Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Heimalönd þurfa því alls ekki að vera girt svo yfirvöldum beri að smala þar
ágangsfé,“ segir Kristín í greininni.
„Heimalönd þurfa því alls ekki að vera girt svo yfirvöldum beri að smala þar ágangsfé,“ segir Kristín í greininni.
Mynd / Aðsend
Lesendarýni 15. febrúar 2023

Af hverju eru Bændasamtök Íslands á móti eignarrétti landeigenda?

Höfundur: Kristín Magnúsdóttir, lögfræðingur M.L. og félagi í Bændasamtökum Íslands.

Árið 2002 var laumað í lög um búfjárhald að landeigendur þyrftu að friða lönd sín gegn búfé með því að girða þau dýrheldri girðingu, fá girðingarnar vottaðar á hverju ári af þar til bærum aðila og fá sveitarstjórn til að auglýsa friðun viðkomandi lands í Stjórnartíðindum.

Kristín Magnúsdóttir.

Allt annað land en hið friðaða skyldi verða sameiginlegur bithagi fyrir búfé á flækingi, nema viðkomandi sveitarstjórn áskildi vörsluskyldu búfjár, sem nánast hvergi er gert.

Varaformaður Bændasamtakanna sat í nefndinni er samdi frumvarpið. Í umsögn samtakanna um ólögin gerðu þau enga efnislega athugasemd við eignaupptökuna hjá landeigendum! Ekki var annað að greina en að allt land, sem ekki væri friðað í Stjórnartíðindum eftir kúnstarinnar reglum, mætti samtakanna vegna verða sameiginlegur bithagi fyrir sauðfé.

Álit stjórnsýslunnar

Eftir samráð við fagráðuneytið, sem var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, gaf innviðaráðuneytið út álit árið 2021 þess efnis að búfé á flækingi ætti beitarrétt í ófriðuðum löndum, eins og mælt er fyrir um í lögunum frá árinu 2002. Ekkert land hér á landi hefur verið friðað og vörsluskylda er afar sjaldgæf. Segja má að nánast öll heimalönd á Íslandi hafi verið risastór sameiginlegur bithagi fyrir kindur á flækingi.

Ekki múkk!

Þá var haft samband við Bændasamtökin og leitað eftir stuðningi þeirra til að fá ólögunum breytt eða hnekkt. Eins furðulegt og það er kusu samtökin að tjá sig í engu um málið.

Frá þeim heyrðist ekki múkk – hvorki tíst né stuna. Samtökunum virtist enn hugnast það vel að landeigendur hefðu ekki umráðarétt yfir löndum sínum, ef það gagnaðist kindum á flækingi.

Umboðsmaður Alþingis

Kvartað var yfir ólögunum við umboðsmann Alþingis. Í ítarlegu áliti í október sl. segir umboðsmaður að eignaupptaka laganna standist ekki eignarréttarákvæði stjórnar- skrárinnar og því geti lögin ekki haft þær afleiðingar fyrir ófriðuð lönd að eigendur þeirra þurfi að þola beit annarra manna búfjár.

Það þurfti umboðsmann Alþingis og stjórnarskrá lýðveldisins til að hnekkja tilgangi ólaganna frá árinu 2002.

BÍ sárnar fyrir hönd ágangsfjár

Loksins, 20 árum eftir ólagasetninguna, tjá Bændasamtökin sig um málið! Lögfræðingur samtakanna skrifar grein um álit umboðsmanns í Bændablaðið. Í stað þess að fagna álitinu, fyrir hönd flestra félagsmanna sinna, rembist lögfræðingurinn við að gera lítið úr álitinu, sem hann segir ekki fela í sér neinn nýjan sannleik! Að landeigendur hefðu með álitinu fengið aftur umráða- og verndarrétt á löndum sínum fannst lögfræðingi Bændasamtaka Íslands lítt merkilegt.

Í greininni misskilur lögfræðingurinn svo hugtakið „lausaganga“, sem hann telur að búfé á afréttum stundi, í stað þess að vera það sem hún er, þ.e. þrautaganga búfjár í heimasveitum þegar eigendur þess vilja ekkert af því vita.

Dómsmálaráðuneytið sammála umboðsmanni

Nýverið úrskurðaði dómstólaráðu- neytið að lögreglunni bæri að smala ágangsfé, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni. Byggði ráðuneytið afstöðu sína á áliti umboðsmanns, þ.e. að ólögin frá 2002 gætu ekki hirt umráða- og verndarréttinn af landeigendum.

Aftur sárnar BÍ fyrir hönd ágangsfjár

Þá verður lögfræðingi Bændasamtakanna aftur mál að skrifa grein í Bændablaðið. Eftir smekklaust grín um Geir og Grana að elta kindur, heldur hann áfram þar sem frá var horfið við að misskilja. Nú er það 34. gr. laga um afréttamálefni sem er misskilin, en lögfræðingurinn segir greinina vera um möguleg uslagjöld vegna ítrekaðs ágangs í girt lönd.

