Skorradalshreppur kærir skipun raflínunefndar
Sveitastjórn krefst þess að ákvörðun félags- og húsnæðismálaráðuneytisins um skipun sérstakrar raflínunefndar vegna Holtavörðuheiðarlínu 1 verði felld úr gildi.
Í kærunni, sem aðgengileg er á vef Skorradalshrepps, er vísað til þess að ákvörðun um stofnun raflínunefndar feli í sér stjórnvaldsákvörðun sem varði sérstaklega réttindi og skyldur hreppsins. „Með slíkri ákvörðun fellur niður og skerðist almennt lögbundið hlutverk sveitarfélagsins að fjalla um þróun byggðar og landnotkun í samræmi við ákvæði skipulagslaga um aðalskipulag, þ.m.t. varðandi flutningsmannvirki raforku. Þá leiðir ákvörðunin til þess að sveitarfélaginu ber að skipa fulltrúa í raflínunefnd,“ segir í kærunni.
Þar er bent á að hreppurinn telji ekki forsendur fyrir Landsnet eða ráðuneytið að telja að ágreiningur sé til staðar sem réttlæti skipun raflínunefndar. Áréttað er að Landsnet hafi frá því í desember 2024, þegar annað erindi um raflínunefnd var til umfjöllunar, ekki átt nein samskipti við Skorradalshrepp um að aðalskipulagi verði breytt með tilteknum hætti. Eðlilegra hefði verið að reynt væri á málamiðlanir.
Skipulagsmál eru á borði félags- og húsnæðismálaráðuneytisins. Raflínunefnd hefur það hlutverk að undirbúa, kynna og afgreiða raflínuskipulag fyrir framkvæmd í flutningskerfi raforku sem nær til tveggja eða fleiri sveitarfélaga og afgreiða umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir henni. Holtavörðuheiðarlína 1 nær til fjögurra sveitarfélaga. Einn fulltrúi frá hverju sveitarfélagi mun eiga sæti í nefndinni, auk fulltrúa umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og fulltrúa félagsog húsnæðismálaráðherra. Síðastnefndi fulltrúinn verður formaður nefndarinnar.
