„Breiddu ljóssængina yfir mig“
Mynd / aðsendar
Líf og starf 23. desember 2025

„Breiddu ljóssængina yfir mig“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Út er komin ljóðabókin Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur.

Titill ljóðabókarinnar Hvalbaks er á bókarkápu útskýrður sem „Orðið hvalbak eða jökulflúð er í jökla- og jarðfræði haft um klöpp sem skriðjökull hefur sorfið þannig að hún líkist helst baki á hval.“

Höfundur Hvalbaks, Maó Alheimsdóttir, er fædd árið 1983 og uppalin í Póllandi. Hún stundaði nám í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla í París og lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli með bókmenntafræði sem aukagrein við Háskóla Íslands. Hún lærði íslensku sem annað mál á fullorðinsárum og var fyrsti erlendi nemandinn til að ljúka MA-gráðu í ritlist við HÍ. Maó hefur búið á Íslandi í um 20 ár og starfar í dag sem tungumálakennari og fjalla- og jöklaleiðsögumaður, er búsett í Reykjavík og fæst við skriftir.

Handritið að fyrstu skáldsögu Maó, sem út kom í fyrra; Veðurfregnir og jarðarfarir, hlaut nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2021 og er af útgefanda sögð vera fyrsta frumsamda sagan sem kemur út á íslensku og er skrifuð af höfundi sem lærði málið á fullorðinsaldri.

Hvalbak er önnur ljóðabók Maó. Hún hefur einnig gefið út ljóðabókina Ljóðatal (2023) og tekið þátt í útgáfu ljóðabréfa og ritverkum með öðrum höfundum. Árið 2021 framleiddi hún útvarpsþættina „Að fjallabaki“ í samstarfi við RÚV og birti pistilinn „Mín litla Mongólía“ í Tímariti Máls og menningar. Maó hefur framkvæmt gjörninga á viðburðum eins og Reykjavík Poetics (2023), „Hvalbak“ í Hafnarhúsi (2023) og gjörning fyrir Ós Pressuna á Listahátíð í Reykjavík (2024). Hún hefur verið formaður Ós Pressunnar frá 2024. Maó hefur skrifað greinar um eigin reynslu, m.a. í Heimildinni, þar sem hún fjallar um mistök á unglingsárum og hvernig hún lærði að draga lærdóm af erfiðum tímum í stað þess að dvelja í skömm. Hún lýsir einnig æsku sinni, einmanaleika og löngun til að skilja heiminn.

Hvalbak skiptist í formála og eftirmála sem eru hvorir tveggja ljóð, og þrjá innkafla sem innihalda um fimmtíu ljóð. Einnig eru teikningar í bókinni eftir höfund. Hún er 96 síður, prentuð í Þýskalandi og gefin út af Máli og menningu.

í vetrarmyrkri norðursins
gættu mín
frá biturleika og kulda
verndaðu mig
fyrir söknuði og missi
hlífðu mér

láttu mig falla
í stjörnuþoku
breiddu ljóssængina
yfir mig

(bls. 23)

ekki getin úr holdi þínu
ekki með blóð þitt í æðum mínum
aðeins með tár sem ég tíndi
uppi í brekku að hausti til

ég þvoði augu mín í þeim
skolaði syndir forfeðra minna
sem eru ekki skyldir þér

ekki í sjöunda lið
ekki úr knerri sem þú sigldir eftir sólarsteini
á alskýjuðum degi
ekki þegar þú gekkst með kú út í víkina
að næsta firði til að nema land

ég varð til úr móbergi, blágrýti, þungum
gabbróeggjum
sem jökulá slípaði í þúsundir ára
og þú tókst upp og virtir fyrir þér

ég varð til úr sandkorni sem féll ásamt
milljón öðrum sandkornum, hnullungum
björgum í gilið og myndaði aurkeilu
framan við fætur þér

ekki úr blárri baðstofu í sortulituðu pilsi
ekki úr fingrum að plokka strengi á langspili
ekki úr kveðskapnum með stuðlum, höfuðstöfum
sem barst með vetrarmyrkri út á haf

ég varð til úr síli, ljósátu, loðnu
sem hrafnreyðar gleyptu við strendur lands þíns
að vori til

ég varð til úr veðruðum beinum höfrunga
sem þú fannst í fjörunni og lagðir við hliðina
á sauðaleggjum, hornum

(bls. 11-14)

Aðstæður almennings á 19. öld
Líf og starf 23. desember 2025

Aðstæður almennings á 19. öld

Út er komin bókin Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld, ef...

„Breiddu ljóssængina yfir mig“
Líf og starf 23. desember 2025

„Breiddu ljóssængina yfir mig“

Út er komin ljóðabókin Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur.

Leitin að norrænum mönnum á Grænlandi
Líf og starf 23. desember 2025

Leitin að norrænum mönnum á Grænlandi

Valur Gunnarsson, rithöfundur og sagnfræðingur, gaf út fyrir skemmstu bókina Græ...

Klassík í bland við bleikar fjaðrir
Líf og starf 19. desember 2025

Klassík í bland við bleikar fjaðrir

Klassískur Chanel-kjóll fyrir þær smörtustu, þykkt, mjúkt dökkbleikt flauel eða ...

Ekki gripið í tómt
Líf og starf 16. desember 2025

Ekki gripið í tómt

Jarðtengd norðurljós eftir Þórarin Eldjárn inniheldur tvær bækur, Frumbók og Nát...

KR-ingar efstir
Líf og starf 16. desember 2025

KR-ingar efstir

Íslandsmót skákfélaga fór fram á dögunum í Rimaskóla.

Að missa af síðustu lestinni
Líf og starf 15. desember 2025

Að missa af síðustu lestinni

6 pör spiluðu alslemmu í spili dagsins, 14 fóru í hálfslemmu en nokkur létu duga...

Okkar besti maður
Líf og starf 11. desember 2025

Okkar besti maður

Á næsta ári verða 300 ár liðin frá fæðingu Eggerts Ólafssonar. Þegar við svipleg...