Í raun er greinin um að eigandi búpenings sem gengur í engi, tún og garðlönd og veldur þar tjóni skuli greiða ábúanda bætur, án tillits til þess hvort þau séu girt eða ekki. Til að ábúandi fái bætur vegna ágangs í önnur lönd þurfi þau að vera girt. Þennan rétt landeigenda má rekja til réttarbótar Eiríks Magnússonar Noregskonungs, sem varð að lögum hér á landi árið 1294.

Ef lögfræðingurinn hefði gefið sér tíma til að lesa álit umboðsmanns Alþingis, þá hefði hann séð þar m.a. eftirfarandi umfjöllun um 34. greinina:

Af orðalagi greinarinnar og lögskýringargögnum verður ráðið að óheimill ágangur búfjár í engi, tún og garðlönd geti varðað fjáreiganda skaðabótum án tillits til þess hvort þau eru girt eða ekki. Ágangur í önnur lönd varðar hins vegar ekki skaðabótaskyldu samkvæmt greininni nema þau séu girt ... Er þá litið svo á að réttmætt þyki að leggja með nokkrum hætti gæsluskyldu á eigendur og umráðamenn búpenings. (feitletrun höfundar).

Eftir að hafa misskilið 34. greinina, um að lönd þurfi að vera girt til að ágangur geti verið bótaskyldur, yfirfærir lögfræðingurinn misskilninginn yfir á heimalönd, þ.e. að þau þurfi einnig að vera girt svo sveitarstjórnum eða lögreglu beri að smala þar ágangsfé.

Segja má að þar með styttist verulega á milli misskilnings lögfræðingsins og ólaganna, sem samtökin samþykktu fyrir sitt leyti árið 2002, þ.e. að land skyldi vera girt, vottað og friðað í Stjórnartíðindum – annars væri enginn ágangur!

Bæði girt og ógirt heimalönd ber að smala

Í 4. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni er löndum sem fjallskilasamþykkt tekur til skipt í tvennt; í afrétti og heimalönd. Hvergi í lögunum er kveðið á um að land skuli vera girt til að teljast heimaland.

Þá er ekki minnst á það stöku orði í 33. gr. sömu laga, sem er um skyldu sveitarstjórna að smala ágangsfé í heimalöndum, að slík lönd þurfi að vera girt svo sveitarstjórnum beri að láta smala þar ágangsfé.

Réttur eigenda heimalanda til að leita til handhafa opinbers valds og fara fram á að þeir beiti þeim valdheimildum, sem lög nr. 6/1986 um afréttamálefni færa þeim, er án tillits til þess hvort viðkomandi land er girt eða ekki.

Yfirvofandi matarþurrð!

Lögfræðingurinn klykkir svo út með því að engin trygging sé fyrir því að matur verði til á Íslandi ef sumir kindaeigendur fái ekki að fóðra fé sitt í löndum nágranna sinna – sem hann kýs að kalla „úthaga“. Þessi rökleysa lögfræðingsins gæti verið svarið við því af hverju samtökin samþykktu fyrir sitt leyti árið 2002 að öll lönd, sem ekki væru girt, vottuð og auglýst friðuð í Stjórnartíðindum, væru kindahagi. Það var þá til þess að Íslendingar syltu ekki!

Samtök eða heildarasamtök

Að sjálfsögðu eiga samtök nautgripa-, hrossa-, skógar-, svína-, alifugla-, eggja-, garðyrkju-, sauðfjár-, geitfjár-, landeldis-, loðdýra- og svínabænda, að hafa þá grundvallarafstöðu til eignarréttar félagsmanna, og allra annarra, að hver og einn skuli í hvívetna virða eignarrétt hinna.

Að þeir sauðfjáreigendur, sem hvorki gæta búfjár síns á sumrin, né vista það á afréttum utan byggðar, hafi náð að teyma samtökin út í það fúafen að þeir eigi, megi og þurfi að fóðra skepnur sínar í eignarlöndum annarra, svo Íslendingar drepist ekki úr hungri, sýnir að nýju samtökin okkar eiga langa leið fyrir höndum að verða heildarsamtök.

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...

Landbúnaðarandúð
Lesendarýni 26. mars 2024

Landbúnaðarandúð

Fjölþátta ógnir steðja að íslenskri matvælaframleiðslu sem þó koma flestar úr sö...

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting
Lesendarýni 25. mars 2024

Bændur, norskir víkingar og sjálfbær landnýting

Eins langt aftur og Íslandssagan nær hefur landnýting og búskapur verið órofa he...