Vetrarbeit og válynd veður
Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á öræfum? Nú hafa margir dyggir aðdáendur Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson líklega þegar lokið lestrinum og Benedikt er aftur kominn til byggða ásamt Eitli og Leó eftir tuttugustu og sjöundu glímuna við klökug fjöll og öræfi. Aftur í mannheimum um stundarsakir.
Á Íslandi lágu spor manna víða um að vetrarlagi til að sinna sauðfé, ekki bara í eftirleit til að ná þeim skjátum sem höfðu orðið eftir á afréttum eins og í tilfelli Benedikts, heldur voru kindur víða hafðar langt frá bæjum og haldið til beitar að vetrarlagi allt fram á 20. öld. Til vitnis um þetta eru rústir og aðrar leifar beitarhúsa og fjárskýla víða í úthögum, raunar á næstum hverri einustu bújörð og oft á fleiri en einum stað. Þær eru iðagrænar á sumrin, skera sig úr landslaginu og ná sumar að skjóta sér upp úr hvítri fannbreiðunni á vetrum, enda oft staðsettar á hólum og hæðum. Til eru margar hrakningasögur sem greina frá ferðum manna á slíka staði til að hirða um fé, t.d. í ævisögum frá 19.–20. öld og í þjóðsögum þar sem sauðamenn komast í hann krappan á jaðri hins byggilega og lenda jafnvel í klóm tröllskessa og útilegumanna. Það er ljóst að fjárhús voru ekki almenn í úthögum alls staðar heldur hefur það verið misjafnt eftir landshlutum lengi framan af. Flest bendir til að á Suðurlandi hafi fé víðast hvar verið haft á útigangi án fjárhúsa lengst af en þau þekkst víða í öðrum landshlutum, ekki síst á Norðurlandi. Þar voru komin garðahús snemma sem virðast ekki hafa breiðst út á Suðurlandi fyrr en undir lok 19. aldar. Til þessa benda bæði ritaðar heimildir og fornleifar, sem þó hafa bara verið rannsakaðar í örfáum tilvikum.
Á 18. öld voru ýmsar umbætur í landbúnaði í farvatninu en fé fór fjölgandi jafnt og þétt framan af öldinni. Magnús Ketilsson, sá frægi upplýsingafrömuður, var sýslumaður Dalamanna í marga áratugi. Hann sinnti ýmsum ræktunartilraunum í Búðardal á Skarðsströnd þar sem hann bjó lengst af og ritaði ýmiss konar búskaparfræði. Eitt rita hans ber yfirskriftina Undirvísun um þá íslensku sauðfjárhirðingu og var prentað árið 1778 í Hrappsey. Ritið var ætlað til leiðbeiningar fyrir almenning og í því er fjallað um flest sem þótti mikilvægt á þessu sviði, til dæmis um fengitíma, meðferð á lömbum, sumarhirðingu, mjaltir, ull og sjúkdóma. Stór hluti ritsins lýtur að hýsingu fjár á vetrum, ástandinu á því sviði eins og það er á tímum Magnúsar og tillögum til úrbóta. Þess má geta að ýmis áföll sem höfðu mikil áhrif á sauðfjárræktina dundu yfir landsmenn um það leyti sem ritið kom út: fyrst var það fjárkláðinn sem geisaði á árunum milli 1761– 79 og svo helltust móðuharðindin yfir í kjölfarið með gríðarlegum skepnudauða. Hér á eftir grípum við niður í nokkra kafla úr þessu merka riti sem snúa að hirðingu sauðfjár. Fyrir áhugasama má benda á að ritið er nú aðgengilegt í heild sinni á síðunni www.baekur.is.
Um hýsinguna og fóðrið
Magnús hefur afdráttarlausa skoðun á hýsingu kinda og telur að hún sé í sjálfu sér slæm, enda sé húsfé í öllu lakara en útigöngufé, sérstaklega með tilliti til ullargæða. Gallinn sé hins vegar sá að landslag á Íslandi leyfi ekki útigöngu fjár allt árið og því neyðist Íslendingar til að byggja fjárhús. Ástandið í fjárhúsamálum hér á landi telur hann alls ekki gott en segir þó að ekki sé við íslenska bændur að sakast, enda sé skortur á góðu timbri: „Guð gefur honum kindurnar, Guð gefur honum heyið, en viðinn fær hann með aungvu móti keyptan, og þó keyptan fengi langt í burt, hefur hann ei krafta til að koma honum að sér.“ Gott er að láta fé liggja úti svo lengi sem það þíði úr bóli sínu, segir Magnús. Hvað útiganginn varðar virðist almennt ekki gert ráð fyrir mikilli heygjöf meðan nóg er jörð úti, í það minnsta fyrir roskið fé og framan af vetri. Helst vill Magnús að menn taki aftur upp þann gamla og góða manndóm að moka ofan af fyrir féð eða í það minnsta standa yfir því en hvoru tveggja virðist tekið að leggjast af á ritunartíma bókarinnar. „Til forna“, segir hann, „átti einn maður að geyma hundrað fjár [þ.e. 120] og moka ofan af fyrir 60 en hafa 60 í kröpsunum.“ Hann mælir alls ekki með því að láta fé ráða sér sjálft og segir frá því hvernig bóndi nokkur sem hann þekkti fylgdi fjárhópnum til beitar, gekk síðan í sífellu innan um féð, ýtti við því sem lagðist og valdi handa því beitina. Þetta mun hafa verið norður í Saltvík í Húsavíkurhreppi, á æskustöðvum Magnúsar.
