Öryggi í nýjum heimi
Af vettvangi Bændasamtakana 30. janúar 2026

Öryggi í nýjum heimi

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Eitthvað mun það dragast að fríverslunarsamningur Evrópusambandsins og hins suður-ameríska viðskiptabandalags Mercosur taki gildi en í síðustu viku óskaði Evrópuþingið eftir áliti Evrópudómstólsins varðandi það hvort efni samningsins væri í samræmi við sáttmála ESB.

Reynslan hefur sýnt að það getur tekið allt að tvö ár að komast að niðurstöðu. Af þeirri ástæðu ætti því að vera nokkur tími uns suður-amerískar landbúnaðarvörur flæða óhindrað inn á evrópska markaði og þar með talinn þann íslenska.

En þessar fréttir snúast um annað og meira en varkárni Evrópuþingmanna. Þeir hafa fundið fyrir því að mikil andstaða er við samninginn meðal íbúa ríkja innan ESB, ekki síst meðal bænda og þeirra sem eiga afkomu sína undir landbúnaði. Evrópuþingmennirnir eru eflaust líka að skapa sér aukið svigrúm meðan þeir endurskoða afstöðu sína í ljósi þeirra hröðu breytinga sem eru að verða í alþjóðasamskiptum.

Belgingsháttur leiðtoga stærstu ríkja heims, ekki síst forseta Bandaríkjanna, hefur grafið undan trausti fyrirtækja, almennings og stjórnvalda víða um heim. Sú öryggis- og verslunarskipan sem mótast hefur á undanförnum áratugum er ekki talin jafn traust og áður var talið – svo ekki verði fastar að orði kveðið.

Af þeim sökum eru ríki farin að leita annarra leiða til að tryggja öryggi sitt og þar á ég ekki aðeins við um hefðbundna varnarstefnu. Fæðuöryggi og mikilvægi innlendrar framleiðslu eru nú stjórnvöldum hugleiknari en þau voru fyrir tuttugu og fimm árum þegar viðræður ESB og Mercosur-ríkjanna hófust. Staðan í dag er einfaldlega allt önnur og þingmenn Evrópuþingsins átta sig á því.

Þegar ekki er lengur hægt að treysta því að frjálst flæði vara, þjónustu og fjármagns milli ríkja haldist ótruflað, er eðlilegt að ríki leiti leiða til að tryggja eigin sjálfbærni — ekki síst í mikilvægustu atvinnugreinunum. Þar vega þungt matvælaframleiðsla og landbúnaður. Það er mikilvægt að benda á að þegar talað er um mikilvægi innlends landbúnaðar og matvælaframleiðslu er ekki verið að halda því fram að það eigi að vera markmiðið að öll matvara sé framleidd hér heima. Innflutt matvara og önnur nauðsynleg aðföng eru mikilvægur og æskilegur hluti af matarneyslu þjóðarinnar. Hins vegar, ef og þegar kreppir að verðum við fegin að hafa hér á landi öfluga matvælaframleiðslu. Til að tryggja hana áfram verður að búa svo um hnútana að íslenskur landbúnaður geti keppt við innflutninginn á jafningjagrundvelli og að bændur á Íslandi hafi af vinnu sinni nægilegar tekjur til að geta greitt sér mannsæmandi laun ásamt því að þeir hafi svigrúm til að geta fjárfest í framleiðslu framtíðarinnar.

Þetta er ekki flókið, og sem betur fer virðist sem stjórnmálamenn víðast hvar á Vesturlöndum séu farnir að átta sig – þótt tilefnið sé vissulega dapurlegt.

Nú er unnið hörðum höndum að undirbúningi Búnaðarþings og deildafunda í marslok, þar sem málin verða rædd og stefnan mörkuð. Íslensk stjórnvöld hafa sýnt því áhuga í samtölum við okkur í stjórn samtakanna að skoða starfsumhverfi landbúnaðarins í heild sinni samhliða vinnu við endurskoðun búvörusamninga. Það er orðið löngu tímabært að sú vinna fari af stað og bændur eru ávallt tilbúnir í slíka vinnu, en hún byggir á þeim grunni sem búgreinadeildirnar leggja til á Búnaðarþingi. Því fleiri bændur sem taka virkan þátt á þessum fundum og í annarri vinnu Bændasamtakanna, þeim mun skýrari verður stefnan og þar af leiðandi verður samningsstaða okkar bænda sterkari

Ég hlakka til að að sjá ykkur öll!

Nauðsyn þín er tekjulind okkar
Lesendarýni 26. janúar 2026

Nauðsyn þín er tekjulind okkar

Einhvers konar skattheimta er óhjákvæmilegur hluti samfélags. Skattar eru ekki v...

Fornleifar og skógrækt
Lesendarýni 26. janúar 2026

Fornleifar og skógrækt

Fornleifar kunna að þykja áhugaverðar, enda oft gaman að horfa til baka um farin...

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?
Lesendarýni 26. janúar 2026

Sorpbrennsla á Íslandi – besta lausnin?

Við Íslendingar framleiðum margvíslegan úrgang, allt frá heimilis- og iðnaðarúrg...

Tími íslenskrar náttúru er núna
Lesendarýni 16. janúar 2026

Tími íslenskrar náttúru er núna

Atvinnustefna Íslands, vaxtarplan ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 liggur fyri...

Íslenskari en ...
Lesendarýni 6. janúar 2026

Íslenskari en ...

Algeng er sú rökvilla að nútíminn mínus öld eða tvær sé einhvers konar hápunktur...

Við áramót
Lesendarýni 30. desember 2025

Við áramót

Árið 2025 var prýðisgott ár til lands og sjávar. Þess naut sannarlega við í blóð...

Vetrarbeit og válynd veður
Lesendarýni 22. desember 2025

Vetrarbeit og válynd veður

Er nokkuð jólalegra en maður, sauður og hundur á ferð í myrkri og kafaldsbyl á ö...

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar
Lesendarýni 22. desember 2025

Fjölbreyttur og kraftmikill landbúnaður til framtíðar

Þetta fyrsta ár mitt í embætti atvinnuvegaráðherra hefur verið allt í senn fjölb...