Fornleifar og skógrækt
Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farinn veg. Það getur jafnvel verið gagnlegt líka. Þegar undirritaður gengur um lendur Íslands og kortleggur land til skógræktar horfir hann einnig eftir fornleifum. Það kemur fyrir að grjóthleðslur verði á vegi hans eða annað slíkt. Samviskusamlega tilkynnir undirritaður slíkan fund til viðkomandi fornleifaumdæmis. Oftast eru þær nú þegar skráðar, en ekki alltaf. Séu þær ekki skráðar, er það gert, undirbúningur skógræktar heldur áfram og ekki gert ráð fyrir gróðursetningu í og við fornleifarnar. Þetta er dæmi um samvinnu og gagnkvæma virðingu tveggja ólíkra fagstétta. Annan sem hugsar til framtíðar en hinn til fortíðar.
Undirritaður skrifar eftirfarandi með von um að skilja afstöðu, sem honum er fyrirmunað að skilja. Fornleifaleit og skráningu er gerð misjafnlega hátt undir höfði á milli sveitarfélaga. Tilfelli eru um að landeigandi sé skikkaður til að greiða fyrir skráningu fornleifa á því landi sem ætlað er til nýskógræktar til að fá leyfi til framkvæmda. Er fornleifavernd mikilvæg? Eru þær mikilvægari en heill þjóðar? Opnum á umræðuna þannig að hún gagnist helst öllum.
Sagan
Á Íslandi kann að þykja merkilegt ef smáskart finnst við fornleifauppgröft. Oft er slíkt skart úr málmi eða gleri, enda ólíklegt að annars myndi það endast í svo heillegu formi að fornleifafræðingar myndu finna það löngu eftir að notkun þess lauk, væntanlega fyrir árhundruðum.
Þetta fína smáskart hefur líklega verið flutt til landsins með skipi og á því uppruna sinn í útlöndum. Stundum þegar hlutir (eða líf) er með erlendan uppruna þykir það minna áhugavert eða virði. Við erum stolt þjóð, sama hvort við höfum efni á stoltinu eða ekki. Stolt er nefnilega ókeypis og við höfum því alveg efni á þeim hugarburði. Árið 1153 var reist stærsta kirkja á norðurhjara í Skálholti, Klængskirkja. Felldur var stórvaxinn skógur í Þrándheimi í Noregi svo Íslendingar gætu byggt risavaxna kirkju. Kirkjan er eins konar segull á auð og skart. Það er einmitt á slíkum stöðum sem ég vænti að fornleifafræðingar hefðu mestan áhuga á að grafa.
Það er ekki ómögulegt að ætla að smáskartið okkar eigi íslenskan uppruna. Þá er líklegt að járnið í því sé komið úr mýrum, þ.e. úr mýrarrauða sem myndaðist yfir þúsundir ára með aðstoð örvera. Sem sagt, mýrin er uppfull af lífríku efni frá gamalli tíð.
Járnefnasambandinu í mýrinni þarf að umbreyta til að ná hreinni málmi. Það er gert með miklum hita. Í árdaga var notast við það sem náttúran bauð upp á. Mér skilst að í annálum Ara fróða og fleiri sagnaritara hafi verið getið til um kröftugt skóglendi á Íslandi við landnám. Þessum miklu mörkum var eytt, einkum til að búa til bithaga. Skógareyðing af manna völdum. Viðurinn var meðal annars nýttur í brenni, til matseldar og járngerðar. Birkiskógarnir voru grunnforsenda þess að hægt var að smíða úr járni. Forfeðurnir nýttu það sem þeir gátu. Það þurfti stundum að hafa fyrir lífinu á landi elds og ísa. Víða má finna manngert fyrirbrigði út um allt sem kallað er kolagröf. Slíkar grafir voru notaðar til að kveikja upp í timbri, snöggdrepa brunann og þannig varð hægt að umbreyta orku sólarinnar (ljóstillífun) yfir í enn orkuríkara efni (viðarkol). Þessar kolagrafir hafa fundist á landi í allt upp í 500 metra hæð yfir sjó.
