Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Eitt af því sem stendur upp úr er hringferð um landið sem ég fór með Bændasamtökum Íslands í vor. Við héldum sjö fundi og voru fundargestir nærri 700 í það heila, auk þess sem við heimsóttum bændur og fyrirtæki í landbúnaði á milli funda. Samtölin við bændur í þessari ferð veittu mér góða og mikilvæga innsýn í þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir, en ekki síður var augljóst hversu mikil tækifæri eru í íslenskum landbúnaði.
Í kjölfar hringferðarinnar hélt samtalið við bændur áfram með könnun sem Maskína gerði fyrir atvinnuvegaráðuneytið með það fyrir augum að fá fram sjónarmið bænda um starfsumhverfi landbúnaðarins og reynslu þeirra af því. Ég get með sanni sagt að ferðin sem og könnunin hafa verið mér mikilvægt veganesti í mínu starfi sl. mánuði og ég mun halda áfram næstu misserin að leita í þær upplýsingar og ábendingar sem ég fékk. Ég ítreka þakkir mínar til Bændasamtakanna fyrir að hafa boðið mér í þessa ferð.
Mikilvægur áfangi í baráttunni gegn riðu og breytingar á búvörulögum
Breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim voru samþykktar á Alþingi þann 9. október sl. Þar er um að ræða gríðarlega mikilvægan áfanga í baráttunni við riðuveiki í sauðfé. Meginmarkmið laganna er að tryggja að unnt sé að innleiða þær tillögur sem eru lagðar fram í sameiginlegu stefnuskjali stjórnvalda og bænda, Landsáætlun gegn útrýmingu sauðfjárriðu, sem undirrituð var af ráðherra, forstjóra MAST og formanni Bændasamtakanna sumarið 2024. Eins og bændur þekkja manna best hefur riðan valdið þungum búsifjum í gegnum tíðina. Samþykkt þessara laga er skref sem færir okkur nær takmarkinu um riðulaust Ísland eftir nærri 150 ára baráttu.
Í upphafi nýs árs mun ég mæla fyrir breytingum á búvörulögum. Markmið frumvarpsins er að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni og tryggja þeim tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar í takt við það sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Drög að frumvarpinu fóru í samráðsgátt í haust og komu fram ýmsar athugasemdir og ábendingar í því samráðsferli. Eftir úrvinnslu umsagna tók frumvarpið þó nokkrum breytingum, m.a. eftir ábendingar frá Bændasamtökunum og Samtökum smáframleiðenda matvæla. Málið verður á dagskrá þingsins snemma á næsta ári.
Eitt stærsta verkefni komandi árs
Eitt af stærstu og mikilvægustu verkefnum næsta árs í atvinnuvegaráðuneytinu verður endurskoðun starfsumhverfis landbúnaðarins. Það er von mín að niðurstaða vinnunnar muni tryggja verðmætasköpun í landbúnaði til framtíðar og byggja vel undir þau miklu tækifæri sem eru í greininni. Auk þessa tel ég afar mikilvægt að niðurstaða vinnunnar styðji við þau markmið ríkisstjórnarinnar að auðvelda nýliðun í stétt bænda og ýta undir aukna fjölbreytni í matvælaframleiðslu hér á landi.
Fjölbreytni í matvælaframleiðslu er mikilvægt atriði hvað varðar t.d. fæðuöryggi þjóðarinnar þar sem bændur leika lykilhlutverk. Í því samhengi vek ég athygli á því að nú í desember úthlutaði ég í fyrsta sinn framleiðslutengdum stuðningi til kornbænda. Aukin kornrækt stuðlar að aukinni verðmætasköpun í dreifðari byggðum landsins og er jafnframt mikilvægur þáttur í að efla fæðuöryggi og áfallaþol landsins sem er mjög háð innflutningi á korni, bæði til manneldis og fóðurs.
Ég óska bændum um allt land gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Ég hlakka til samtalsins við ykkur á næstu mánuðum og vinnunnar fram undan við að efla og styrkja íslenskan landbúnað enn frekar.
