta þá finnst mér þetta rosalega erfitt andlega. Ég finn að ég er komin með kvíða í magann yfir því hvernig þetta fer,“ segir Anna.
Ung og vilja prófa eitthvað annað
Kúabúið og mjólkurvinnslan á Erpsstöðum í Dölum var auglýst til sölu í nóvember árið 2023. „Við erum búin að vera bændur hérna í 27 ár, sem er þónokkur tími,“ segir Helga Elínborg Guðmundsdóttir. „Ég er að verða 55 ára og Þorgrímur 56 sem telst ekki hátt í bændasamfélaginu.“
Helga og Þorgrímur Einar Guðbjartsson eiga fimm börn og segir hún þau ekki hafa áhuga á að taka við búinu. „Þau hafa valið sér aðrar leiðir í lífinu og við viljum ekki pressa á einn né neinn til að taka við þó svo að þeim hafi sannarlega staðið það til boða. Þegar það var orðið ljóst að ekkert af börnunum kæmi með okkur í reksturinn fórum við að hugsa þetta öðruvísi. Við erum það ung að við erum alveg til í að prófa eitthvað annað og við eigum þó nokkuð mörg ár eftir á vinnumarkaði,“ segir Helga.
Ekkert tilboð í Erpsstaði
„Eftir að við settum á sölu held ég að við höfum aldrei verið jafndugleg í uppbyggingu og viljum við skila af okkur góðu búi. Við hugsum ekki um það á hverjum degi að búið sé komið á sölu,“ segir Helga. Þó svo að Erpsstaðir séu vel rekið kúabú og Helga og Þorgrímur hafi meðal annars fengið Landbúnaðarverðlaunin hafa viðbrögðin við auglýsingunni hins vegar verið lítil. „Við höfum ekki fengið neitt tilboð og það hefur enginn sýnt nægan áhuga til að setjast niður með okkur til að finna út hvort það sé einhver grundvöllur fyrir kaupum.“ Helga telur að hár fjármagnskostnaður sé hluti af skýringunni, en hún skýtur jafnframt á að einhverjum þyki of stór biti að fara í mjólkurvinnslu og ferðaþjónustu meðfram búskap.
„Það sem kom mér á óvart er að ekki hafi komið fleiri til að skoða og að fólk skuli ekki taka samtalið, en þeir sem hafa áhuga á að gerast bændur geta ekki horft á einhverja auglýsingu og ákveðið fyrirfram að þetta sé of dýrt. Þegar við keyptum Erpsstaði árið 1997 áttum við ekki krónu og tókum áhættu. Við áttum rétt fyrir útborguninni og til að byrja með unnum við líka utan bús. Þá lánuðu fyrri ábúendur okkur hluta kaupverðs í sjö ár og þeirra traust varð til þess að við gátum keypt.“
Vilja ekki leggja búskap niður
Aðspurð segir Helga ekki hafa komið til greina að selja búfé og framleiðslurétt af jörðinni. „Það væri svo mikil sorg í því að vera búinn að byggja þetta upp og leggja svo allt niður.“ Þá segir Helga að ef einhver fjársterkur aðili byðist til að kaupa jörðina með það fyrir augum að hætta búskap myndi hún hafna boðinu. „Mér hugnast það ekki þó svo að við getum mögulega fengið meiri pening þannig. Við erum svo mikil náttúrubörn að við viljum sjá þetta blómstra áfram sem landbúnaðarjörð.“ Hún segir hjónin enn þá vera nokkuð róleg yfir því að ekki hafi glæðst yfir sölunni enda eru þau tiltölulega ung enn þá.
„Við erum aðallega mjólkurbændur með á bilinu 60 til 65 kýr mjólkandi hverju sinni. Svo erum við með heimavinnsluna sem við byrjuðum með árið 2009 og þar leynast mikil sóknarfæri. Við viljum að hingað komi fólk sem er uppfullt af hugmyndum, því það er hægt að gera svo margt hérna. Okkur finnst þetta vera rakið dæmi sem gæti hentað tveimur fjölskyldum til að taka við. Hér eru tvö íbúðarhús og það er hægt að gera miklu meira í ferðaþjónustunni en við höfum gert.
Við erum til í að selja búskapinn og halda áfram mjólkurvinnslunni í einhver ár ef það er eitthvað sem getur hjálpað fólki. Okkur finnst vera mikil verðmæti í rjómabúinu, en ef það er enginn sem vill taka þann bolta þá verður því sjálfhætt.“ Helga segir nokkuð einfalt að setja jörð á sölu, en þau höfðu samband við fasteignasala sem hefur séð um mestalla vinnuna. „Mesta málið var að taka ákvörðunina.“
Hægt að lágmarka skattbyrði eftir sölu jarða
Runólfur Sigursveinsson er ráðunautur á rekstrar- og umhverfissviði hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML). „Fyrir eldri kynslóðina er þetta alltaf spurning um hvort einhver afkomenda vilji taka við,“ segir hann. „Ef ekki, þá fer búið á almennan markað. Þó að menn hafi væntingar um að viðkomandi kaupandi haldi áfram búskap, sem getur verið ætlunin í upphafi, þá geta aðstæður breyst. Þá eru menn ekki lengur eigendur og verða að sætta sig við að jörðin fari í aðrar áttir en upphaflega var lagt upp með.“
Oft ekki stokkið á fyrsta boð
„Ef um kynslóðaskipti innan fjölskyldu er að ræða er ekki endilega gerð krafa um hæsta mögulega verð. Þá þarf að fara vel yfir það hvaða möguleika yngri kynslóðin hefur til að fjármagna kaup á ásættanlegu verði fyrir eldri kynslóðina.