Það mætti því ætla að skógur hafi annars vegar náð ansi hátt upp í landið, sem þýðir góð skilyrði fyrir gróður, og hins vegar að skógarnytjar hafi verið ósjálfbærar, þ.e.a.s. að viðartekja skóganna hafi verið meiri en endurnýjunargeta skógarins. Það hefur í för með sér að karaktereinkenni Íslands ber dám af rányrkju og ofbeit. Ofbeitin er að mestu leyti komin til út af mannlegum áherslum á ræktun kvikfjár, einkum sauðkindarinnar, en stórgripir voru þó aldrei langt undan. Um þetta má lesa í Lýsingu Íslands, eftir Þorvald Thoroddsen.
Þessu hefur verið viðhaldið, þ.e. trjágróður á enga undankomuleið, kjálki húsdýra er aldrei langt undan. Nú vilja sumir, ekki síst fornleifafræðingar, kalla ömurlegar afleiðingar rányrkju – skógleysi, gróðurrýrð og jarðvegsrof – „menningarlandslag“. Rányrkja er þó ómenning sem ekki er við hæfi að halda á lofti sem þjóðarstolti. Við eigum að skammast okkar fyrir þetta, ekkert síður en fyrir að hafa útrýmt rostungnum og geirfuglinum.
En aftur að skartgripnum og starfi fornleifafræðinga. Það er mikill fögnuður þegar eitthvað merkilegt finnst sem eykur þekkingu okkar á fortíðinni. Ég reikna með að fornleifauppgröftur sé tiltölulega þægilegur á Íslandi, þökk sé sauðkindinni. Jarðvegsmyndun er hér hæg og þökk sé gjóskulögum er auðvelt að geta sér til um jarðsöguleg tímabil. Á Íslandi hefur gróðurframvinda aldrei náð sér almennilega á strik eftir að maðurinn fór að skipta sér af. Jarðvegur er því tiltölulega laus í sér og lífssnauður. Móar, einkennisvistkerfi Íslands, er jú lítið annað en þunn gróðurhula á rýrum frostlyftum jarðvegi frá forneskju. Kvikfjárbúskapur hefur haldið Íslandi í heljargreipum, á meðan það hefði getað dafnað í lífsins allsnægtum. Sennilega hefði málleysinginn óskað eftir örlítið meiri staðbundinni tuggu, hefði hann verið spurður. Það sýnir sig vel þegar fé sækir yfir girðingar sem aðskilja skógræktarland frá mólendis menningarlandslagi þar sem töluvert meiri gróska er í skógarbotni en á berangri. Svo mikil er dýrð menningarlandslagsins að jafnvel sauðfé reynir að feta sig frá því. Næringarríkur jarðvegur er þar sem lífríkið er mikið.
Liðlega öld er síðan að Jósku heiðarnar í Danmörku voru á milli tannanna á Íslendingum. Þá var rík áhersla lögð á landgræðslu með kraftmiklum runna og trjágróðri. Afraksturinn var fólki að skapi og nú er þar auðugt mannlíf sem mun með tíð og tíma búa til alls konar fornleifar. Ólíkt því ef þarna væru enn auðnir beitilyngsmóanna. Danir, líkt og Íslendingar, voru lengi kvikfjárræktarþjóð sem stundaði ósjálfbæra landnotkun. Þá var á hvorugum staðnum nokkurt val um annað og þekkingin til að gera betur var ekki til staðar. Þær afsakanir höfum við ekki í dag. Danir hafa breytt sinni landnotkun til hins betra en Íslendingar eru þeim enn langt að baki og stunda enn ósjálfbæran og stjórnlítinn kvikfjárbúskap.
Innihald þessarar sögu á ekki að kasta rýrð á fornleifar og starf fornleifafræðinga. Fornleifafræðingar er stétt fólks sem á fullkomlega rétt á sér, sér í lagi þar sem við Íslendingar erum svo stolt af sögu okkar … eða það fer eftir því hver skrifar söguna. Fornleifafræðingar þurfa að berjast fyrir sinni tilvist og tilgangi á sama hátt og Íslendingar börðust við sultarólina öldum saman á kaldri eldfjallaeyju, búandi neðanjarðar innan um mykju og músagang. Nú er öldin önnur. Ef landið lokaðist fyrir innflutningi, til lengri eða jafnvel skemmri tíma, myndi það fljótt hafa afleiðingar.
Við eigum að leggja kapp á að þróa land okkar til sjálfbærni. Það gerum við ekki með tilbeiðslu fortíðar og verndarhyggju. Þvert á móti þá eigum við tækifæri á að gera börn okkar raunverulega stolt í framtíðinni, þar sem líf dafnar, menning og fornleifar líka. Setjum skógrækt í öndvegi, ræktum líf.
