Íslenskari en ...
Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur alls sem gott og rétt er. Leiðir rökvillan oft til þess að fólk telur það markmið öllu fyrir bestu að spóla tímann til baka og gera svo okkar besta til að viðhalda því ástandi. Nálgun sem handvelur oft hið góða og fínpússar staðreyndir eftir hentugleika. Eins er stundum sagt að einungis innlend flóra sé til þess fallin að halda lífi staðarins í bestu horfi.
Einn vandi við allt þetta er sú forsenda að ákveðinn punktur sé „hinn eini rétti“. Slíkt er vandfundið í síbreytilegri náttúru. Þar finnst einungis tímabundið jafnvægi og mismunandi framvindustig vistkerfa.
Svokallað „hástig“ segja fræðin nálægast jafnvægi. Mikið skóglendi og mikil tegundafjölbreytni þvert á hin mismunandi lífsform. Ríkjandi tegundir vistkerfisins teljast fullkomlega aðlagaðar aðstæðum. Aðstæðum sem breytast samt sem áður. Þröngsýni, eða rangtúlkun, væri að telja þær tegundir sjálfkrafa hinar einu sem hafa þessa aðlögun. Oftast má finna í heiminum fjölmargar aðrar tegundir sem eru þegar ekki síður aðlagaðar sömu aðstæðum, svo ekki sé minnst á þær sem geta skjótt aðlagast þeim. Enda hafa rannsóknir sýnt fram á að margar framandi tegundir geta auðveldlega fyllt í hlutverk innlendra gagnvart lífkerfinu.
Hliðstæður?
Þegar Siggi litli sagði: „Pabbi er bara eins og hrókur í samræði með nágrannanum!“ lærði hann skjótt að það er ekki sama hvernig maður notar tungumálið. Með árunum lærði hann svo að tungumál eru breytileg. Bæði tungumál og plöntutegundir þróast og skilgreiningar því hvorki eilífar, né heilagar.
„Ef hægt er að rekja orð til frumnorrænu er það ótvírætt íslenska, en hvað með öll þau orð sem hafa bæst í málið frá upphafi Íslandsbyggðar? Er ekkert þeirra íslenska?“ -Eiríkur Rögnvaldsson
Kárahnjúkavirkjun er íslensk virkjun. Til byggingar hennar fór samt m.a. fjármagn upprunnið utan Íslands. Hráefnið var ekki allt sótt innanlands. Hugvitið var ekki eingöngu séríslenskt, ekkert frekar en vinnuaflið í heild. Raunar finnst vart mannvirki á Íslandi sem þurfti ekki a.m.k. eitthvað af erlendum uppruna. Erfitt er að sjá að slíkt hafi sjálfkrafa neikvæð áhrif á burðarþol eða aðra eiginleika þeirra.
Öll erum við aðkomufólk hér, hvort sem það vorum við sjálf eða fyrri kynslóðir sem lögðust í ferðalagið. Plöntur þurftu líka að ferðast hingað, með vindum, vatni og dýrum. Viðhorf okkar til plantna, líkt og þjóðernis, eru oft valin eftir hentisemi.
Merkimiðar
Sumir Íslendingar töldu heppilegra að fela upprunann á erlendri grundu skömmu eftir hrun, til að forðast þau viðbrögð sem ákveðinn merkimiði getur orsakað.
Innanlands var talað um að bera ekki ábyrgð á viðskiptum óreiðumanna og mála ekki alla með sama bursta fyrir það eitt að vera Íslendingar. Erlendis fannst viðhorfið: mínir peningar hurfu vegna fyrirtækja í eigu Íslendinga. Merkimiðinn var ekki hvort viðkomandi væri í fyrirtækjarekstri, eða stýrði banka, heldur bara þjóðernið.
Hve langt myndir þú ganga að halda í lélegasta starfskraftinn, bara af því hann er íslenskur, fram yfir mun betri starfskraft af erlendum uppruna sem hefur þegar aðlagast landi og þjóð?
Hvort skipta þjóðernisflokkanir máli, eða ekki? Kannski bara þegar okkur hentar?
