Í fyrsta skipti greitt fyrir kornframleiðslu
Í fyrsta skipti styðja stjórnvöld nú beint kornframleiðslu kornbænda. Nýverið var tilkynnt í atvinnuvegaráðuneytinu að búið væri að úthluta styrkjum fyrir framleiðslu þessa árs, alls 76,7 milljónum króna, fyrir bygg, hveiti og hafra.
Um er að ræða einn lið í aðgerðaáætlun stjórnvalda til að efla kornrækt á Íslandi, þar sem gert er ráð fyrir að verja um tveimur milljörðum króna til átaks í kornrækt á árunum 2024–2028.
Styrkur til fjárfestinga í kornrækt var í fyrsta skiptið veittur á síðasta ári til að mynda vegna kornþurrkunarstöðva, nýframkvæmda, stækkana eða endurbóta á stöðvum sem þegar eru í rekstri.
Greiddar 15 krónur á kílóið
Alls sóttu 57 býli nú um framleiðslustyrki og voru allar umsóknirnar samþykktar, en styrkirnir ná til 5.300 tonna heildarframleiðslu þar sem byggrækt er langumfangsmest. Stuðningurinn er veittur til framleiðslu á þurrkuðu korni og eru greiddar 15 krónur á hvert framleitt kíló sem uppfyllir tilteknar gæðakröfur.
Verðmætasköpun í dreifðari byggðum
Í tilkynningu úr atvinnuvegaráðuneytinu er haft eftir Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra að aukin kornrækt stuðli að aukinni verðmætasköpun í dreifðari byggðum. „Kornrækt er jafnframt mikilvægur þáttur í að efla fæðuöryggi og áfallaþol landsins sem er mjög háð innflutningi á korni, bæði til manneldis og fóðurs. Það er mikið fagnaðarefni að sjá hversu margir kornbændur eru tilbúnir í framleiðslu okkur öllum til heilla,“ segir Hanna Katrín.