Besta útheyið skyldi ætla lömbum og helst valdar til þess þurrlendar puntgresis slægjur, sinulausar og snemmslegnar. Þvínæst átti að heyja fjárheyið, og mátti gjarnan vera með víðilaufi. Barin fiskbein voru gefin í neyð en um birki til fóðurs vill Magnús fátt segja, enda líst honum þannig á skógana um þetta leyti að þeir muni ekki duga lengi til kolagerðar og því síður til annarrar brúkunar. Lyng hefur hann gefið geldneyti og hænsnum og nefnir að söl séu holl sem fóðurbætir fyrir fé, ekki síst út af saltinu. Það var með öðrum orðum talið mikilvægt þegar á 18. öld að gefa salt með vetrarfóðrinu. Í nýjustu hrútaskránni (2025–2026) má lesa um margar tegundir snefilefnabættra saltsteina en á tímum Magnúsar voru annars konar ráð viðhöfð fyrir utan sölin. Hann vísar í sænska uppskrift þar sem hnoðað er saman einni mörk af tjöru, handfylli af malurtarhöfðum, handfylli af steyttum einiberjum og salti. Úr þessu er hnoðað hart deig. Enn einfaldari er þó önnur deigblanda sem Magnús mælir með, en í henni er einfaldlega hnoðað saman þangösku og hlandi sem féð er sagt vera sólgið í að sleikja. Deigið skal festa upp fyrir ofan endastafinn á jötunum þannig að féð nái rétt svo til þess með tungunni.
Annars er Magnús ekki par hrifinn af þeim fjárhúsum sem hann þekkir, segir þau of lítil, þröng og loftlaus. Hiti og loftleysi sé hörmulegt umhverfi fyrir fé, sérstaklega fé sem beita á meðfram hýsingunni því að mikil umskipti hita og kulda séu mjög skaðleg. Hann mælir með annars konar fjárskýlum: fjárborgum og fjárbyrgjum, enda þurfi engan við til að reisa slík mannvirki og þar að auki lofti þar vel um féð. Munurinn er sá að fjárbyrgi eru opin skýli, sem fornmenn hafa greinilega nýtt sér, segir Magnús, enda sjáist rústir þeirra víða. Fjárborgir eru hins vegar hlaðnar upp í topp, og mjókka upp við. Borgirnar eru samkvæmt honum miklu sjaldgæfari og aðallega til á Austurlandi. Sjálfur virðist hann aldrei hafa séð slíkt mannvirki um sína daga. Gallinn við hringlaga mannvirki var sá að það var vandasamt að hlaða þau og ekki á allra færi, enda kunni sauðsvartur almúginn ekkert í reikningslist og gat því ekki ætlað hæfilega stærð fyrir sinn fjárfjölda. Því gefur Magnús leiðbeiningar til að sem flestir geti tileinkað sér hleðsluna. Búa átti til eins konar líkan, leggja út kvarnir úr þorskhöfðum eða litla steina, og láta hverja slíka einingu tákna tvær álnir sem var það pláss sem ætla skyldi hverjum sauð. Leggja átti út einingar eftir fjölda fjárins þannig að þær mynduðu ferkantað form. Þetta líkan átti síðan að leggja til grundvallar þar sem hlaða átti byrgið, helst á grjóthól eða annars staðar þar sem snjó skefur frá. Stinga skyldi niður hæl í miðjunni og hnýta þar um snæri sem náði út í hornið á ferhyrningnum, ganga svo með snærið kringum hælinn og marka hringinn. Mikilvægt var að byrgið væri grjóthlaðið að innanverðu í mitt lær, en torf átti frekar að brúka að ofan- og utanverðu. Ástæðan er sú að féð nuddar sér oft utan í veggi og þá fer mold og sandur í ullina sem illt er að hreinsa auk þess sem molnar úr veggjunum. Það er athyglisvert að Magnús greinir frá því að menn þykist sjá ummerki í fornum fjárbyrgjum um að smalamaður hafi haft þar aðsetur og finnst honum það dágóð hugmynd, enda geti það gerst að þeir komist ekki heim í illviðrum. Vetrarbeit fjarri bæjum var jú víða áhættusöm án aðkomu sauðamanns sem reiddi sig oft á aðrar skepnur til hjálpar.
