Aðstæður almennings á 19. öld
Út er komin bókin Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld, eftir sagnfræðinginn Vilhelm Vilhelmsson. Hún er byggð á doktorsritgerð hans í sagnfræði við Háskóla Íslands og er gefin út af Sögufélaginu.
„Ég ætlaði mér að fjalla upphaflega í víðu samhengi um vald, andóf gegn valdi og valdatengsl í íslensku sveitasamfélagi yfir lengra tímabil,“ segir Vilhelm í samtali. „Þegar ég var að hefja rannsóknarvinnuna byrjaði ég á því að skoða samband bænda og vinnuhjúa og þá varð fljótt ljóst að það var efni í ritgerð ú taf fyrir sig. Mér fannst viðfangsefnið lítið rannsakað, sérstaklega frá sjónarhóli vinnufólks.“
Algengt fyrirkomulag í Evrópu
Í bókinni kemur fram að vistarband var ekki séríslenskt fyrirbæri. „Þetta var algengt fyrirkomulag á vinnu um alla Evrópu og tíðkaðist vistarskylda um öll Norðurlönd og að einhverju leyti í þýskumælandi löndum. Aðrir sagnfræðingar vissu það að þetta vistarfyrirkomulag tíðkaðist víðar, en sú hugmynd hefur verið viðloðandi að þetta sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri,“ segir Vilhelm. Það komi skýrast fram í heimildarmyndinni Þjóð í hlekkjum hugarfarsins frá 1993.
Aðspurður af hverju rannsóknin er afmörkuð við 19. öldina svarar Vilhelm: „Ég fjalla sérstaklega um áttatíu ára tímabilið þegar regluverkið var hvað strangast. Það er frá 1783, þegar sett voru á lög sem takmörkuðu mjög möguleika fólks á að vera í lausamennsku, fram að nýjum vinnuhjúalögum sem voru sett 1863. 19. öldin er líka áhugaverð því þetta er tímabilið þegar það fer að kvarnast úr þessu kerfi þó að það líði ekki endanlega undir lok fyrr en alveg í enda 19. aldar.“
Flestir losnuðu úr vist
„Eftir lagabreytinguna upp úr 1860 gátu menn sem höfðu náð tilteknum aldri, í kringum 25 ára, keypt sig lausa frá vistarbandi. Það var mjög dýrt til að byrja með – alveg árslaun vinnumanns. Í lok nítjándu aldar var þetta orðið auðveldara, en aldurgrensan var færð neðar og var hægt að kaupa sig lausa fyrir minni pening.“
Þeir sem keyptu sig lausa gátu gerst daglaunamenn, þá gjarnan á sjó. „Þegar vel fiskaðist var hægt að hafa meira upp úr því fjárhagslega. Vist var hins vegar tryggari að því leyti að þú varst með örugg laun, húsaskjól og fæði allt árið sem þú varst í vist.“ Meirihluti fólks hafi losnað úr vist við ákveðinn aldur og orðið sínir eigin húsbændur. „En því gat fylgt fátæktarbasl að vera bóndi og sumir sem flosnuðu upp úr búskap fóru aftur í vinnumennsku.“ Vilhelm bendir á að fólki hafi ekki verið bannað að ganga í hjónaband á meðan það var í vist, þó svo að ekki hafi verið ætlast til þess. „En hjónum gat reynst erfitt að fá vist á sama bænum.“
Verknám í búmennsku
„Að einhverju leyti var þetta jákvætt kerfi því að fólk hafði öruggt fæði og húsaskjól ár í senn. En hjú voru undir vald húsbóndans sett, sem hafði skyldu til að ala sín vinnuhjú eins og þau væru hans börn, því að litið var á þetta sem ákveðið uppeldistæki. Þetta var hugsað sem ákveðinn partur af æviskeiðinu á milli ungdóms- og fullorðinsára. Menn sáu ekki fyrir sér að fólk væri í vist ævilangt, heldur kannski í tíu ár á meðan það væri að læra allt sem það þyrfti til að verða búandi fólk sjálft og væri að koma undir sig fótunum. Því hafði húsbóndinn ákveðið kennarahlutverk.“
Vilhelm segir að sér hafi komið á óvart þegar hann vann að verkefninu hversu mikil hreyfing var á fólki. „Það skipti oft um vist, eða fór í lausamennsku og aftur í vist. Kerfið hljómar svo niðurnjörvað, en það var miklu meiri hreyfing á fólki en það gefur til kynna.“ jafnvel hreyfing milli landshluta.
