Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Raforka sem vara fellur ekki undir fjórfrelsi EES-samningsins hvað Ísland varðar því raforka flæðir ekki frjálst frá Íslandi og engin ákvörðun hefur verið tekin um að tengjast innri raforkumarkaði ESB með lagningu sæstrengs.
Raforka sem vara fellur ekki undir fjórfrelsi EES-samningsins hvað Ísland varðar því raforka flæðir ekki frjálst frá Íslandi og engin ákvörðun hefur verið tekin um að tengjast innri raforkumarkaði ESB með lagningu sæstrengs.
Lesendarýni 17. október 2022

Sögulegt samhengi og samþykkt þriðja orkupakkans

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi og formaður Orkunnar okkar.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn), sem undirritaður var í maí 1992 og tók gildi í ársbyrjun 1994 og er á milli Evrópusambandsins (ESB), þá Evrópubandalagsins, aðildarríkja ESB annars vegar og EFTA-ríkjanna Íslands, Liechtenstein og Noregs hins vegar, er mikilvægasti og áhrifamesti alþjóðasamningur sem Ísland á aðild að.

Eyjólfur Ármannsson.

Ná áhrif og mikilvægi hans til bæði efnahagslífs og íslenskrar löggjafar. Einungis Gamli sáttmáli frá árinu 1262 getur jafnast á við mikilvægi og áhrif EES-samningsins á Íslandi.

Gamli sáttmáli 1262

Með Gamla sáttmála varð Ísland skattland norsku krúnunnar en aðalskilyrði Íslendinga var að konungur skyldi láta Íslendinga ná friði og íslenskum lögum. Einnig skyldi tryggja aðflutninga og rétt Íslendinga í Noregi, en með sáttmálanum varð Ísland hluti af sameiginlegu hagsvæði norsku krúnunnar. Gamli sáttmáli var skilmálaskrá Íslendinga við konungshyllingar í fjórar aldir eða til 1662. Magnús lagabætir Noregskonungur beitti sér fyrir réttareiningu innan norska ríkisins og komu Íslendingar að þeirri lagasmíð.

Árið 1271 lét Magnús lagabætir leggja fyrir Alþingi lögbókina Járnsíðu og var hún lögtekin á árunum 1271-74. Meginuppistaða Járnsíðu var sótt í norsk lög en efni bókarinnar hentaði ekki Íslendingum og aðstæðum þeirra og var mótstaða við hana á Alþingi. Ný lögbók var því send til Íslands, Jónsbók, sem var samþykkt á Alþingi árið 1281. Jónsbók er kennd við aðalhöfund hennar, Íslendinginn Jón Einarsson, og var unnin upp úr Grágás, lögbók íslenska þjóðveldisins, Járnsíðu, og hefur hún að geyma blending af norsk-íslenskum rétti.

Jónsbók var í 400 ár aðalgrundvöllur íslensks landsréttar og enn hafa lagagildi mörg ákvæði hennar, m.a. um landnytjar, búfé, reka o.fl. Löggjafarvald var nú í höndum konungs og Alþingis sameiginlega, einkum konungs, en með tímanum fjaraði undan löggjafarvaldi Alþingis og urðu dómstörf aðalverkefni þess. Íslendingar gengust undir einveldi og afsöluðu sér sjálfstjórn í hendur konungi við erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662. Alþingi var lagt niður árið 1800 og var þá nær eingöngu dómþing.
Íslenskir stórbændur gerðu Gamla sáttmála til þess að leysa stjórnmálavanda, efla landsfrið, sem þeir gátu ekki tryggt á annan hátt.

EES-samningurinn 1994

EES-samningurinn er samstarfs- samningur sem hefur það að markmiði að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði (EES).

Til að ná þessu markmiði skal samstarfið í samræmi við ákvæði samningsins fela í sér: a. frjálsa vöruflutninga; b. frjálsa fólksflutninga; c. frjálsa þjónustustarfsemi; d. frjálsa fjármagnsflutninga; e. að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum; einnig f. nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála. Sjá 1. gr. samningsins.
EES-samningurinn veitir EFTA- ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi aðgang að innri markaði ESB án þess að vera fullir meðlimir að ESB en á innri markaðinum gildir svokallað fjórfrelsi (sjá a.-d. hér að ofan). Með EES-samningnum skuldbinda EFTA-ríki samningsins að taka upp í landsrétt sinn þær ESB- gerðir sem er að finna í viðaukum samningsins og sameiginlega EES- nefndin hefur ákveðið að taka upp í EES-samninginn og eru hluti af fjórfrelsi innri markaðarins. * Sjá 7. gr.

