Guðmundur Hallgrímsson heiðraður
Fyrir skemmstu kom fulltrúi frá svissneska rúningsklippuframleiðandanum Heiniger og færði Guðmundi Hallgrímssyni á Hvanneyri gjöf í tilefni af 40 ára samstarfi þar sem hann hefur selt og þjónustað rúningsklippur. Núna er hann 75 ára og segist hvergi nærri hættur.
Guðmundur segir í samtali tilviljun hafa ráðið því að hann hafi orðið sölumaður og þjónustuaðili fyrir Heiniger árið 1985. Þá hafi fyrirtækið verið að leita að umboðsmanni hérlendis og kom starfsmaður þeirra til landsins. Sá hafi byrjað á að leita ráða hjá Bændasamtökunum þaðan sem honum var vísað á bútæknideild Bændaskólans á Hvanneyri, en þá starfaði Guðmundur við Hvanneyrarbúið.
Enginn vissi neitt um rúningsvélar
„Hann boðaði komu sína hjá Grétari Einarssyni og tók leigubíl hingað upp eftir. Grétar hringdi í mig og spurði hvort ég vildi ekki vera viðstaddur þar sem ég var rúningsmaður. Við bentum manninum á vélasölurnar í Reykjavík sem voru að flytja inn landbúnaðarvörur. Svo stakk Grétar upp á því að ég tæki þetta að mér en ég svaraði því að ég væri ekki sölumaður.
Maðurinn renndi suður til að heimsækja vélasalana sem við bentum honum á. Hann hitti fullt af sölumönnum, en engan sem vissi neitt um rúningsvélar. Hann kom aftur hingað á Hvanneyri og við settumst gaumgæfilega yfir málin. Við gerðum svo með okkur samning um að ég tæki að mér umboðið og sinnti viðhaldi,“ segir Guðmundur.
Vildi ekki leggja of mikið á
„Viðtökurnar á Heinigerklippunum voru góðar, en þá voru til tvær gerðir af barkaklippum á markaðnum – Lister og Sunbeam. Mér fannst að ég þyrfti að leggja skratti mikið á þetta til að ná upp í verðið hjá þeim, svo ég seldi á verði þannig að ég hefði rétt einhverjar krónur eftir. Þá lækkuðu hinar klippurnar í verði líka.
Ég hef séð um viðhald og stillingar á klippum frá hinum framleiðendunum líka, en hin umboðin voru ekki með þá þjónustu. Þetta eru allt saman ágætis klippur og eiga að duga í mannsaldur ef það er farið vel með þetta, en menn lentu oft í vandræðum ef þetta bilaði.
Það eru fleiri en ég sem sjá um að brýna, en ég fæ mikið af handföngum til að gera þau upp, skipta um slitfleti og stilla. Núna eru klippurnar orðnar viðkvæmari og flóknari en þær voru, en það er kominn alls konar rafmagns- og öryggisbúnaður.“
Um tíu klippur á ári
„Handföngin voru miklu klossaðri og þyngri fyrst, en núna voru að koma ný handföng sem eru alveg eins í laginu og allir slitfletir eru þeir sömu en þeir minnkuðu efnið í handfanginu og léttu þau þó nokkuð mikið.
Eins hafa verið alls konar barkar, en fyrst voru þeir strigi með fjöður strengda utan um sem var svolítið þungt. Svo var farið að nota plast í klæðninguna sem var lungamjúkt fyrst, en harðnaði og vildi springa með aldrinum. Núna eru þeir komnir með gúmmí utan um barkana sem er miklu betra, en gormarnir inni í þeim eru orðnir viðkvæmari og er ég ekkert voðalega sáttur við það. Áður fyrr var undantekning ef það slitnaði gormur.“ Guðmundur segir rúningsklippur nokkuð einfaldan útbúnað, en þær eru settar saman úr rafmótor sem hangir fyrir ofan rúningsmanninn ásamt drifbarka sem kemur niður úr honum og tengist við handfangið.
Þar sem endingin er mikil segir Guðmundur söluna vera hóflega. Hann skýtur á að hann hafi selt að jafnaði tíu barkaklippur á ári. Hann segir fullbúið sett af barkaklippum kosta í kringum 230 þúsund krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Þó svo að Heiniger sé best þekkt fyrir barkaklippur fyrir rúning selur Guðmundur líka fjölbreytt úrval af klippum fyrir nautgripi, hross og gæludýr. Það nýjasta séu rafhlöðuknúnar rúningsklippur.
Hendurnar ekki til átaka
Guðmundur kenndi rúning í rúmlega þrjátíu ár. „Það er svo mikið atriði að þeir sem eru að klippa læri aðferðina við rúninginn eins vel og mögulega hægt er. Ég var á tíu daga námskeiði til að kenna rúning og þá var stór hluti af þessu líkamsbeitingin.
Lagið er að reyna ekkert á bakið, heldur á sterkustu vöðvana í fótunum. Bakvöðvarnir eru aumir og þunnir á meðan það eru feikna þykkir vöðvar í lærunum og kálfunum sem eru til átaka. Þegar maður stendur boginn má ekki nota höndina til að taka á því að átakið kemur allt frá bakinu. Til þess að árétta þetta fyrir nemendunum klippti ég oft eina kind með aðra höndina fyrir aftan bak.
Eins skiptir máli hvernig menn halda á handfanginu. Ef menn halda eins og um járnkarl þá taka þeir á handfanginu og handleggurinn verður grjótharður alla leið upp í öxl. Ef menn setja þumalputtann upp á handfangið er ekkert hægt að taka á.“
Aðspurður hvort ekki breyti miklu að vera í svokallaðri rúningsrólu svarar Guðmundur: „Í sjálfu sér áttu ekki að þurfa að vera í rólu ef þú klippir alveg hárrétt. Maður á að geta komið kindinni í allar stellingar bara með fótunum. Ég segi stundum að ef menn eru slæmir í bakinu eigi þeir að fara að klippa til að þjálfa sig.“
Guðmundur var bústjóri á Hvanneyri í rúman aldarfjórðung og klaufskar hann lengi kýr fyrir nokkur búnaðarsambönd. Enn fremur hefur Guðmundur komið að fleiri verkefnum, eins og innra eftirliti fyrir bændur. Undanfarin ár hefur Guðmundur ferðast um landið með sérstaka vél til að fræsa rásir í fjósgólf sem eru orðin sleip, en sú aðgerð minnki hættuna á slysum á dýrum og mönnum.