Ef jörð er auglýst á almennum markaði í samstarfi við fasteignasölu þá vita menn ekki fyrir fram hvort það verði sambærilegur rekstur áfram í gangi eða hvort nýr aðili vilji breyta eitthvað til. Það er ekki óalgengt að sala á almennum markaði taki eitt til tvö ár og eins geta kynslóðaskipti tekið þó nokkurn tíma. Oft er ekki stokkið á fyrsta boð sem kemur, heldur þurfa menn að gefa sér tíma til að átta sig á hvort það sé eftirspurn.“
Hægt að niðurfæra söluhagnað
Runólfur segir að tekjuskatturinn af sölu bújarða geti verið allt upp í 47 prósent. „Á móti því kemur að það er hægt að niðurfæra söluhagnað að hluta í gegnum kaup á íbúðarhúsi innan tveggja ára. Við mælum með því að fólk leiti sér ráðgjafar. Þá er reynt að átta sig á hvernig skattlagningin verður og reynt að útfæra þetta á sem hagstæðastan hátt fyrir seljendur. Við upphaf söluferilsins þurfa bændur að átta sig á hver nettótalan verður eftir skattlagningu, en það er ekki heildarsöluverðið sem skiptir mestu máli,“ segir hann.
Samkvæmt Runólfi er algengt verð fyrir kúabú með einum mjaltaþjóni í kringum 400 milljónir, en slík eining er yfirleitt með 55 til 65 mjólkandi kýr. Verðið sé þó bæði háð afurðasemi og greiðslumarki, auk þess sem staða ræktunar á búfé og landi skipti máli.
Þarf ekki að vera dýrt
Þórhallur Hauksson, sem rekur bókhaldsþjónustu á Egilsstöðum, hefur kynnt sér vel skattamál í tengslum við sölu bújarða og komið að mörgum þannig málum. Hann segir að með réttum undirbúningi og aðstoð sérfræðinga sé hægt að lágmarka hlutfall söluverðsins sem fer í skatt með því að nýta sér þær leiðir sem löggjafinn hefur sett til að auðvelda ættliðaskipti á bújörðum. Algengt sé að bændum sé ráðlagt að gera ráð fyrir að allt að fjórðungur af söluverði fari í skatt, en í fæstum tilfellum þurfi það að vera svo hátt.
„Þegar bújarðir eru seldar er um nokkra matshluta að ræða; bústofninn, vélar, greiðslumark, útihús, ræktun, jörð og hugsanleg hlunnindi. Um meðferð á hverjum þessara matshluta gilda ákveðnar reglur. Þar sem ég hef komið að er algengast að bústofn og greiðslumark sé selt á matsverði og vélar og tæki á bókfærðu verði. Það sem eftir stendur af heildar söluverðinu deilist á fasteignir í samræmi við fasteignamat. Undantekningalítið er hæsta fasteignamatið á íbúðarhúsnæðinu og þar sem seljandinn hefur nánast alltaf átt það í meira en tvö ár er söluhagnaðurinn af því skattfrjáls.
Ef seljandinn kaupir sér annað íbúðarhúsnæði og flytur í það innan tveggja ára, er honum heimilt að afskrifa það um söluhagnað af ófyrnanlegum eignum; jörð, hlunnindum og greiðslumarki. Þar með er yfirleitt búið að lágmarka skattskyldan söluhagnað. Vandamálið hefur oft verið að bændum finnst þeir fá of lítið út úr þessu þegar þeir eru búnir að borga skattinn en þetta þarf ekki að vera eins dýrt og menn segja,“ segir Þórhallur.
Einkahlutafélög flækja málin
Þórhallur bendir á að ef fólk er búið að færa reksturinn í einkahlutafélag áður en salan fer fram geti það lent í vandræðum, því þá sé ekki hægt að afskrifa kaup á íbúðarhúsnæði á móti ófyrnanlegum eignum. Sé búið að færa reksturinn í einkahlutafélag tapi fólk miklum rétti á skattaafslætti og þurfi oftast að borga 22 prósent fjármagnstekjuskatt stærstum hluta söluandvirðisins. Ef þetta er ekki í einkahlutafélagi er í flestum tilfellum hægt að líta á söluhagnaðinn af jörð, íbúðarhúsi, kvóta og hlunnindum sem skattfrjálsan.
„Ef þú ert búinn að breyta í einkahlutafélag getur jafnframt reynst erfitt að selja félagið með öllu saman því lánastofnanir eru yfirleitt mjög tregar til að lána út á kaup á hlutafé í þannig einkahlutafélögum. Þá getur kaupandinn þurft að kaupa allt út úr félaginu – bústofn og svoleiðis – og þá er peningurinn fastur inni í hlutafélaginu.“ Þórhallur segir dæmi um að seljendur hafi keypt persónulega allar eignirnar úr hlutafélaginu sínu fyrir sölu. Þess vegna sé í flestum tilfellum betra að færa reksturinn í einkahlutafélag eftir sölu.
Gott að huga snemma að sölu
„Í flestum tilfellum er best að byrja að huga að sölunni mjög snemma. Ef bændur eru að fara að selja óskyldum duga eitt til tvö ár í undirbúning. Ef um er að ræða ættliðaskipti innan fjölskyldu er mjög gott að undirbúa þau í rólegheitum í að minnsta kosti fimm ár þar sem unga fólkið smá-kaupir sig inn. Þá verður minna fyrir þau að kaupa þegar upp er staðið. Ekkert af foreldrum sem eru að reyna að hjálpa krökkunum hafa áhuga á að þau fari í lánastofnanir og borgi einhvern helling í vexti til þess að skaffa þeim pening sem gamla fólkið þarf ekki að nota í grænum hvelli. Þau þurfa bara góðan lífeyri,“ segir Þórhallur að lokum.