Þjóðarblómið
Undanfarin ár er oft talað um lúpínu sem þjóðlegasta blómið. Hún framkalli alla fánalitina, sé vanalega í fögrum blóma kringum þjóðhátíðardaginn og sé duglegust allra í jarðvegsmyndun og -bætingu. Einnig hafi hún ýmsa ókosti, líkt og margir landar okkar gera einnig. Aðallega þeir sem við erum ósammála.
Hópur lesenda Morgunblaðsins, ásamt öðrum sem aðgengi höfðu að póstkassa, valdi þó aðra tegund, holtasóley, sem hið formlega þjóðarblóm. Sú tegund er ekki síður fögur. Fyrst sem rjúpnalauf, svo þessi fallegu hvítu blóm og að lokum hin myndarlega hárbrúða.
Báðar vaxa tegundirnar víða og rekja sinn uppruna til annarra landa en Íslands. Í N.Ameríku vex sú hávaxnari oft nærri ströndum og á flatlendi, á meðan sú lágvaxnari sækir heldur upp á fjöll, til að gnæfa yfir hina. Báðar finnast í Evrópu, en sú hvíta hefur til viðbótar lýst eignarhaldi yfir ýmis búsvæði í Asíu. Alaskalúpína er talin hafa komið til landsins fyrst árið 1885 og telst útlend, en holtasóley fyrir uþb 10þúsund árum og telst því innlend.
ORA baunir
Ef engar innlendar plöntur myndu gagnast til nytja eða fóðurs, værum við sátt við að rækta engin matvæli og ekkert smíðaefni? Vaxi engar plöntur íslensku flórunnar nógu hátt, þétt eða hratt til að geta bundið jarðveg svo vel sé og veitt skjól, getum við sammælst um að búa í skjólleysi, sandstormum og moldarryki? Jafnvel ef til væri einföld lausn? Ég veit um marga íbúa á Vík og Þorlákshöfn sem hafa skoðun á málinu.
Taki ég túnfífil í þýskalandi og á íslandi, líta þeir eins út, "hegða" sér eins, gagnast sömu hunangsflugunni jafnmikið, eru álitnir sama illgresið af einum hóp en salatplanta af öðrum. Þjóðernið skiptir í raun engu máli.
Stöku plöntur sömu tegundar geta verið betur aðlagaðar tilteknum aðstæðum, t.d. fjalli eða fjöru, en það eru aðstæðurnar, en ekki landamæri, sem segja til um lífvænleika plöntunnar. Sem og hvort fræ gæti hafa ratað þangað fyrir löngu og spírað.
Gæsirnar
Vorið 618 flaug hingað hópur heiðagæsa eftir vetrardvöl á Bretlandseyjum. Svo vildi til að síðasta stopp fyrir brottför var engi fullt af innlendum, breskum plöntum. Þar festist mikið af fræjum bláklukku í fjöðrum gæsanna og þegar þær mættu á Austurlandið varð því óvænt sáning, sem komst á legg og smám saman breiddi úr sér. Á breska enginu var líka mikið af þistli og bara tilviljun að þistilsfræ fylgdu ekki með. Fyrir vikið telst bláklukkan íslensk, en þistillinn ekki. Báðar tegundirnar teljast innlendar í mörgum heimsálfum.
Þistillinn er nokkuð stór, stingur og dreifir hratt úr sér, telst víða ágengur, svo hann er oft illa séður þó fallegur sé í blóma. Bláklukkan er lágvaxin og nettari, særir ekki og dreifir hægar úr sér. Þessir eiginleikar breytast ekki útfrá ríkisfanginu sem skráð er í rafrænu vegabréfi tegundarinnar.
Þistillinn verður reyndar ákjósanlegri við nánari athugun. Hann er gríðarlega mikilvæg fæða fyrir finkur, fjölda fiðrilda og annarra skordýrategunda og talin ein besta plantan fyrir bresk villiengi.
Einlend og tvílembd?
Plöntutegundir eru nefnilega flókið genasamspil sem segir sögur af uppruna, þróun, ferðalagi, blöndun og aðlögun. Síbreytileg náttúran krefst mikillar aðlögunar. Aðlagist tegund bara einu svæði og gengur illa að ferðast er hún kölluð einlend og er gríðarlegur fjöldi slíkra til í heiminum.
