"Það að halda kartöflunum áfram inni í umræddu bráðabirgðaákvæði er einfaldlega markleysa og verið að veita sumarbónus til innflytjenda kartaflna og það að óþörfu."
"Það að halda kartöflunum áfram inni í umræddu bráðabirgðaákvæði er einfaldlega markleysa og verið að veita sumarbónus til innflytjenda kartaflna og það að óþörfu."
Mynd / Úr safni
Fréttir 18. desember 2025

Sumarbónus innflytjenda kartaflna

Höfundur: Margrét Ágústa Sigurðardóttir

Íslenskar jólahefðir snúast að miklu leyti um mat. Hvort sem um ræðir hangikjöt, hamborgarhrygg, kalkún, skötuveisluna á Þorláki, grænmetissteikina eða hvað eina annað. Samnefnari alls þessa er kartaflan en hún er á borð borin með öllum þessum mat. Í skugga stærri hlutverka á hátíðarborðinu er hún samt einn helsti samnefnarinn í matarhefðum jólanna.

Núna er í meðförum þingsins frumvarp, sem framlengir meðal annars bráðabirgðaákvæði í búvörulögunum sem kveður á um tollfrelsi ákveðinna árstíðarbundinna landbúnaðarvara yfir ákveðið tímabil. Í ákvæðinu er að finna ýmsar útiræktaðar grænmetistegundir sem fluttar eru inn án tolla hluta af ári eins og t.d. blómkál, spergilkál, hvítkál, kínakál, rauðkál, gulrætur og næpur og svo loks kartöflur.

Markmiðið með bráðabirgðaákvæðinu á sínum tíma var að koma í veg fyrir skortstöðu þar sem hætta var á og merki um að innlend framleiðsla myndi ekki anna eftirspurn markaðarins og þörfum neytenda. Ákvæðið átti að gilda í eitt ár og miðað við forsöguna þá átti að meta það hverju sinni - hvort og þá hvaða grænmeti myndi falla þarna undir. Þá ætti að líta til þróunar á innlendri framleiðslu og lögð var sérstök áhersla á mikilvægi þess að fylgjast náið með áhrifum breytinganna á tollvernd sem ætlað væri að vernda innlenda framleiðslu og jafna aðstöðumun innlendra framleiðenda gagnvart erlendum framleiðendum. Þá skyldi enn fremur fara fram virkt og öflugt samráð milli stjórnvalda og hagaðila um markaðsaðstæður hverju sinni á þeim vörum sem bæði nytu tollverndar og þeirra tímabila sem kvæðu á um tollfrelsi. Síðan hefur bráðabirgðaákvæðið í heild sinni verið framlengt þrisvar sinnum og núna stendur til að framlengja það í fjórða skiptið. Eðlilega hefur maður skilning á því að horfa verður með raunhæfum hætti á stöðu hvers grænmetis fyrir sig út frá innlendri framleiðslu og þörfum markaðarins hverju sinni. Núna er hins vegar staðan sú að kartöflugeymslur landsins eru smekkfullar. Birgðastaðan er þannig að nægilegt framboð er tryggt fram að næstu uppskeru án þess að grípa þurfi til innflutnings eða sértækra undanþága frá tollum. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við átta grænmetistegundir af þessum níu – þannig að tollfrelsið verði afnumið.

Við hjá Bændasamtökunum höfum ítrekað bent á það bæði þegar frumvarpsdrögin voru kynnt á samráðsgátt og í meðförum þingsins ð óþörf framlenging á þessari undanþágu frá greiðslu tolla varðandi kartöflurnar gæti haft neikvæð áhrif á afkomu innlendra kartöflubænda með því að halda eftirspurn eftir innflutningi án raunverulegrar þarfar. Í frumvarpinu er rökstuðningurinn fyrir framlengingunni sá sami og var uppi við lok árs 2021 þegar ákvæðið var lögfest. Slíkt stenst einfaldlega ekki skoðun og er þvert á tilgang og markmið ákvæðisins. Það að halda kartöflunum áfram inni í umræddu bráðabirgðaákvæði er einfaldlega markleysa og verið að veita sumarbónus til innflytjenda kartaflna og það að óþörfu. Ég ætla ekki að sykurhúða þessa stöðu sem upp er komin, ólíkt því sem mannsefnið ætlar hins vegar að gera við blessuðu kartöflurnar yfir hátíðarnar, en það að vega að innlendri framleiðslu með þessum hætti er einfaldlega ekki boðlegt.

Á árinu sem er að líða hafa bændur og við hjá Bændasamtökunum tekist á við áskoranir, skapað tækifæri og náð árangri sem við öll getum verið stolt af. Ég vil nota tækifærið til að þakka öllum fyrir traustið, samvinnuna og ekki síst samtakamáttinn sem ríkt hefur meðal bænda. Á sama tíma og ég hvet lesendur til að heiðra kartöfluna þessi jólin þá óska ég öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Höfundur er framkvæmdastjóri BÍ.

Skylt efni: Kartöflur | Alþingi | Innflytendur

Erfðagreining eykur rekjanleika nautakjöts
Fréttir 18. desember 2025

Erfðagreining eykur rekjanleika nautakjöts

Matís tekur þátt í alþjóðlegu verkefni, BLINK, sem miðar að þróun rekjanleikaker...

Víðast hvar nóg af rjúpu og gæftir góðar
Fréttir 18. desember 2025

Víðast hvar nóg af rjúpu og gæftir góðar

Rjúpnaveiðitímabilinu lýkur 22. desember á Austurlandi og stendur lengst þar. Ve...

Víða pottur brotinn hjá matvælafyrirtækjum
Fréttir 18. desember 2025

Víða pottur brotinn hjá matvælafyrirtækjum

Á þessu ári hefur Matvælastofnun ráðist í átak varðandi eftirlit með vörum sem m...

Óvissutímar vegna þróunar á alþjóðamörkuðum
Fréttir 18. desember 2025

Óvissutímar vegna þróunar á alþjóðamörkuðum

Allir áburðarsalar nema einn hafa birt verðskrár sínar. Fram komnar verðhækkanir...

Aðlögunaráætlun tekur gildi 2026
Fréttir 18. desember 2025

Aðlögunaráætlun tekur gildi 2026

Ísland hefur birt fyrstu aðlögunaráætlun stjórnvalda vegna áhrifa loftslagsbreyt...

ESA kallar eftir frekari úrbótum
Fréttir 18. desember 2025

ESA kallar eftir frekari úrbótum

ESA gerði eftirfylgni-úttekt á Íslandi um velferð dýra við aflífun og kallar eft...

Tæplega 95 þúsund færri sláturlömb en 2020
Fréttir 18. desember 2025

Tæplega 95 þúsund færri sláturlömb en 2020

Samkvæmt nýjum sláturtölum Matvælastofnunar fyrir síðustu sláturtíð, fækkaði þei...

Vinnuaðferðum skilað til nýrrar kynslóðar
Fréttir 15. desember 2025

Vinnuaðferðum skilað til nýrrar kynslóðar

Út eru komnar þrjár bækur um verk Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara sem smíð...