Víða pottur brotinn hjá matvælafyrirtækjum
Á þessu ári hefur Matvælastofnun ráðist í átak varðandi eftirlit með vörum sem merktar eru lífrænni vottun. Ástæðan er að borið hefur á því að matvælafyrirtæki hafa ekki fylgt þeim reglum sem gilda um vottaðar lífrænar vörur og hafa ekki haft vottanir fyrir alla virðiskeðju þeirra.
„Það var vitað að víða væri pottur brotinn og það var mótstaða hjá einstaka aðilum. Þess vegna var farið í fræðslu fyrir heilbrigðisfulltrúa til að samræma skilninginn á vottunarskyldunni á öllum heilbrigðiseftirlitssvæðum og styrkja heilbrigðisfulltrúa í sínu eftirliti og í því að gera kröfu um vottun. Síðan þá hafa þeir haft augun opin og beðið um staðfestingu á vottun þegar þeir sjá að lífrænar vörur eru hluti af vöruframboði matvælafyrirtækja,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, fagsviðstjóri hjá Matvælastofnun.
Neytendur verða að geta treyst merkinu
Ingibjörg segir að þótt lífrænt vottuð vara og venjuleg vara geti virst vera eins, sé margt í framleiðslunni og ræktuninni sem getur verið ólíkt. „Meðvitaðir neytendur verða að geta treyst því að þegar þeir velja dýrari vöruna úr hillu verslunar að það sé sannarlega vara sem hefur verið framleidd samkvæmt reglum um lífræna framleiðslu, til dæmis hvað varðar dýravelferð og umhverfisvernd. Evrópulaufið, merki lífrænnar vottunar í Evrópu, á að tryggja þetta. Krafan um vottun allrar virðiskeðjunnar er til að tryggja að neytendur fái það sem þeim er lofað. Einungis er undanþága frá vottun fyrir smásölustaði eða hverfisverslanir, en þar eru samt heilbrigðisfulltrúar með eftirlit.“
Hún segir að átakið hafi skilað árangri, en mótstaðan sé enn til staðar – sérstaklega hjá einstaka dreifingaraðilum. Aðstæður eru mjög misjafnar. Lítill innflytjandi, með bara eina tegund af vottuðu víni, hefur til dæmis valið að hætta að flytja það inn frekar en fara í vottunarferli,“ bætir Ingibjörg við.
Gæta þurfi að vottunum aðfanga
Vottunin sjálf hefur verið hjá vottunarstofunni Túni frá upphafi og eftirlitið er framselt til þeirra af stjórnvöldum. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitin veita matvælafyrirtækjum hins vegar starfsleyfi og geta gert kröfu á matvælafyrirtæki að þau sæki sér vottun ef hana skortir einhvers staðar í virðiskeðjunni.
Ingibjörg bendir að lokum á að íslenskir bændur með lífræna vottun þurfi að gæta þess að fóður og sáðvara sem þeir kaupa sé vottað, og að sá sem selur þeim aðföng sé líka vottaður og undir eftirliti Túns. Sömuleiðis skulu þeir sem setja afurðir lífrænna bænda á markað vera vottaðir, til dæmis afurðastöðvar. Hún nefnir sem dæmi að Mjólkursamsalan og Bióbú séu með vottun og Sláturhús Vesturlands.