Allar blómplöntur sem hér vaxa rekja hins vegar uppruna sinn til annarra landa og tillögur um einlendar („séríslenskar“) tegundir hafa allar verið felldar. T.d. reynst afbrigði annarrar tegundar. Ég veit bara um eina undantekningu: Sníkjuplantan augnfró aðlagaðist hverasvæðum og myndaði tegundina hveraaugnfró.
Sambærilega aðlögun má finna hjá hinum smágerða burkna tunguskollakambi, sem er þó ekki blómplanta. Í báðum tilfellum hafa annars mjög útbreiddar tegundir aðlagað sig að tilteknum hverasvæðum landsins og tilheyra því augljóslega íslenskri flóru, amk eftir að hafa lagt á sig slíka aðlögun. Sjálfsagt væri það raunin sama hvort upprunalega tegundin hafi verið hér innlend áður eða nýlega aðflutt.
Jurtaleifar benda reyndar til þess að hér áður fyrr hafi verið til einlend, séríslensk trjátegund skyld valhnetum. En henni varð á að deyja og missti því væntanlega ríkisborgararéttinn. Stöðugleiki er oft góður og því kannski skiljanlegt að við reynum að halda í hann, en náttúran er bara allt annað en stöðug. Það þekkja íbúar eldfjallaeyju vel.
Hver kom fyrst?
Tegund (eða formóðir) sem hvarf af landi brott löngu áður en núverandi íslensk flóra mætti á svæðið, snýr aftur og lifir góðu lífi: íslensk?
Líklega ekki. Ef hún gat ekki aðlagast og dó út hér, þá missti hún plássið sitt. Óháð því hvort hún lifði áfram annars staðar og hvort orsökin var náttúruhamfarir. Við vitum ýmislegt um þau plöntusamfélög sem lifðu hér fyrir milljónum ára og teljast því væntanlega upprunaleg flóra Íslands. Meðal trjátegunda þar mætti nefna kastaníur og linditré, greni og furur, sýprusa, beyki, álm og ask. Þær hurfu þó undir jökla, ekki taldar íslenskar í dag og fjölskyldusameiningar sjaldnast í boði.
Planta sem aðlagast of vel getur fengið nafnbótina: „ágeng“. Sú sem aðlagast ekki nógu vel, deyr út og missir ríkisborgararéttinn, svo þetta er vandratað. Væntanlega eðlilegra að þær plöntur sem geti aðlagast vel fái hér að lifa, sem nýjir meðlimir íslensku flórunnar. Þær tegundir sem aðlagast ekki breyttum skilyrðum verði bara að deyja út, enda óumflýjanlegt til lengri tíma litið.
Ekki er víst að öll smáatriði sögunnar um gæsirnar séu sönn, en plöntur nema nýtt land m.a. með þessum hætti. Enginn galdur sem býr þær skyndilega til á glænýju hrauni. Tilviljun ein ræður því hvort þær mæta á svæðið fyrir 50 árum eða 5000. Með það í huga er kannski skrýtið að leggja mikið upp úr því hvenær nákvæmlega tegundin mætti.
En hvert er svarið?
Í stuttu máli má segja að listi Náttúrufræðistofnunar ráði. Til að komast á listann, þurfa plöntur að hafa verið komnar til landsins fyrir árið 1750 og vera enn vaxandi hér. Hvað almenning varðar er þetta kannski sjaldnast stórmál? Viljirðu losna við eitraða plöntu úr garðinum þínum, skiptir einhverju máli hvort tegundin hafi vaxið á íslandi í 500 ár eða bara 200?
Til að forðast misskilning, þá tel ég það mjög gott að við séum að fylgjast með gróðri og gróðurframvindu landsins. Við slíkar skráningar er líka alveg ljóst að við þurfum flokkunarkerfi sem hjálpar okkur að vita hvort tiltekin tegund hafi dafnað hér lengi og við hvaða aðstæður. Upp gæti þó vaknað spurningin: af hverju að gefa þeim tegundum sem fyrir tilviljun eru tímabundið á þessum lista aukið vægi?
Höfundur er plöntunörd.