Sauðamenn, fjárhundar og forystusauðir
Magnús hafði raunar sjálfur ágætan sauðamann um þetta leyti heima í Búðardal, Sigmund nokkurn Jónsson:
Maður sá, er Sigmundur Jónsson hjet, var lengi sauðamaður í Búðardal. Voru þar þá sauðir margir, en einn var sá er af þeim bar. Var hann svo mikil forustu- og vitskepna, að hann hljóp kringum sauðaflokkinn og kom með hann af fjalli sjálfráður, þá er ófær veður gjörði á haustum. Rjeð hann einn hinna ferðum og fylgdu þeir honum. Hann var svartur og var nefndur Sóti. Hund átti Sigmundur, er hann kallaði Lubba. Var hann afbragðs fjárhundur og smalaði Sigmundur með honum Dalinn (Búðardal, mikinn dal, er gengur inn frá bænum) allan á brúnir upp. Þriðja gersemi Sigmundar, og ekki sú sísta, var Guðríður Snorradóttir þjónusta hans. Sigmundur þessi þotti gæða fjármaður, en er þeir voru báðir dauðir, Sóti og Lubbi og Guðríður farin af bænum, hnignaði mjög fjármennsku hans, en þegar minst var á það við hann, varð honum að orði: „Nú er Sóti dauður, Lubbi og Gudda farin og skal ekki Sigmundur hafa sig út í vont veður oftar.“ (Úr ævisögu Magnúsar Ketilssonar e. Þorstein Þorsteinsson)
Þessi þrenning á Skarðsströnd á 18. öld, Sigmundur, Sóti og Lubbi, minna talsvert á söguhetjur Aðventu, þá Benedikt, Eitil og Leó. Milli þeirra (og Guddu að auki) virðist liggja leyniþráður en þegar tengslin rofna tapar Sigmundur viljanum til fjármennsku. Það er athyglisvert að Magnús gerir í riti sínu grein fyrir kostum bæði sauðamanna, góðra fjárhunda og forystusauða. Góður fjármaður er ekki auðfenginn segir Magnús, enda er það einslags gáfa að fara rétt með sauðfé. Sá sem ekki elskar féð og þykir vænt um það getur aldrei orðið góður fjármaður. Meinlaus og góðlyndur skal sauðamaður vera og gangi ekki fram með bölvi og ragni í garð skepna. Helst þurfa menn að hafa vanist kindum frá barnæsku. Léttir á fæti og lagaðir til göngu skulu þeir vera en mega alls ekki vera letingjar! Svo nefnir Magnús að hann sjálfur hafi haft fjármann svo glöggan að hann hafi séð feigð á kindum, og stóð yfirleitt heima að það sem honum leist illa á að hausti lifði sjaldan veturinn. Kannski þetta hafi verið Sigmundur.
Fjárhundar voru að sama skapi vandfengnir á 18. öld samkvæmt Magnúsi. Hann þekkti greinilega til sérstaks fjárhundakyns, sem þótti auðveldara að temja en aðra hunda. Sauðamaður átti að hafa tvo seppa og þar af átti annar að vera snemmalinn hvolpur (helst gotinn í janúar eða febrúar) sem átti að venja með eldri hundi sumarið eftir. Helst átti fjárhundur að vera vel loðinn til að þola frost og kafald. Þá nefnir Magnús góða fjárhunda í Svíþjóð sem vakti fjárhópa án umsjónar mannsins, og sömuleiðis hafði hann heyrt af góðum fjárhundum í Færeyjum – þar séu til hundar sem geti haldið rosknum sauði óskemmdum þar til maður kemur að. „Slæmt er orðið að fá góða fjárhunda; enn nú bágara að rétt gagnlega og góða sauðamenn; enn ómögulegt að fá góða forustusauði“, segir Magnús. Góður forystusauður var mesta gersemi, metfé. Svo virðist sem Magnús hafi ekki óbrigðul ráð til að koma sér upp góðum forystusauð en telur það mest undir náttúru skepnunnar komið. Þó sé hægt að venja þá með því að leyfa þeim aldrei að vera aftarlega í fjárhópnum heldur reka þá til að vera fremst og troða slóð.
Fátt er vitað um þau áhrif sem ritið um sauðfjárhirðingu hafði eða hvort það dreifðist yfir höfuð víða. Af högum Magnúsar sjálfs vitum við hins vegar það að hann varð fyrir áfalli í búskapnum nokkrum árum eftir útkomu þess, en í annál Sveins Sölvasonar á Munkaþverá kemur fram að hann hafi misst upp undir hundrað fjár vorið 1790 þegar ógnarsnjófönn ruddi niður á Vesturlandi.