Stjórnskipulegur fyrirvari um samþykki Alþingis – fullveldið tryggt

Þegar lagabreytingar í landsrétti EFTA-ríkja EES-samningsins eru nauðsynlegar er ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni tekin með stjórnskipulegum fyrirvara sem í raun er fyrirvari um samþykki Alþingis. Um tímafresti og gildistöku ákvarðana er fjallað um í 103. gr. EES-samningsins.

Ísland getur samkvæmt EES- samningnum hafnað því að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara og vísað máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem ásamt og samningsaðilum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að ná samkomulagi sem aðilar geta sætt sig við svo að við fyrsta tækifæri megi draga til baka frestunina á upptöku ákvörðunar sameiginlegu EES- nefndarinnar upp í EES-samninginn og þar með bindingu samningsaðila við hana. Nýti Ísland sér ekki hinn stjórnskipulega fyrirvara er umrædd ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar bindandi fyrir Ísland samkvæmt EES-samningnum. Um þessa málsmeðferð fer samkvæmt 2. mgr. 103. gr. og 5. mgr. 102. gr. EES-samningsins.

Í 25 ára sögu EES-samningsins hefur hinn stjórnskipulegi fyrirvari aldrei verið nýttur og hefur því ekki komið til þess að máli hafi verið vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það dregur ekki úr gildi eða þýðingu hins stjórnskipulega fyrirvara fyrir Ísland í EES-samstarfinu.

Krafa Íslands átti að vera að þriðji orkupakkinn og orkustefna ESB gildi ekki um Ísland og að EES-samningurinn feli í sér orkusamvinnu en ekki orkusamband. Málsmeðferð hjá sameiginlegu nefndinni myndi skýra stöðu Íslands innan EES-samstarfsins og þýðingu hins stjórnskipulega fyrirvara til langrar framtíðar.

Eyjan í Norður-Atlantshafi – Raforka og Járnsíða

Raforka sem vara fellur ekki undir fjórfrelsi EES-samningsins hvað Ísland varðar því raforka flæðir ekki frjálst frá Íslandi og engin ákvörðun hefur verið tekin um að tengjast innri raforkumarkaði ESB með lagningu sæstrengs.

Engin forsenda er því fyrir aðild Íslands að orkusambandi ESB. Með aðild að orkusambandi ESB væri Ísland í raun að ganga inn í ESB á sviði orkumála. Í EES-samningnum var samið um orkusamvinnu, ekki þátttöku í orkusambandi. ESB- ríkin sköpuðu grundvöll fyrir orkusambandi ESB með Lissabon- sáttmálanum sem var samþykktur árið 2007, fimmtán árum eftir undirritun EES-samningsins 1992.

Ísland hefði því getað hafnað þriðja orkupakkanum og hafið þá málsmeðferð sem EES- samningurinn kveður á um þegar stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar hefur ekki verið aflétt. Þannig eru hagsmunir Íslands best tryggðir innan EES-samstarfsins.

Járnsíða hentaði ekki Íslendingum og aðstæðum þeirra árið 1271 og var mótstaða við lögtöku hennar á Alþingi, sem varð til að tíu árum síðar var Jónsbók lögtekin. Ljóst er að þriðji orkupakkinn hentar ekki aðstæðum Íslendinga í dag og tekur ekki tillit til einangrunar og landfræðilegrar legu Íslands sem eyju í Norður-Atlantshafi fjarri meginlandi Evrópu, orkuauðlindanýtingar landsins og mikilvægis hennar fyrir sjálfstæði og efnahagslega hagsæld Íslands.

Fullveldisafsal í smáskömmtum

Meirihluti Alþingis getur samþykkt valdaframsal í smáum skömmtum. Fullveldisafsal, í smáum skömmtum, getur því átt sér stað og mun halda áfram að eiga sér stað án aðkomu þjóðarinnar. Dómstólar hafa ekki stöðvað það. Stjórnarskráin veitir ekki fyrirstöðu og margt smátt gerir eitt stórt.

Fullveldi Íslands skyldi varið í EES-samningnum með stjórnskipulegum fyrirvara um samþykki Alþingis við upptöku ESB-gerða í samninginn. Með samþykki þriðja orkupakkans varð fyrirvarinn orðin tóm vegna hræðslukenninga um að ef Ísland samþykkir ekki ESB-lög jafngildi það uppsögn EES-samningsins. Ákvæði samningsins um annað skipta engu.

Líti Ísland á að beiting hins stjórnskipulega fyrirvara feli í sér uppsögn á EES-samningnum eða að hann sé ekki raunverulegur valkostur innan EES-samstarfsins felst í því viðurkenning á að hið raunverulega löggjafarvald á þeim sviðum sem falla undir EES-samninginn sé í raun hjá sameiginlegu EES-nefndinni.

Þetta viðhorf grefur undan löggjafarvaldi Alþingis og með tímanum mun fjara undan því. Það hefur gerst áður í sögunni.

Skylt efni: Orkupakki 3 | orkupakkar

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...